Benedikt Davíðsson fæddist á Patreksfirði þann 3. maí 1927. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 13. nóvember sl. Foreldrar hans voru hjónin Davíð Davíðsson, f. 21.ágúst 1903, d. 11. janúar 1980 og Sigurlína Benediktsdóttir, f. 8. nóv 1900, d. 18. apríl 1941. Stjúpmóðir Benedikts var Guðrún Guðbjörg Einarsdóttir. Benedikt átti tvo yngri albræður, þá Ólaf, f. 1929 og Davíð Jóhannes, f. 1933. Einnig átti hann fjögur hálfsystkini, þau Sigurlínu, f. 1942, Guðnýju, f. 1944, Höskuld, f. 1948 og Hreggvið, f. 1953. Börn Guðrúnar voru einnig fjögur, Ingimar Einar, Guðjóna, Gunnbjörn og Guðrún Ólöf. Benedikt var fæddur og uppalinn á Patreksfirði en fluttist til Reykjavíkur vorið 1945. 1952 kvæntist hann Guðnýju Stígsdóttur frá Horni á Hornströndum, f. 24.8. 1928, d. 8.3. 1972 og varð þeim fjögurra barna auðið. Þau eru: 1) Guðríður Helga, f. 1950, hennar maður er Hagerup Isaksen. Börn þeirra eru: a) Haraldur, kona hans er Ásthildur Gestsdóttir og eiga þau fjögur börn. b) Guðný Rut, hún á tvö börn. c) Rakel Ýr, hennar maður er Einar Helgason, þau eiga þrjú börn. d) Helgi Már hann er kvæntur Bergrúnu Ísleifsdóttur, þau eiga tvö börn. 2) Viggó, f. 1951, kvæntur Diljá Markúsdóttur. Þeirra börn eru: a) Benedikt, sambýliskona hans er Linda Rós Björgvinsdóttir, þau eiga eitt barn. b) Þórmar, kvæntur Gígju Rós Sigurðardóttur, þau eiga tvö börn. c) Rebekka Rós, sambýlismaður hennar er Halldór Halldórsson, þau eiga tvö börn. 3) Elfa Björk, f. 1956, hún er gift Magnúsi Reyni Ástþórssyni. Börn þeirra eru: a) Hulda Björt sem er í sambúð með Þorsteini Kristinssyni. Hulda á eina dóttur. b) Hjörtur Bæring. c) Hákon Bragi. d) Halla Bryndís. 4) Jóna, f. 1962 gift Henry Bæringssyni. Börn þeirra eru: a) Kristín Þóra sem er í sambúð með Arnóri Stígssyni). b) Guðný Harpa, sambýlismaður hennar er Ari Jóhannsson, þau eiga tvö börn. c) Bæring Rúnar. Benedikt gekk að eiga Finnbjörgu Guðmundsdóttur 1978, þau eignuðust tvö börn: 1) Stefni, f. 1980, börn hans eru: a) Davíð Þór. b) Viggó Böðvar. 2) Birnu Eik, f. 1982. Synir hennar eru: a) Eyþór Atli. b) Benedikt Eysteinn. c) Baldur Prause. d) Jón Egill. Fyrir átti Finnbjörg soninn Guðberg Egil, f. 1971, kona hans er Birna Kristín Friðriksdóttir. Börn þeirra eru: a) Ingvar. b) Benedikt. c) Anna Kristjana. Benedikt og Finnbjörg fóstruðu einnig Kára Walter Margrétarson og Davíð Þór Stefnisson. Benedikt sótti sjó sem ungur maður á Patreksfirði en fluttist svo til Reykjavíkur til náms í húsasmíði. Námið stundaði hann samhliða sjómennskunni og lauk hann sveinsprófi frá Iðnskóla Reykjavíkur árið 1949. Benedikt tók virkan þátt stjórnmálum og vann ötullega að félagsmálum innan verkalýðshreyfingarinnar alla sína starfsævi. Á meðal hans hugðarefna innan verkalýðshreyfingarinnar voru lífeyrissjóðsmálin, uppbygging og virkni fæðingarorlofs- og atvinnuleysistryggingasjóða og almannatryggingakerfisins. Hann starfaði m.a. hjá ASÍ, Trésmiðafélagi Reykjavíkur og Sambandi byggingamanna. Eftir að eiginlegum starfsferli lauk starfaði hann hjá Landssambandi eldri borgara. Hann lét af störfum 78 ára að aldri. Útför Benedikts fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 20. nóvember 2009, og hefst athöfnin kl. 15.

