Rósa B. Blöndals, skáld og kennari, fæddist í Reykjavík 20. júlí 1913. Hún lést á Selfossi 6. nóvember 2009. Hún hét fullu nafni Jóhanna Rósa Björnsdóttir Blöndals. Foreldrar hennar voru Björn Blöndal Jónsson löggæslumaður, f. á Álftanesi 13.7. 1881, d. 26.11. 1950 og Jóhanna Jónsdóttir, f. í Skipholti í Hrunamannahreppi 22.6. 1882, d. 10.8. 1969. Systkini Rósu eru Halldóra, f. 1905, d. 1951, Jónbjörg, f. 1907, d. 1976, Guðný, f. 1908, d. 1991 og Gísli, f. 1917, d. 2003. Rósa ólst upp á Framnesi á Skeiðum hjá fósturforeldrum sínum Sigurði Haraldssyni, f. 4.2. 1875, d. 24.7. 1957, og Jarðþrúði Nikulásdóttur, f. 25.3. 1881, d. 16.9. 1969. Uppeldissystir hennar var Ingibjörg Helgadóttir, f. 1924, d. 1997. Rósa giftist 3. október 1933 séra Ingólfi Ástmarssyni, f. á Ísafirði 3.10. 1911, d. á Selfossi 3.6. 1994. Ingólfur var lengst af prestur á Mosfelli í Grímsnesi, áður á Stað í Steingrímsfirði. Hann var biskupsritari 1959 til 1967. Hann starfaði sem skólastjóri um tíma og kenndi t.d. við Menntaskólann að Laugarvatni og Háskóla Íslands. Foreldrar Ingólfs voru Ástmar Benediktsson, f. 1874, d. 1961 og Magnína Júna Rósamunda Guðmundsdóttir, f. 1880, d. 1967. Sonur Rósu og Ingólfs var Sigurður Örn Ingólfsson flugvirki, f. 7.7. 1935, d. 16.3. 2001. Hann kvæntist Sólbjörtu Gestsdóttur. Þau skildu. Börn þeirra eru 1) Ingólfur rekstrarhagfræðingur, f. 1956, kvæntur Sigríði Guðjónsdóttur leikskólakennara, synir Guðjón Örn, Sævar Örn og Arnar Örn; 2) Ástmar Örn húsasmíðameistari, f. 1957, d. 2006, kvæntur Guðrúnu Björgu Sigurbjörnsdóttur, ljósmóður og hjúkrunarfræðingi, börn Ingólfur, Álfheiður, f. 1985, d. 1997, og Björn; 3) Jóhanna Rósa, félags- og menntunarfræðingur, f. 1962, gift Jóni Vilhjálmssyni verkfræðingi, börn Svavar, Erna Dís og Vilhjálmur. Erna Dís og Valur Tómasson eiga Birtu Rós. Örn kvæntist síðar Ellen Nínu Sveinsdóttur. Þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Þórunn Jóhanna hjúkrunarfræðingur, f. 1975, gift Tom Pettie, dóttir Mariah; 2) Ragnheiður Katrín, f. 1977, börn hennar og Bjarna Sigurðssonar eru Lilja Rós og Ellen Nína; 3) Ingibjörg Rós, f. 1979, gift Phil Otteson, börn Sveinn, Luke og Þórunn Desteny; 4) Elín Sólveig nemi, f. 1985. Sonur Arnar og Ástu Láru Leósdóttur er Leó verkfræðingur, f. 1968, börn hans eru Ingólfur Hannes, Alexander og Snædís Erla. Dóttir Arnar og Svandísar Gunnarsdóttur er Guðrún myndlistarkona, f. 1973, gift Gunnari Hansen, börn Vigdís Milly og Andrea. Örn var í sambúð með Steinunni Guðnýju Skúladóttur, sonur Valur tæknifræðingur, f. 1973, í sambúð með Evu Arndal, barn Arnar. Sonur Arnar og Sabine Klein er Samuel nemi, f. 1992. Rósa lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1934. Var lengst af kennari á Laugarvatni og prestsfrú á Mosfelli í Grímsnesi. Bjó síðast á Selfossi. Hún er þekkt fyrir skáldverk sín, djúpskyggni á þjóðarsögu Íslands og náttúruvernd. Í lok árs 2008 gaf hún út ljóðabókina Kveðjur. Aðrar ljóðabækur eru Þakkir, Fjallaglóð, Flúra lúra lýra, Hátíðarljóð á Þorláksmessu og Íslands aldar árþúsunda-aldamót. Aðrar bækur eru Lífið er leikur sem kom út árið 1938, Mývatn – Þjóðgarður 1967, Leyndar ástir í Njálu 1987 og Skáld-Rósa gefin út árið 1989. Útför Rósu fer fram frá Selfosskirkju í dag, 14. nóvember, og hefst athöfnin kl. 11. Jarðsett verður á Mosfelli í Grímsnesi.
