Kristbjörg Marteinsdóttir fæddist á Siglufirði þann 12. desember árið 1964. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut þann 11. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hennar eru þau Marteinn Jóhannesson, f. 7.8. 1944 og Sigurlaug Haraldsdóttir, f. 25.6. 1945. Bróðir Kristbjargar er Birkir Marteinsson, f. 27.7. 1971, unnusta Birna Berndsen, f. 12.7. 1977, sonur þeirra er Kári Berndsen Birkisson, f. 24.4. 2008. Kristbjörg giftist árið 1988 Elíasi Haraldssyni, f. 12.2. 1965, syni Haraldar Benediktssonar, f. 13.2. 1923 og Guðrúnar Elíasdóttur, f. 25.6. 1930. Börn Kristbjargar og Elíasar eru þau Sigurlaug Tara Elíasdóttir, f. 12.3. 1987, unnusti Árni Þór Jónsson, f. 23.3. 1987, og Marteinn Högni Elíasson, f. 27.3. 1996. Fram að 10 ára aldri ólst Kristbjörg (Kittý) upp á Siglufirði en þá flutti fjölskyldan til Hveragerðis þar sem hún lauk grunnskóla. Eftir grunnskóla fór hún í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og síðar í Fjölbrautaskólann við Ármúla. Næst lá leiðin í Lyfjatækniskólann og þaðan útskrifaðist hún sem lyfjatæknir árið 1985. Lengst af starfaði Kittý í Pharmaco, síðar Vistor, en þar var hún samtals í 21 ár, síðast sem markaðsstjóri lausasölulyfja. Kittý hóf störf sem markaðsstjóri hjá Te og kaffi árið 2007. Hún stundaði nám í markaðs- og útflutningsfræði í endurmenntun Háskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 2002. Nú í haust hóf hún meistaranám í lýðheilsufræði (MPH) við Háskólann í Reykjavík og stundaði nám sitt af kappi allt fram á síðasta dag. Kittý var mjög vel hagorð og orti fjölda af ljóðum og textum. Kittý hafði gaman af útiveru og hreyfingu og var mikil skíðamanneskja. Hún lagði sitt af mörkum í baráttunni við brjóstakrabbamein og tók þátt í Avon-göngunni í New York árið 2008 og var virkur þátttakandi í samtökunum Göngum saman. Hún barðist alltaf hetjulegri baráttu við sitt mein og gafst aldrei upp. Stofnaður hefur verið minningarsjóður um Kittý. Útför Kristbjargar fer fram frá Háteigskirkju í dag, 19. nóvember 2009, og hefst athöfnin kl. 13.

Þá er komið að kveðjustund elsku vinkona. Hefði óskað þess að getað hitt þig og fengið að faðma þig og knúsa einu sinni enn, en lífið er hverfult og enginn veit hvenær að kallið kemur.

Á svona stundu streyma dýrmætar minningar fram sem gott er að eiga og ylja sér við.  Við hjónin kynntumst Kittý og Ella þegar þau urðu nágrannar okkar í Birkihlíðinni.  Ég kannaðist lítillega við Ella úr Hlíðaskóla og þekkti Kittý í sjón, enda áberandi glæsilegt par þar á ferð sem eftir var tekið.  Dony stakk upp á því að bjóða nýju nágrönnunum í mat, en ég hélt nú ekki, það væri ekki til siðs á Íslandi að banka upp hjá bláókunngugu fólki og bjóða í mat.  Að lokum lét ég þó tilleiðast og þau þáðu boðið, ákvörðun sem varð upphafið af sérstökum og traustum vinskap. Við áttum skemmtilegar og ógleymanlegar stundir saman, bæði heima og að heiman.  Upp í hugann koma skemmtilegar minningar um skíðaferðirnar með krökkunum okkar en ekki síst minningar um heimsóknir þeirra til okkar á Sikiley.  Í þeim heimsóknum var mikið fjör og mikið hlegið, eins og alltaf í návist þeirra. Kittý var óvenju glæsileg og heillandi kona sem hafði einstaklega góða nærveru og með sínu hlýja viðmóti leið öllum vel í návist hennar.  Fjölskyldan var henni allt, Elli ásamt gimsteinunum tveimur, Töru og Marteini, sem hún var afar stolt af og þreyttist aldrei á að segja sögur og fréttir af.

