Halldóra Sigurlaug Jónsdóttir fæddist í Þverárdal í Bólstaðarhlíðarhreppi, Austur-Húnavatnssýslu, 11. mars 1921. Hún andaðist á Heilbrigðisstofnun Siglufjarðar föstudaginn 25. september 2009. Foreldrar Halldóru voru Jón Björnsson bóndi á Heiði, f. á Ytri-Löngumýri í Blöndudal, Austur-Húnavatnssýslu 17. júlí 1891, d. 27. júlí 1983, og Finney Reginbaldsdóttir húsfreyja, f. á Látrum í Aðalvík, Norður-Ísafjarðarsýslu 22. júní 1897, d. 7. desember 1988. Systir Halldóru er Sigríður Jóhanna Jóhannsdóttir, f. 28. apríl 1923. Kjörforeldrar Sigríðar Jóhönnu voru Jóhann Einarsson, f. 22. desember 1885, d. 9. apríl 1973 og Sigríður Þórunn Sigurðardóttir, f. 22.desember 1885, d. 1. júlí 1974. Þann 24. ágúst 1946 giftist Halldóra, á Hólum í Hjaltadal, Jóhannesi Þórðarsyni yfirlögregluþjóni, f. á Siglufirði 29. september 1919. Foreldrar Jóhannesar voru Þórður Guðni Jóhannesson, f. á Sævarlandi, Laxárdal ytri, Skagafirði, 13. júlí 1890, d. 15. mars 1978, og Þórunn Ólafsdóttir, f. í Reykjavík 14. apríl 1884, d. 28. nóvember 1972. Börn Halldóru og Jóhannesar eru: 1) Jón Finnur rafiðnfræðingur, f. 24. september 1951, d. 28. maí 2003. Fyrri kona hans er Guðrún Helga Hjartardóttur, f. 25. desember 1961. Þau skildu. Seinni kona hans er Ólafía Margrét Guðmundsdóttir ljósmóðir, f. 28. mars 1955. Dóttir þeirra er Margrét Finney, f. 12. desember 1997. Synir Jóns Finns eru: a) Jóhannes Már, f. 30. september 1974, móðir hans er Þóra Hansdóttir, f. 26.júlí 1954. Kona hans er Halldóra Íris Sigurgeirsdóttir, f. 14. desember 1972. Dóttir þeirra er Eydís Ósk, f. 10. mars 1999. b) Kjartan Orri, f. 20. júní 1978, móðir hans er Þorgerður Heiðrún Hlöðversdóttir, f. 3. ágúst 1955. 2) Soffía Guðbjörg hjúkrunarfræðingur, f. 11. maí 1957, maður hennar er Ólafur Kristinn Ólafs viðskiptafræðingur, f. 11. maí 1957. Dætur þeirra eru: a) Halldóra Sigurlaug, f. 23. júní 1985 og b) Magnea Jónína, f. 14. nóvember 1989. Halldóra ólst upp í Skagafirði. Fram til 5 ára aldurs bjó hún á Sjávarborg í Borgarsveit og til 15 ára aldurs á Heiði í Gönguskörðum er hún flutti til Sauðárkróks. Hún hóf skólagöngu sína í farskólum til skiptis á bæjunum Heiði og Veðramóti og útskrifaðist gagnfræðingur frá Sauðárkróki. Hún stundaði síðan nám í húsmæðradeild Kvennaskólans í Reykjavík. Halldóra fór þá til starfa á Sjúkrahúsi Siglufjarðar. Á Siglufirði kynntist hún eftirlifandi eiginmanni sínum Jóhannesi Þórðarsyni og bjuggu þau þar eftir það. Halldóra vann meðal annars við verslunarstörf, síldarsöltun og ræstingar. Halldóra starfaði mikið að félagsmálum og lét til sín taka í mörgum félagasamtökum, meðal annars í Slysavarnafélaginu, Rauða krossinum, Krabbameinsfélaginu, Hjartavernd og Framsóknarflokknum. Í mörgum félögunum á Siglufirði var hún formaður um langt skeið. Hún starfaði jafnframt í nefndum á vegum Siglufjarðarbæjar. Útför Halldóru fór fram í kyrrþey frá Siglufjarðarkirkju 17. október 2009.

Tengdamóðir mín hefur nú kvatt þennan heim. Hún lést á Siglufirði 25. september 2009, 88 ára að aldri. Útför hennar fór fram í kyrrþey frá Siglufjarðarkirkju þann 17. október sl. Tímabundnar aðstæður mínar leyfðu ekki að ég færi norður til að fylgja henni síðasta spölinn. Nokkur orð í hennar minningu verða því hinsta kveðja mín til hennar. Okkar kynni hófust þegar við Jón Finnur sonur hennar ákváðum árið 1994 að eyða lífinu saman. Sú vegferð varð þó styttri en ég og aðrir sem hann þekktu hefðu óskað, þar sem hann lést langt um aldur fram árið 2003.
Halldóra tók mér fagnandi frá fyrstu tíð og tókst með okkur góð vinátta sem var mér afar mikils virði. Hún bar hag okkar fyrir brjósti og fylgdist vel með okkur símleiðis á meðan heilsa hennar gaf henni þrek til þess. Halldóru var ekki bara umhugað um sína nánustu því hún var mikilvirk í hverskyns líknarfélögum sem höfðu það að markmiði að styðja lítilmagnann. Hún var virkur félagi í Slysavarnarfélaginu á Siglufirði, Rauða krossinum, Hjartavernd og Krabbameinsfélaginu, svo eitthvað sé nefnt. Margir eiga henni margt að þakka og eru ómældar þær stundir sem fóru í allskyns sjálfboðastörf - án þess að hún hafi nokkurn tíma fundið hjá sér þörf fyrir að berja sér á brjóst vegna þess sem hún gerði.
Hún var alla tíð dyggur stuðningsmaður Framsóknarflokksins, var þar flokksbundin og starfaði fyrir flokkinn á Siglufirði og tók þátt í starfi hans á landsvísu á meðan hún hafði heilsu til. Ekki þótti henni gott að  orði væri hallað á flokkinn hennar en þoldi þó syni sínum smástríðni í þeim efnum.
Halldóra var afar samviskusöm og nákvæm í sínum verkum sama hver þau voru. Hún gerði sér far um að sinna störfum sínum vel og veit ég að Jóhannes hennar tryggi og umhyggjusami eiginmaður studdi hana í öllu því sem hún tók sér fyrir hendur og var bæði ritari og bílstjóri hennar þegar á þurfti að halda.
Síðustu árin dvöldust þau hjónin á Heilbrigðisstofnuninni á Siglufirði og nutu þar góðrar umönnunar þeirra sem þar starfa og veit ég að þau voru afar þakklát fyrir það góða atlæti sem þau nutu þar. Ekki voru heimsóknir okkar til þeirra þar jafn tíðar og áður en alltaf voru þau jafn ánægð að sjá okkur og best var þegar við gátum litið inn á Hverfisgötunni og fengið okkur kaffisopa þar.
Jóhannes hefur misst mikið við það að Halldóra hefur nú kvatt þennan heim og bið ég góðan Guð að veita honum styrk og blessun.



Ólafía M. Guðmundsdóttir.