Guðbjörn Níels Jensson fæddist í Reykjavík 16. júlí 1934. Hann andaðist á Landspítalanum við Hringbraut 7. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Björg Einarsdóttir, f. 17. júlí 1901, d. 21. febrúar 1990 og Jens Runólfsson, f. 27. október 1895, d. 9. maí 1977. Systkini Guðbjörns eru Guðný, f. 19. nóvember 1924, d. 16. júlí 2005, Helga Jóna, f. 14. mars 1926, Rafn Ingólfur, f. 2. september 1927, Einar Vilhelm, f. 5. apríl 1930, d. 20. október 1994, Sigurður, f. 8. maí 1931, d. 10. mars 1932, Sigurður, f. 2. nóvember 1932, og Valfríður, f. 7. september 1936. Guðbjörn kvæntist 31. desember 1955 Guðrúnu R. Pálsdóttur, f. 29. janúar 1937. Foreldrar hennar voru Ása Björnsdóttir, f. 29. apríl 1913, d. 17. mars 2000 og Páll Rögnvaldsson, f. 2. september 1903, d. 8. ágúst 1976. Börn Guðbjörns og Guðrúnar eru: 1) Ása Linda, f. 1. janúar 1955, maki Ragnar H. Ragnarsson. Börn þeirra eru Guðbjörn Hilmir, f. 24. maí 1985, Guðný Björg, f. 11. apríl 1990, og Sveinn, f. 25. desember 1989, d. 25. desember 1989. Fyrir átti Ása Linda Arnar Geir Stefánsson, f. 7. mars 1975 með fyrrverandi eiginmanni sínum Stefáni Karlssyni, f. 2. september 1952. 2) Gunnar Páll, f. 10. mars 1956, var kvæntur Auði Pétursdóttur, f. 15. apríl 1962. Þau slitu samvistum. Börn þeirra eru Linda Björk, f. 22. september 1980, Erna Guðrún, f. 30. júlí 1988, og Bjarki Páll, f. 14. júní 1994. 3) Björgvin Jens, f. 16. júlí 1957, maki Steinunn G. Jónsdóttir, f. 23. mars 1959. Börn þeirra eru Ingvar Þór, f. 15. ágúst 1977, Birgir Örn, f. 10. nóvember 1981, og Berglind Ósk, f. 19. september 1983. 4) Rafnar Þór, f. 21. apríl 1959, maki Guðrún Á. Eðvarðsdóttir, f. 21. janúar 1961. Börn þeirra eru Brynjar Eddi, f. 28. júní 1985, og Róbert Darri, f. 6. mars 1991. Fyrir átti Rafnar Þór Ragnar Pál, f. 11. ágúst 1976, með fyrrverandi sambýliskonu sinni, Evu H. Kristjánsdóttur, f. 22. október 1959. Langafabörn Guðbjörns eru þrjú. Guðbjörn fæddist í Reykjavík en ólst upp í foreldrahúsum í Hafnarfirði ásamt systkinum sínum, fyrst á Selvogsgötu og síðar að Köldukinn 7. Guðbjörn og Guðrún hófu búskap sinn í Hafnarfirði en fluttu fljótlega til Reykjavíkur, bjuggu fyrstu árin í Laugardalnum, síðar í Ásgarðinum en undanfarin tuttugu ár í Fannafold. Guðbjörn var mjög félagslyndur maður og virkur í félagsmálum og á yngri árum var hann félagi í söngkvartett Hreyfils en undanfarin ár vann hann aðallega að kórstörfum með Breiðfirðingakórnum og kór Eldri Þrasta í Hafnarfirði. Guðbjörn vann fyrstu árin sem atvinnubílstjóri en hóf síðar nám í húsgagnasmíði hjá Kristjáni Siggeirssyni og starfaði við þá iðngrein þar til hann lét af störfum sökum aldurs. Útför Guðbjörns fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 17. nóvember og hefst athöfnin kl. 13.

'Afi minn er fyndinn! hljómar kannski undarlega, afar eru venjulega ekki smáhrekkjóttir brandarakallar, hvað þá að þeir syngi og spili á gítar í allskyns mannfögnuðum. Bjöss'afi er ekkert sérlega hávaxinn, en þú tekur eftir honum því hláturinn glymur langar leiðir og einlægt brosið lýsir upp andlitið.

Nei, þetta var rangt hjá mér. Hann syngur hvorki né spilar lengur, brosið er horfið og hláturinn heyrist aldrei framar.

Við fáum ekki að sjá hann á gættinni í Fannafoldinni, geislandi af gleði, fagnandi því að fá krakkana sína í heimsókn. Við krakkarnir, hvort sem voru börnin, barnabörnin eða barnabarnabörnin, vorum fjársjóðurinn hans.

Sjáiði hvað ég á" heyrðist í honum þegar við söfnuðust saman, sem við gerðum eins oft og tækifæri gafst. Sjáiði hvað ég er ríkur" sagði hann og benti yfir hópinn.

En við krakkarnir erum líka rík. Rík af minningum. Rík af nánum ættmennum. Rík þín vegna. Takk fyrir minningarnar. Takk fyrir ástúðina, kátínuna, sönginn og samveruna. Takk fyrir þann tíma sem við fengum með þér. Takk!

Með ólýsanlegum söknuði.


P.S. Mér þykir alveg óskaplega vænt um þig

Arnar Geir Stefánsson.