Hún var mjög hæfileikarík og listræn og lagði kapp á að gera allt vel sem hún tók sér fyrir hendur. Í veikindum sínum sýndi hún ótrúlegan baráttuvilja og jákvæðni og reyndi ávallt að sjá spaugilegu hliðarnar á hlutunum, allt til hinstu stundar.  Hún naut þeirrar gæfu að eiga góða fjölskyldu og vini sem stóðu þétt við bak hennar.

Elsku vinkona, mig langar að þakka þér fyrir allt sem þú gafst mér.  Þú munt ávallt eiga sérstakan stað í hjarta mínu og ég vil minnast þín eins og þú varst, falleg, glæsileg og brosmild.  Megi minningin um þig vera ljósið í lífi okkar allra.

Elsku Elli, Tara, Marteinn, foreldrar, bróðir og langamma, það er von okkar Donys að algóður guð verði með ykkur og veiti ykkur styrk á þessum erfiðu stundum.

Gréta B. Valdimarsdóttir.

Það er oft sagt með fólk að það sé fallegt að innan sem utan.  Í raun eru það hins vegar fáir sem standa í einlægni undir þessari samlíkingu.  En það gerði Kittý svo sannarlega.  Eiginleikarnir hennar til að vera alltaf jákvæð, alltaf hvetjandi, tala aldrei neikvætt um náungann né heldur að taka þátt í óþarfa masi voru eiginleikar sem svo sannarlega er erfitt að finna.  Það er erfið tilhugsun að eiga ekki eftir að hitta þessa einstöku konu aftur, konuna sem mætti manni aldrei nema með brosi á vör.  Sjálf var ég svo heppin að kynnast Kittý og Ella í gegnum vinskap fyrrverandi nágranna þeirra í Birkihlíð.  Áður en langt um leið varð litli hjónaklúbburinn til; Kittý og Elli, Gréta og Dony og síðan við hjónin.  Alltaf var gaman að skipuleggja matarboð hjá klúbbnum, að hittast heima hjá einhverjum okkar og hlæja saman heila kvöldstund.  Kittý átti svo sannarlega stóran þátt í þessum skemmtilegu stundum.  Bara það eitt að heyra hana hlæja fékk okkur hin til að skella uppúr líka og hafa gaman af.  Og Kittý hló oft og hló mikið.  Hún hafði líka einstakan húmor.  Hver önnur myndi gefa eiginmanninum straujárn í fertugsafmælisgjöf?!

Í gegnum árin hafa fréttir af Kittý verið hluti af mínu daglega lífi.  Gréta og Kittý voru í stanslausu sambandi.  Þess vegna fékk ég alltaf fréttir af Kittý og Kittý fékk síðan fréttir af mér.  Þegar Gréta var á landinu kom ekkert annað til en að við þrjár skipulögðum síðan að hittast.  Stundum fengu karlarnir að fljóta með.  Stundum hittumst við stelpurnar bara einar.  Aðalmálið var að það var alltaf gaman að vera með Kittý.  Þegar veikindin tóku sig upp á ný sýndi Kittý aftur sinn einstaka eiginleika til að berjast af krafti við ofureflið.  Rétt eins og með hláturinn smituðumst við hin með.  Jú, ekkert að gera annað en að berjast á móti.  Litli hjónaklúbburinn aðlagaði sig prógraminu og skipulagði sína viðburði eftir því.  Fyrst Kittý gat verið svona sterk, þá gátum við hin verið það líka.  Og í veikindunum fékk listamaðurinn í Kittý að njóta sín.  Það er því hlý tilhugsun í dag að eiga menin hennar í skartgripasafninu; árshátíðarfestin með gullhúðuðum hraunstein, bláa skvísumenið sem hún gerði fyrir bekkjarmótið mitt, vinkonumenið sem ég gaf í fertugsafmælisgjöf, flotta Törubandið sem ég kalla marglitaða armbandið frá henni.   Já, Kittý var svo sannarlega einstök kona og þannig mun ég alltaf minnast hennar.  Ég var heppin að eignast hana sem vinkonu.   Ella, Töru, Marteini og foreldrum og fjölskyldu Kittýar votta ég mína innilegustu samúð.

