Rúnar Örn Hafsteinsson fæddist í Reykjavík 25. september 1978. Hann lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut 8. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hans eru Hafsteinn Sigurjónsson, f. 24. mars 1958 og Guðmunda Ingimundardóttir, f. 9. júlí 1959. Þau skildu. Maki Hafsteins er Jónína Ólöf Sighvatsdóttir, f. 20. september 1960. Maki Guðmundu er Þórarinn Björn Guðmundsson, f. 1. apríl 1959. Systir Rúnars Arnar er Rakel Ösp Hafsteinsdóttir, f. 19. janúar 1982, maki Reynir Örn Jóhannsson, f. 5. júní 1981. Sonur þeirra er Ernir Rúnar Reynisson, f. 2. október 2009. Bræður Rúnars Arnar eru Samúel Arnar Hafsteinsson, f. 7. október 2002 og Hafsteinn Ernir Hafsteinsson, f. 10. desember 2003. Hinn 31. október 2009 kvæntist Rúnar Örn Unu Björgu Einarsdóttur, f. 25. febrúar 1977. Dóttir þeirra er Arna Eir U. Rúnarsdóttir, f. 2. september 2008. Foreldrar Unu Bjargar eru Einar Ármannsson, f. 16. maí 1953 og Ásdís Garðarsdóttir, f. 28. janúar 1957. Bræður Unu Bjargar eru Ármann Einarsson, f. 5. september 1982, maki Þórhalla Sólveig Jónsdóttir, f. 20. febrúar 1980, sonur þeirra er Jón Hjaltalín Ármannsson, f. 17. janúar 2006 og Emil Karel Einarsson, f. 5. mars 1994 Rúnar Örn bjó fyrstu ár ævi sinnar á Hornafirði en flutti til Reykjavíkur árið 1992. Á unglingsárum gekk hann í Hagaskóla og lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1999. Rúnar Örn hóf nám í verkfræði við Háskóla Íslands haustið 1999, starfaði meðfram námi við kennslu í Verzló og einnig hjá Íslandsflugi. Hann kláraði tvö ár við verkfræðideild Háskóla Íslands en hélt svo utan til náms í flugvéla- og eldflaugaverkfræði vorið 2001 og lauk meistaragráðu (Dipl.-Ing.) frá Technische Universität í München vorið 2005. Rúnar hóf störf við aðaláhugamálið, flug, hjá Air Atlanta sama haust og var einnig stundakennari við Verkfræðideild Háskóla Íslands. Flug var mikil ástríða Rúnars Arnar og allt sem því tengist en hann var kominn langt með að klára einkaflugmannsprófið er hann lést. Útför Rúnars Arnar fer fram frá Digraneskirkju í dag, 16. nóvember, og hefst athöfnin kl. 15. Jarðsett verður í Garðakirkjugarði.
Það var á aldamóta árinu sem ungur maður sóttist eftir að starfa fyrir flugfélag sem þá hét Íslandsflug. Pilturinn sem hafði alla tíð haft áhuga á öllu því sem tengdist tækni og vísindum var viss um að með því að starfa fyrir flugfélag fengi hann útrás fyrir áhuga sinn og þekkingu. Á þessum tíma var mikill uppgangur hjá Íslandsflugi og mikil þörf á víðtækri þekkingu og góðri menntun á tæknisviðinu og því var ungi maðurinn ráðinn til starfa. Þessi ungi og öflugi maður var Rúnar Hafsteinsson og hóf hann störf í viðhaldsdeild Íslandsflugs. Rúnar var þá nemandi í vélaverkfræði sem hann lauk samhliða vinnu fyrir flugfélagið. Það var því mikill akkur fyrir Íslandsflug að fá í sínar raðir bráðvelgefinn ungan mann, fullan áhuga sem þyrsti eftir að fá að rannsaka og skoða þann heim sem flugreksturinn bjó yfir.
Þegar framliðu stundir og Íslandsflug var orðið sameinað undir merkjum Flugfélagsins Atlanta sinnti Rúnar verkfræðistörfum innan þess félags þar sem hann fylgdisti með að viðhaldsstörf félagsins væru rétt úr garði gerð og hvort eitthvað mætti betur fara á því sviði. Rúnar reyndist Atlanta vel sem starfsmaður, var góður fagmaður, samviskusamur og traustur vinnufélagi. Hann lét ekki erfiðan sjúkdóm koma í veg fyrir að hann sinnti sínu starfi af samviskusemi og kappi til lokadags. Krabbameinið leit hann á eins og hvert annað vandamál sem þurfti að takast á við og stundum fannst manni hann vera að tala um bilaðan flugvélahreyfil þegar hann var að tala um meinið sem hann barðist við og sífellt færðist í aukana. Við samstarfsmenn kveðjum góðan félaga með söknuði um leið og við sendum fjölskyldunni okkar dýpstu samúðarkveðjur. Megi algóður guð styrkja ykkur í sorginni.
Stefán Eyjólfsson starfsmannasjóri Air Atlanta.
Pabbi! Þetta er Rúnar! sagði Kristín mín þar sem þau stóðu brosandi í anddyrinu í Keilufellinu. Þetta voru fyrstu kynnin af Rúnari, sem áttu eftir að standa um árabil.
Kristín og Rúnar fylgdust að í gegnum framhaldsskóla. Framtíðaráformin voru þá þegar ákveðin. Rúnar hafði þá hafið baráttu við meinið sem nú hefur lagt hann að velli. Hann lagði ávallt áherslu á að þetta væri verkefni sem taka þyrfti á. Í stað þess að fara með félögunum í útskriftarferð að loknu stúdentsprófi, þar sem hann vann til verðlauna, þá var haldið á sjúkrahús í meðferð. Elja og dugnaður voru hans eiginleikar sem hann notaði við námið, fyrst hér heima og síðar í Þýskalandi. Árið 2001 fluttu þau til Munchen og bjuggu þar í nokkur ár.
Ófáar ferðirnar fórum við Alda til þeirra, jafnt sumar sem vetur. Áttum þar einnig með þeim okkar fyrstu jól í útlöndum. Þetta voru afar dýrmætar og ógleymanlegar stundir.
Seinna skildu leiðir unga parsins og samskiptin urðu stopulli en við fylgdumst alltaf með á hliðarlínunni.
Að leiðarlokum hugsum við til þess að aldrei var talað um að leggja árar í bát. Áfram skyldi haldið.
Fjölskyldan þakkar þessi kynni af unga manninum sem ávallt horfði fram á við.
Gulli, Alda og fjölskylda.
Daníel Gunnar Ingimundarson .
Þetta er sárt og órettlát en verðum samt að kveðja þig
Sofðu rótt elsku frændi okkar.
Brynja Karen, Daníel Ingi, Rebekka Lind, Katrín Ýr.