Oddgeir Þorleifsson fæddist í Stykkishólmi 2. september 1930. Hann varð bráðkvaddur laugardaginn 14. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hans voru hjónin Sesselja Jónsdóttir húsfreyja og Þorleifur Jóhannsson skósmiður þar, og síðar í Reykjavík. Oddgeir var yngstur fjögurra barna þeirra. Hin voru Jóhann, sem dó 18 ára gamall haustið 1942, Ragnar, sem lifir systkini sín, og Ingibjörg, sem lést snemma árs 2005. Oddgeir sótti grunnskólanám í Stykkishólmi en bjó sinn búskap í Reykjavík. Hann stundaði nám í rafvirkjun við Iðnskólann og lauk sveinsprófi þaðan vorið 1952, og ári síðar rafiðnfræðinámi frá Vélskólanum. Starfaði allan sinn starfsaldur hjá Rafmagnsveitum ríkisins. Frá 1955 vann hann hátt í áratug á skrifstofu rekstrardeildar RARIK við undirbúning spennuvirkja, og hafði þá ósjaldan eftirlit með uppsetningu þeirra. Hann fékk löggildingu sem háspennuvirki árið 1964 og sótti á næstu árum fjölda námskeiða varðandi starf sitt. Frá 1977 sinnti hann einkum fræðslu- og námskeiðahaldi fyrir starfsmenn Rafmagnsveitnanna og hlaut réttindi sem framhaldsskólakennari áratug síðar. Kenndi hann um tveggja ára skeið við Iðnskólann, en starfaði jafnframt hjá RARIK, síðast sem deildarstjóri yfir fræðslu, námskeiðahaldi og öryggismálum. Eftir að Oddgeir var hættur störfum upp úr sjötugu innti hann af hendi mikla vinnu við að safna saman gömlum munum og tækjum úr merkri sögu rafvæðingar Íslandsbyggða. Oddgeir kvæntist hinn 4. desember 1952 eftirlifandi eiginkonu sinni, Halldóru Láru Sveinsdóttur, verkakonu úr Reykjavík, einkadóttur hjónanna Elínar Theódórsdóttur húsfreyju og Sveins Kr. Valdimarssonar skipstjóra. Þau stofnuðu heimili að Háteigsvegi 20 sem þau keyptu í félagi við foreldra hennar, en fluttu síðar inn í Laugarnes. Frá 1969 áttu þau heima í Sporðagrunni. Dætur þeirra eru tvær: Elín, f. 1953, kennari og íslenskufræðingur, búsett í Reykjvík. Hún var gift Eiríki Kristni Eiríkssyni, bónda í Sandlækjarkoti í Gnúpverjahreppi, en þau skildu. Sonur þeirra er Oddgeir, rafvirki, búsettur í Sandlækjarkoti, unnusta hans er Elísabet Ósk Guðlaugsdóttir. Sesselja, f. 1957, loftskeytamaður, búsett í Reykjavík. Hann var reglumaður í öllum greinum, stakur bindindismaður og stórtemplari. Fastur fyrir í þeim efnum sem öðrum sem hann taldi miklu varða. Hann naut sín vel í fjallaferðum og ferðalögum. Seinni ár naut hann sín í sumarhúsi þeirra hjóna í Grímsnesi. Þaðan var hann einmitt nýlagður af stað heim á leið úr stuttri eftirlitsferð í bústaðinn á lognkyrru og heiðu haustkvöldi laugardaginn, hinn 14. nóvember, þegar kallið kom. Útför Oddgeirs fer fram frá í Áskirkju í dag, 20. nóvember 2009, og hefst athöfnin kl. 11.

Í fjarska, á bak við allt, sem er,
býr andi þess, sem var.
Og andi þess, sem enn er hér,
er ekki þar.

(Steinn Steinarr.)