Rakel Sveinsdóttir.

Í dag kveðjum við vinkonu og bekkjarsystur með miklum söknuði.

Af miklu æðruleysi, Kristbjörg, barðist þú við veikindi þín, en svo kom að baráttu þinni lauk.

Kristbjörg þú varst alltaf þú sjálf, engin uppgerð eða látalæti, þessi eiginleiki, æðruleysið og húmorinn fyrir sjálfri þér sem og ótrúlegt rólyndi og innri styrkur hjálpaði þér og fjölskyldu þinni í gegnum veikindin þín.

Og það er margt sem þakka ber
við þessa kveðjustund.
Fjör og kraftur fylgdi þér,
þín fríska, glaða lund.
Mæt og góð þín minning er
og mildar djúpa und.

(G.Ö.)

Fjölskyldu þinni vottum við okkar dýpstu samúð.

Kæra vinkona hvíl þú í friði.

Bekkjarsystur úr Lyfjatæknaskóla Íslands.

Kittý mín ég missti af þér.  Ég hringdi en þú gast ekki svarað og nú ertu farin.  Hve ég vildi að þú hefðir svarað.  Við ætluðum að hittast og ræða smíðarnar sem þú hafðir svo gaman af en nú er það of seint.  Mig langaði að fá þig til mín í blíðunni í sumar en þig langaði í göngutúr og treystir þér ekki í brekkuna í Kópavoginum.  Þú vildir skoða mannlífið í miðbænum en ég var bíllaus í Garðabænum.  Af hverju stökk ég ekki bara upp í strætó og hitti þig Kittý mín?   Ég var í miðju verkefni, sem virtist mikilvægt þá, en í dag man ég ekki einu sinni hvað það var.  Þú sendir mér sms í sumar og spurðir mig hvort að ég væri á landinu, en ég var í Ameríku.  Svona fórum við endalaust á mis við hvora aðra.  Ég horfi til baka í þessa fáu mánuði sem liðnir eru síðan ég kom heim úr náminu og spyr.  Hví fór tíminn svona hratt frá mér því að núna stendur hann í stað.

En Kittý mín ég ætla að minnast allra þeirra góðu stunda sem við áttum saman sem vinnufélagar í Pharmaco og seinna sem vinkonur.  Vísurnar þínar, endalaus gleðin, krafturinn og þinn ótrúlegi hæfileiki að sjá það fyndna út úr öllu.  Þú gast seint skilið hvernig pjattrófan ég gat þrifist í fellihýsi á sumrin uppi á heiðum með ekkert rafmagn fyrir hárþurrkuna.  Þú gafst þessu ágæta farartæki nafnið hrellihýsi og sást enga rómantík í þessum ferðamáta sem við Arna töluðum svo fallega um.  Ég hlæ í gegnum tárin þegar ég hugsa til baka til einnar af þó mörgum kvennaferðum Pharmaco sem við fórum í.  Hvert við vorum að fara man ég ekki en gleðin í rútunni var engu lík.  Margrét Lár. spilaði að venju á gítar og allar sungum við konurnar af hjartans lyst.  Skyndilega stend ég upp og ríf upp stóru snyrtitöskuna mína og byrja að laga mig til.  Arna fylgir fast á eftir og reynir að bæla niður sætar krullur sem skotið höfðu upp kollinum.  Þú lítur á mig, síðan á töskuna og svo á Örnu og skellir upp úr eins og þér var einni lagið.  Hvernig við tvær þrifumst í hrellihýsi var þér hulin ráðgáta.  Þú rifjaðir þetta oft upp þegar við stelpurnar hittumst og við hlógum dátt að fyndni þinni og lúmskri stríðni.