Mín kæra systir" vorum við vanar að ávarpa hvor aðra í bréfum okkar þegar ég dvaldi fjarri Íslandi og ferðaðist um ólíka menningarheima. Við bárum bækur okkar saman um Rómaborg, þangað sem Rósa hafði komið með fríðu föruneyti kristilegra embættismanna fyrir margt löngu og rifjaði hún m.a. upp stórfengleika Péturskirkju fyrir mér á þann hátt að hún fylgdi mér í anda. Þegar ég var í Egyptalandi, hlakkaði hún til að fá mig heim og heyra ferðasöguna yfir sterkum kaffibolla við litla borðið hennar í íbúð aldraðra á Selfossi. Þangað var gott að koma enda tók Rósa ætíð á móti gestum með innilegheitum og mikilli gestrisni á meðan heilsan leyfði. Þrátt fyrir mikinn aldursmun, þá fundum við aldrei fyrir því á nokkurn hátt, enda hún svo ung í anda. Ég kynntist Rósu þegar hún var komin hátt á níræðisaldur þegar ég falaðst eftir útvarpsviðtali eftir að hafa heyrt um þessa merkilegu konu. Örn, sonur hennar, sem nú er látinn fyrir nokkrum árum, bauð mér við það tækifæri í kaffi til móður sinnar og ræða málin. Þar beið mín veisluhlaðborð með ilmandi heimabökuðu brauði, heitu súkkulaði með rjóma og nokkrar tertur. Undir svignandi veisluborðinu hófst vinskapur minn við þau mæðgin og urðum við Rósa nánir vinir á þeim tíma sem ég var búsett á Selfossi. Við vorum vanar að hittast og baka brauð saman, þ.e. Rósa bakaði og ég hellti upp á gamla mátann. Við ræddum þau mál sem voru okkur hugleikin, trúarbrögð, heimspeki, bókmenntir, skáldskap, stjórnmál og ekki síst umhverfismál.
Rósa var sterk í sinni trú og umhverfissinni frá unga aldri. Hún flutti mörg erindi í útvarp á árum áður, auk ótaldra blaðagreina og er óhætt að segja að hún var langt á undan samtíma sínum. Hún þreyttist aldrei á að tala máli náttúruverndar og fannst þjóðin vera sofandi að feigðarósi í allri eyðileggingunni. Ljóðin sem hún orti og bækurnar sem hún skrifaði, báru þess merki að þar færi skáld með sterka réttlætiskennd og ást til náttúru Íslands.
Eins sú ógleymanlegasta ferð sem ég hef farið á Íslandi var þegar við Rósa ákváðum að bregða okkur á Strandir, hún níræð og rétt að jafna sig eftir að hafa mjaðmarbrotnað. Hún hafði beðið mig um að aðstoða sig við að pakka Oblátuskál, eftir að hafa heitið á Guðmund góða, biskup, skrautritaða og lét með fylgja fermingarhringinn sinn. Skálina átti að senda sókninni á Hólmavík með pósti, en stakk ég þá upp á að við myndum frekar keyra saman og hún afhenda gjöfina í eigin persónu. Það var ákveðið og sonarsonur hennar brást strax við og bauðst til að keyra okkur á vel útbúnum fjallabíl ásamt konu sinni. Næsta morgun var svo lagt af stað, Rósa uppáklædd og maddömmuleg, búin að útbúa sparinesti fyrir ferðalagið og kaupa gjafir handa fyrrverandi sóknarbörnum, sem dvöldu nú á sjúkradeild aldraða á Hólmavík. Það var ómetanlegt að hlusta á Rósu þar sem hún þekkti hvern krók og kima, þuldi upp bæjarnöfn og gamlar frásagnir. Ég gleymi aldrei þegar við svo stóðum við altarið í kirkjunni á Stað, sama dag og maður hennar heitinn, Sr Ingólfur, hefði átt 60 ára vígsluafmæli. Heimsókn til aldraðra og eftirlifandi sóknarbarna þeirra presthjóna, á sjúkrahúsið á Hólmavík og afhending Oblátuskálarinnar í krikjunni, var einstök og ólýsanleg. Rósa og Sr Ingólfur voru þekkt fyrir að kenna þeim að lesa sem ekki áttu kost á skólagöngu og reyndust þeim vel sem minna máttu sín. Kærleikurinn einkenndi þau bæði auk þess að vera með afbrigðum greind og víðsýn.
Rósu á ég svo margt að þakka... einlægan vinskap og hvatningu ásamt því að hafa kennt mér að yrkja og syni mínum að lesa. Hún var mikil og greind kona, fyrirmynd mín á svo margan hátt og ég ríkari fyrir að hafa fengið að kynnast henni. Ég veit að Rósa kvaddi þennan heim fullviss í sinni kristinni trú og södd lífsdaga. Eftirlifandi ættingjum votta ég samúð mína, en minning Rósu mun lifa eins og ljós um alla tíð.
Soffía M. Gústafsdóttir Merkisteini.
Frú Rósa Blöndal skáldkona er dáin, og langar mig til að þakka henni fyrir öll almennilegheit og manngæði. Og alla ánægju sem hún hefur veitt mér og svo allar gjafirnar líka.
Við vorum jafngamlar og vorum í skóla saman og þar áttum við margar ánægjustundir saman á Húsatóttum á Skeiðum. Hún gerði ljóð í heila bók sem hún gaf mér.
En nú er hún horfin frá mér. Ég bið Guð að blessa hana og gefa henni frið í Jesú nafni.
Sigurbjörg Gísladóttir.