Millý Birna Haraldsdóttir fæddist í Reykjavík 4. mars 1933. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 5. nóvember sl. eftir stutta sjúkdómslegu. Foreldrar hennar voru Jóhanna Sigbjörnsdóttir frá Vík í Fáskrúðsfirði, f. 10. maí 1902, d. 2. ágúst 1986, og Haraldur Björnsson frá Sporði í Vestur-Húnavatnssýslu, f. 12. nóvember 1901, d. 7. september 1977. Systkini Millýjar Birnu eru Sjöfn Jóhanna, f. 7. júní 1931, Auður, f. 28. apríl 1935, d. 10. apríl 1993, og Bolli Daníel, f. 1. febrúar 1938, d. 21. september 1974. Eiginmaður Millýjar Birnu var Ólafur Kristján Vilhjálmsson, f. 18. mars 1928, d. 4. mars 2009. Foreldrar hans voru Nikólína Jónsdóttir frá Holti í Mjóafirði, f. 15. júlí 1900, d. 4. ágúst 1958, og Vilhjálmur Jónsson, f. í Bólstað í Hvammshreppi í Vestur-Skaftafellssýslu 23. janúar 1893, d. 15. júlí 1971. Systur Ólafs eru Sigríður, f. 7. apríl 1927, og Guðrún Þorgerður, f. 21. janúar 1933. Börn Millýjar Birnu og Ólafs eru 1) Ragnar, f. 26. nóvember 1963, d. 1. mars 2009, unnusta Valey Björk Guðjónsdóttir, f. 17. janúar 1963, og 2) Líney, f. 28. júlí 1965, gift Karli Tómassyni, f. 17. ágúst 1964, börn þeirra eru Ólafur, f. 28. apríl 1990, unnusta Erla Hrund Halldórsdóttir f. 8. mars 1990 og Birna, f. 10. apríl 2000. Millý Birna lauk prófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Hún starfaði um árabil við ýmis verslunarstörf í Reykjavík og síðar við ræstingar hjá Heilsuverndarstöð Reykjavíkur og á Reykjalundi í Mosfellsbæ. Útför Millýjar Birnu fer fram frá Lágafellskirkju í dag, 17. nóvember, og hefst athöfnin kl. 15.

Í fátæklegum orðum langar mig að minnast elskulegrar móðursystur minnar og vinkonu sem lést þann 5. nóvember síðastliðinn. Veikindi hennar komu mjög skyndilega upp, og eftir aðeins tveggja vikna legu á sjúkrahúsi var hún öll. Engan óraði fyrir að um illvígan sjúkdóm væri að ræða, þann sem leggur svo margan að velli.

Allt frá mínum barnsaldri héldust mikil tryggðabönd milli okkar Millýjar. Eftir lát móður minnar fyrir um fimmtán árum reyndist hún mér ákaflega vel eins og ávallt. Nú seinni árin höfðum við reglulega samband við hvor aðra með símtölum og heimsóknum eða fórum á kaffihús niður í bæ okkur til skemmtunar. Vil ég sérstaklega þakka alla umhyggju Millýjar í minn garð gegnum árin, fráfall hennar er mér djúpstæður missir.

Millý og Ólafur eiginmaður hennar eignuðust tvö börn Ragnar og Líneyju. Millý var alla tíð mikil og góð húsmóðir og lagði allan sinn metnað í umhyggju fyrir fjölskyldunni og heimilinu. Má með sanni segja að hún hafi ræktað garðinn sinn í viðtækri merkingu þeirra orða.

Sá hræðilegi atburður gerðist fyrr á þessu ári að Ragnar lést í bílslysi. Um svipað leyti lést  Ólafur sem hafði þjáðst af veikindum í nokkur ár. Loksins þegar fjölskyldan er að jafna sig af fyrri áföllum dynja önnur ósköp yfir fyrirvaralaust. Skyndilegt fráfall Millýjar er öllum mikill harmur. Við Tryggvi kveðjum heiðurskonu með virðingu og þakklæti.

Elsku Lína, Kalli, Birna, Óli og Erla, guð gefi ykkur styrk til að takast á við alla sorgina.

Legg ég nú bæði líf og önd,
ljúfi Jesús, í þína hönd,
síðast þegar ég sofna fer
sitji Guðs englar yfir mér.
(Hallgrímur Pétursson.)

Milla.