Það rifjast upp göngutúr í Öskjuhlíðinni eitt sumarið eftir að þú veiktist fyrst.  Við Pharmaco vinkonurnar hittumst heima hjá þér og skunduðum af stað í göngutúr.  Þú og ofvirki hundurinn minn hlupuð brekkurnar eins og engar væru á meðan við hinar máttum hafa okkur allar við að halda í við ykkur.  Þarna var kraftinum sem í þér bjó best lýst.  Þú varst sönn baráttukona.

Ég man daginn sem við eyddum saman sumarið 2007 á verkstæðinu mínu og við fundum út hvernig best væri fyrir þig að gera hálsmenið sem þig langaði til að smíða.  Höndin þín aftraði þér, en þú varst full af vilja.  Við ákváðum að hvíla okkur og kaffibollinn og einlæga spjallið sem við áttum á kaffihúsinu er mér ferskt í minni.  Þar opnaðir þú þig meira en þú hafðir gert áður.  Þú varst að ganga í gegnum sömu þraut og frænka mín hafði gert.  Ég vissi að þér leið ekki vel en þú sagðir það ekki.  Þú vildir vera sterk.  Ég varðveiti þessa stund okkar Kittý mín því hún er mér ótrúlega dýrmæt.

Ég er glöð yfir að hafa sótt þig óvænt þegar við Berglind höfðum mælt okkur mót í hádegismat. Ég man þann fund eins og hann hefði verið í gær og geymi minninguna í hjarta mínu.  Ég vitna í orð Berglindar þegar hún sagði við mig í pósti um daginn: ,, Skrýtið hvað "hversdagslegar" stundir eins og slíkar verði dýrmætari við svona aðstæður. Það eru svo sannarlega orð að sönnu. Það eru litlu stundirnar í þessu lífi sem skipta máli þegar öllu er á botninn hvolft.

Ég er svo glöð yfir því að þið Anna skylduð koma við hjá mér í maí og fá hjá mér  kaffibolla.  Þú spurðir mig hvort að ég væri ekki með rúsínutær? Það var þín leið til að sjá það spaugilega út úr öllu.  Þú sýndir mér myndir af öllu því fallega sem þú varst búin að búa til og hafðir meira að segja haldið sýningu.  Hvílík listakona sem þú varst og rétt að byrja.

Ég kveð þig elsku vinkona með orðum úr bókinni sem þú færðir mér að gjöf þegar reyndi á í mínu lífi og þú sagðir mér að líta daglega í hana og sækja í hana visku dagsins.  Bókin hefur fylgt mér milli heimsálfa og ávalt verið nálægt mér.  Í henni lifir sterk minning um þig.  Ég gerði eins og þú sagðir mér að gera að opna hana og lesa þá síðu sem ég lenti á.  Orðin sem komu upp í dag eru á þann veg:

Ég á ekki von á að ganga lífsleiðina nema einu sinni.

Gefist mér tækifæri til að vera góður eða gera samferða-

manni greiða, lát mig þá

gera það núna, ekki fresta því

eða láta það ógert, því ég

mun ekki fara þessa leið aftur.

William Penn (1644-1718)
Með þessum orðum kveð ég þig Kittý mín.  Minningin um þig lifir.  Ljósið mun lifa á vinnustofunni minni og í þínu nafni mun ég leggja baráttunni gegn brjóstakrabbameini lið.  Því lofa ég þér.  Guð veri með þér kæra vinkona.  Þín verður saknað.

Elsku Elli, Tara, Marteinn Högni og aðrir aðstandendur sem eigið um sárt að binda.  Megi Guð vera með ykkur og varðveita um ókomin ár.  Missirinn er mikill.

Sædís Bauer Halldórsdóttir.