Að geta skoðað söfn, hús, mannvirki eða hvað það annað sem tengir hina líðandi stund við fyrri tíð, og það líf sem þá var lifað, er snar þáttur þess sem kallað er menningarlíf og hlutirnir gjarnan kallaðir samheitinu menningarverðmæti.  Skilningur á gildi þess að varðveita hluti, komandi kynslóðum til ánægju og fróðleiks, er ekki öllum gefinn og satt best að segja er hann fæstum gefinn.  Þeir sem unnið hafa að minjavernd hafa því löngum mætt tómlæti eða beinlínis andstöðu, þó í seinni tíð hafi heldur rofað til. Oddgeir var einn þeirra sem var mjög umhugað um að varðveita búnað og verkfæri svo sagan yrði ekki eins og götótt flík, því tíminn máir allt út ef enginn gerist talsmaður þess sem var.  Hann starfaði hjá RARIK um áratuga skeið og átti drjúgan hlut í að móta björgun og varðveislu minja úr starfsemi fyrirtækisins og vann að þeim málum um árabil. Guðjón Guðmundsson, fyrrum rekstrarstjóri RARIK, var óþreytandi frumkvöðull í minjamálum og Oddgeir vann náið með honum.  Að Guðjóni gengnum var Oddgeir kominn á síðustu starfsárin og ekki annað að sjá en að doði væri framundan.  Undirritaðir, ásamt eldhuganum Þorsteini heitnum Árnasyni, tóku þá frumkvæði að því að koma skipulagi á málaflokkinn og snúa vörn í sókn.  Oddgeir var ómissandi í þeirri endurreisn og vann mikið starf á þessu sviði síðustu árin. Að leiðarlokum er skylt að þakka fyrir hið mikla framlag Oddgeirs á þessu sviði hjá RARIK.  Þó uppskeran komi síðar er vert að minnast þeirra sem sáðu. Aðstandendum eru hér sendar samúðarkveðjur.

Guðmundur Guðmundsson og Ásgeir Þór Ólafsson.

Laugardaginn 14. nóvember síðastliðinn varð afi minn bráðkvaddur. Þetta gerðist svo snöggt. Maður er aldrei tilbúinn í það að takast á við það. Ég hugsa bara um góðu tímana okkar saman. Hann fór á Selfoss á laugardaginn var í jarðarför. Drakk kaffi með gömlum félögum og fór svo upp í sumarbústað sem hann unni svo mikið. Hringdi í mig og sagði mér að hann væri þar að athuga hvort allt væri ekki í lagi þar, sem það var. Hann sagðist ætla svo að heyra í mér seinna. Mig grunaði ekki að þetta væri seinasta skiptið sem við myndum tala saman. Hann var svo hress og ánægður þegar hann hringdi. Alveg yndislegt veður þar uppfrá og allt í toppstandi. Svo stuttu seinna sofnar hann í síðasta sinn. Hann var flottur í tauinu þennan dag eins og aðra daga, greitt hárið og flottur. Hann var glæsimenni hann afi.

Við afi vorum góðir vinir og félagar. Þó að það hafi munað rúmlega 50 árum á okkur í aldri þá náðum við vel saman. Gátum rætt öll heimsins mál. Eins og til dæmis núna í haust að þá vorum við saman tveir í sumarbústaðnum að smíða. Komum í seinna lagi inn í kvöldmat og elduðum. Nokkrum kleinupokum og kaffibollum síðar þá var klukkan að ganga 2 um nótt. Við bara hreinlega gleymdum okkur í spjalli. Það var svo gaman að spjalla við afa. Við áttum gott skap saman.  Ég hafði ofsalega gaman af því að stríða honum. Ég er ekki viss um að margir hafi alltaf þorað að gera það því hann kom kannski sumum fyrir sjónir sem frekar alvörugefinn. Ég  sagði bara við hann það sem mér datt í hug og hann hafði mjög gaman af því, sem og mér. Góður húmoristi.

Ég sagði við hann núna í haust að hann kæmi mér sífellt á óvart. Ég var alltaf að komast að einhverju nýju sem hann hafði gert um ævina og mér þótti og þykir það allt jafn merkilegt. Hann var stundum að segja mér að hann hefði lært hitt og þetta og lagt hina og þessa línuna og ýmislegt svoleiðis. Hann var aldrei að monta sig af því, hann var bara að segja mér frá því og ég hafði mjög  gaman af því að hlusta á hann. Mér þótti mikið til þessara hluta allra koma.

Afi las alltaf fyrir svefninn. Yfirleitt tölvubækur. Þetta voru oft ekki sömu bækurnar en það voru alltaf sömu fyrstu þrjár blaðsíðurnar sem hann las. Svo sofnaði hann bara. Ég sagði oft við hann að hann væri orðinn vel kunnugur fyrstu greinarskilunum. Hann hafði alltaf húmor fyrir því.