Það voru miklir umbrotatímar í sögu verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi uppúr 1950. Iðnaðarmannafélög eins og Trésmiðafélag Reykjavíkur voru blönduð félög sveina og meistara. Hluti meistara klauf sig út úr Trésmiðafélaginu og stofnaði eigið félag 1954. Á sama tíma stóð Trésmiðafélagið í kjarabaráttu við Vinnuveitendasambandið. Meistarafélagið krafðist þess að vera samningsaðili á móti trésmiðum, en þeir viðurkenndu þá ekki sem samningsaðila, þar sem þeir væru í ýmsum óbættum sökum við sitt gamla félag. Það var hart tekist á. Í þessari orrahríð kemur Benedikt Davíðsson inn í stjórn Trésmiðafélagsins. Fyrst sem gjaldkeri og  formaður frá 1954. Þrátt fyrir ungan aldur var hann sjóaður átakamaður og vel í stakk búinn  til að takast á við þau verkefni sem leysa þurfti. Þar voru þeir eiginleikar sem hann fékk í vöggugjöf og lífsskoðanir sterk vopn. Þegar félagið var orðið hreint sveinafélag tókust á pólitískar fylkingar sem endaði með uppgjöri og kosningum. Féll þá sú stjórn sem Benedikt leiddi 1957.  Liðið sem svo voru kallaðir þeir félagar sem mynduðu kjarnann í stjórninni náði félaginu aftur 1960 og nú undir forustu Jóns Snorra Þorleifsonar en Benni var munstraður ritari í þeirri stjórn. Benedikt sat í stjórninni til 1968 eða þar til hann var kosinn formaður Sambands byggingamanna við stofnun þess. Auk þess var Benedikt starfsmaður Trésmiðafélagsins í fjölda ára.

Eitt sinn sagði góður félagi um Benedikt Davíðsson að þegar Benni væri allur færu gengnir menn að óska eftir því við hann að hann tæki að sér formennsku í félagi framliðinna. Ekki veit ég um hvort Benni er byrjaður í pólitískum störfum en það er stutt í að hann tekur að sér trúnaðarstörf þar sem hann er.

Það voru fleiri en trésmiðir og byggingamenn sem sóttust eftir forustuhæfileikum Benna. Hann var forseti ASÍ og formaður landssambands eldri borgara eins og alþjóð veit. Hann hafði ríka réttlætiskennd, mikla lipurð í mannlegum samskiptum og þrátt fyrir að vera mikill refur í samningum var hann gegnheill maður sem allir treystu. Uppalendastarf hans innan Trésmiðafélagsins hefur einnig verið okkar samfélagi mikils virði. Litlu Bennarnir vorum við kallaðir þegar við þessir yngri vorum að taka okkar fyrstu spor á félagsfundum og þingum verkalýðshreyfingarinnar. Við litum á það sem heiðursnafnbót.

Að leiðarlokum viljum við stjórn og starfsfólk Fagfélagsins (Trésmiðafélagsins) og Samiðnar- sambands iðnfélaga, þakka Benedikt fyrir langt og farsælt forustustarf hans í þágu launafólks. Við kveðjum góðan samstarfsmann og félaga og vottum Finnbjörgu og afkomendum hans okkar innilegustu samúð.

Finnbjörn A. Hermannsson, formaður Fagfélagsins og Samiðnar.