Jóna Guðríður Arnbjörnsdóttir fæddist í Reykjavík þann 21. febr 1926. Jóna lést á Landspítalanum 7. nóv. síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Arnbjörn Guðjónsson, f. 25 maí 1893, d. 25. ágúst 1975 og Guðrún Gissurardóttir, f. 21. jan. 1898, d. 26. maí 1981. Uppeldisbróðir Jónu var Guðjón Kristinn Einarsson, f. 16. des. 1921, d. 11. mars 2008. Jóna giftist Eiríki Eyleifssyni þann 15. mars 1947, f. 28. sept 1914, d. 1. apríl 1997. Börn þeirra: Sigurbjörg, f. 29. maí 1947, Margrét, f. 3. des 1948, d. 15. júní 2005, Arnbjörn Rúnar, f. 26. júlí 1950, Guðrún Jónína, f. 16. febr. 1954, Laufey Þóra, f. 20. maí 1955, Dagbjört Hulda, f. 24. nóv. 1965. Alls eru afkomendur Jónu orðnir 78. Jóna Guðríður ólst upp á Minni-Völlum í Landsveit fram yfir fermingu, fluttist þá til Reykjavíkur með foreldrum sínum. Árið 1948 flutti hún með Eiríki manni sínum að Stafnesi í Miðneshreppi og byggðu þau árið 1950 nýtt hús að Nýlendu í Stafneshverfi þar sem þau bjuggu uns Eiríkur lést 1997, en þá flutti Jóna að Suðurgötu 17 (Miðhús) í Sandgerði og bjó þar fram að andláti. Útför Jónu Guðríðar fer fram frá Safnaðarheimilinu í Sandgerði í dag, 20. nóvember 2009, og hefst athöfnin kl. 13. Jarðsett verður í Hvalsneskirkjugarði.

Nú þegar amma hefur kvatt eftir langt og farsælt líf streyma minningarnar fram. Það kom fyrir að ég fékk að fara til ömmu og afa og dvelja um lengri eða skemmri tíma hjá þeim. Sérstaklega eftirminnilegt er það þegar ég fékk að fara með þeim suður eftir heimsókn þeirra til okkar hér fyrir norðan haustið sem ég varð fjögurra ára. Við brunuðum á gula bílnum þeirra suður yfir heiðar og á leiðinni fékk ég brjóstsykurpoka sem ég sparaði mér í margar vikur, einn moli á dag og svo var hann settur aftur í krúsina ofan á gamla plötuspilaranum í stofunni. Dvölin þetta haustið lengdist í annan endann vegna veikinda heima fyrir og ég var hjá þeim fram yfir afmælið mitt, en ekki fannst mér það koma að sök, enda fékk ég stóra pakkasendingu að heiman og amma og afi dekruðu við mig. Ýmsar minningar á ég síðan þetta haust. Einn daginn var ég send út í kartöflugarð að sækja kartöflur og gerði ég það með glöðu geði. Eitthvað fór pokinn að síga í á leiðinni heim, því gat kom á hann og kartöfluslóðin var löng þegar heim var komið. Í annað skipti var ég að sniglast í rófugarðinum hjá Sigurbirni á Stafnesi og þegar hann ætlaði að senda mig heim með smælki tilkynnti ég honum að amma vildi stórar rófur. Einn daginn voru svið í matinn og ég stalst inn í eldhús fyrir matinn og borðaði það besta, skinnið af öllum sviðahausunum, eitthvað hef ég étið yfir mig í það skiptið þar sem  hef ég ekki getað smakkað það síðan.  Aldrei man ég eftir þó eftir að hafa fengið áminningu frá ömmu fyrir uppátækin.

Þegar ég hugsa til baka sé ég ömmu alltaf fyrir mér með prjónana í höndunum, þvílíkur fjöldi af lopapeysum sem hún prjónaði um ævina og þvílíkur hraði. Bæði fengu börn og barnabörn að njóta þeirra og eins prjónaði hún fyrir Handprjónasambandið.  Eftir að afi dó og amma flutti inn í Sandgerði tók hún mikinn þátt í starfinu með eldra fólkinu á Suðurgötunni og fann hún sig mjög vel í allri handavinnu og föndri og afköstin voru mikil. Bæði ég og dætur mínar eigum eftir hana margskonar listaverk og það sama má segja um alla afkomendur hennar sem nú eru komnir yfir sjötíu. Heimili hennar á Suðurgötunni var ævintýraheimur fyrir börn og fullorðna þar sem ótal hlutir sem hún hafði föndrað prýddu íbúðina.

Amma hélt ágætri heilsu allt fram á síðasta dag nema hvað heyrnin var orðin mjög slæm. Hún lét nú ekki deigan síga þrátt fyrir það og jákvæðnin var alltaf í fyrirrúmi. Hún fékk sér gsm síma og þá fórum við að senda okkar á milli smáskilaboð.  Seinna fékk hún sér tölvu og var dugleg að nota hana, spjallaði á msn og var á facebook, skoðaði myndir af afkomendunum og fylgdist vel með öllu.

Fósturlandsins Freyja,
fagra vanadís,
móðir, kona, meyja,
meðtak lof og prís.
Blessað sé þitt blíða
bros og gullið tár.
Þú ert lands og lýða
ljós í þúsund ár.
(Matt. Joch.)

Minningin um yndislega konu mun lifa með okkur afkomendunum um ókomin ár. Elsku amma, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þín,

Jóna Bergþóra.