Þegar ég heyri orðið þolinmæði þá kemur afi alltaf upp í hugann á mér. Þvílíkt magn af þolinmæði hef ég bara aldrei kynnst. Hann tók sér bara tíma í verkefnið og hann leysti það. Alveg  sallarrólegur. Ég var alltaf löngu sprunginn. Hann hætti ekki fyrr en verkefnið, hvað sem það var, var leyst. Hann var alveg alveg rosalega laghentur hann afi. Góður smiður. Hann gat til dæmis einhvernveginn lagað hvað sem var. Hvort sem það var snuðið mitt á þeim tíma sem það bilaði eða fjarstýrðu bílarnir mínir  sem við höfðum nú báðir gaman af þegar ég var yngri. Afi lagar það.

Sumarbústaðurinn var afa afskaplega mikið kær. Honum fannst gott að vera þar. Þó að hann væri jafnvel bara einn þar. Það fannst honum gott. Vera einn í bústaðnum, gamla gufan í botni, rólegheit og vera eitthvað að dunda og dytta að húsinu. Stundum kom ég í heimsókn til hans að hjálpa honum eitthvað og var ég af og til hjá honum núna sumar og haust að gera tilbúið til að skipta um pall. Þessar stundir okkar saman eru mér alveg ómetanlegar því ég hafði rosalega gaman af því að vera með honum þar. Nóg að gera en samt ekkert stress á okkur. "Ég hef bara nóg að borða fyrir okkur," sagði hann í hvert skipti sem ég boðaði komu mina. Báðir höfðum við gaman af því að elda okkur og borða. Mér fannst gott að vinna með honum. Við tókum upp á því fyrir nokkrum árum að fara í ferðalag saman í lok hvers sumars. Bara við tveir. Fórum á Ravinum með alla þá farsíma og tilstand sem við fundum. Góður ferðafélagi hann afi. Gat sagt manni allskonar fróðleik um það sem fyrir augu bar án þess að maður yrði leiður á því. Mig langaði alltaf að heyra meira. Hann talaði um það fyrir ekki svo löngu að hann hefði komið á alla staði á Íslandi nema Grímsey. Það var fjarlægur draumur hjá okkur að fara saman þangað.

Þegar ég var yngri fórum við afi og amma alltaf annað hvert ár í Flatey í Breiðafirði. Vorum í bústað þar sem Rarik átti, í eina viku á sumri. Það eru mjög góðar minningar sem ég á þaðan. Gönguferðir, veiða á bryggjunni, taka stöðuna í fjörunni og spila Matador fram í sólsetur. Ein minning er mér rosalega sterk. Við fórum þrjú, ég afi og amma í kirkjuna í Flatey. Þar uppi á skáp hafði verið í mörg ár lítið handsmíðað líkan af kirkjunni þar. Mig hafði alltaf langað svo að fá að skoða þetta líkan en það var ekki hægt að koma því við. Í þetta skipti, eftir smávægilegt basl, að þá tók afi kirkjuna niður og leyfði mér að sjá hana. Það gladdi mig mjög. Svo söng hann Ó jesú bróðir besti fyrir okkur ömmu og spilaði á orgelið. Mjög falleg minning.

Ég er ekki bara búinn að missa góðan afa, heldur líka góðan vin. Guð geymi þig afi minn.

Ó, Jesús bróðir besti
og barnavinur mesti,
æ breið þú blessun þína
á barnæskuna mína.

/

Mér gott barn gef að vera
og góðan ávöxt bera,
en forðast allt hið illa,
svo ei mér nái' að spilla.
/

Það ætíð sé mín iðja
að elska þig og biðja,
þín lífsins orð að læra
og lofgjörð þér að færa.

/

Þín umsjón æ mér hlífi
í öllu mínu lífi,
þín líknarhönd mig leiði
og lífsins veginn greiði.
/

Mig styrk í stríði nauða,
æ styrk þú mig í dauða.
Þitt lífsins ljósið bjarta
þá ljómi' í mínu hjarta.
/

Með blíðum barnarómi
mitt bænakvak svo hljómi:
Þitt gott barn gef ég veri
og góðan ávöxt beri.
(Páll Jónsson.)

Oddgeir Eiríksson.