Aðalheiður Dagmar Ólafsdóttir var fædd 25. ágúst 1915 að Þverá í Miðfirði. Hún lést 11. þessa mánaðar á Landspítalanum í Fossvogi. Hún var dóttir hjónanna Jóhönnu Margrétar Halldórsdóttur, f. 1882, d. 1921 frá Kárastöðum í Þingvallasveit og Ólafs Halldórssonar, Litlu-Fellsöxl, Skilmannahreppi, f. 1882, d. 1970, bónda á Þverá, Núpsdal í Miðfirði, V-Húnavatnssýslu, síðar verkamanns í Reykjavík. Seinni kona Ólafs Halldórssonar var Fanný Karlsdóttir, f. 25.8. 1888, d. 1973. Systkini Aðalheiðar voru 5 sem upp komust, Gunnar, f. 1911, d. 2003, Halldóra Jóhanna, f. 1912, Hrafnhildur Eygló, f. 1917, Herborg Laufey, f. 1919 og Björgvin, f. 1921. Við andlát móður þeirra þurfti Ólafur að bregða búi. Hann fann öllum börnum sínum nýjan samastað, en gætti þess að heimsækja þau öll árlega. Þau systkinin náðu saman aftur, þegar þau voru orðin fullorðin og héldu fallega hópinn, ásamt mökum, sem var þeim mikils virði. Aðalheiður fór að Aðalbóli, Efri-Núpssókn, Miðfirði, var þar til 1930 er hún fluttist að Grafarholti í Mosfellssveit, sem þá var myndarbýli. Hún stundaði nám í Reykholtsskóla í 2 vetur. Árið 1937 giftist hún Jónmundi Guðmundssyni, f. 1915, d. 1988, sem var einn 12 systkina frá Sigurstöðum á Akranesi. Þau bjuggu á Akranesi fyrstu árin, en fluttust til Reykjavíkur 1946. Aðalheiður var mestan hluta ævinnar heimavinnandi húsmóðir, sjómannskona sem sinnti heimili og börnum af kostgæfni, en mjög gestkvæmt var á heimilinu. Um tíma starfaði hún á saumastofu Artemis, mötuneyti Hagkaupa Skeifunni og barnaheimilinu Valhöll. Hún var hönnuður af Guðs náð, saumaði og prjónaði alla tíð á sín börn og annarra, og m.a. fyrir Tískuverzlunina Fanný. Aðalheiður Dagmar og Jónmundur eignuðust 4 börn. Þau eru: 1) Jóhanna Kristín, f. 1937, m. Hans Ploder, börn: Franz, Aðalheiður Auður, Bryndís, Björgvin og Jóhanna. 2) Guðmundur Kristinn, f. 1939, m. Ásdís Þóra Kolbeinsdóttir, d. 2002, börn: Kolbeinn, Aðalheiður Dröfn, Jónmundur Gunnar, d. 1970, Jónmundur Kristinn og Guðmundur Geir. 3) Fanný, f. 1945, fv.m. Valdimar H. Jóhannesson, börn: Jóhannes Hergils, Guðrún Hergils, Gréta Hergils og Sigrún Fanný, faðir Jón Magnússon. 4) Þórey Rut, f. 1953, fv.m. Hjörtur D. Hansson, d.2009, dóttir Fanný Lára, seinni m. Jóhann Grétar Eiríksson, börn: Jóhann Örn og Elsa Liv. Afkomendur Aðalheiðar eru nú alls 54. Útförin fer fram frá Fossvogskirkju í dag, föstudaginn 20. nóv. kl. 11. Jarðað verður í Fossvogskirkjugarði.
Mynd hennar er sterk í huga mínum, hún gekk teinrétt og sat bein í baki, hendur hennar voru sívinnandi mjúkar og hlýjar, brosið hennar og fallegu grænu mildu augun verða ætíð hjá mér.
Hún fæddist í torfbæ að Þverá í Miðfirði, lengst upp við Arnarvatnsheiði. Foreldrar hennar voru ung og vildu vera sjálfstæð þegar þau hófu búskap þar. Ástríkt uppeldi foreldra fékk hún í hópi systkina. En þegar hún var aðeins 5 ára gömul lést móðir hennar af barnsförum. Ólafur Halldórsson þurfti því að bregða búi og gerast vinnumaður hjá öðrum og koma börnum fyrir. Það var honum kappsmál að geta séð fyrir þeim og borga með þeim öllum því á sveit skyldu þau ekki fara. Hann heimsótti þau á hverju ári. Næsta minnig hennar var við jarðarförina, þegar henni er lyft upp á hnakknef og reidd yfir í næsta dal að Aðalbóli, þar minnist hún þess að hafa hnigið niður á kistil í forstofunni og grátið sig í svefn. Hún man lítið eftir sér í nokkur ár eftir það, en faðir hennar kom og heimsótti hana þegar hann gat. Móðir mín hafði fá orð um þessa lífsreynslu sína. Við systkinin vorum aldrei vör við biturð hjá henni. Að Aðalbóli var fengin ráðskona, Fanný Karlsdóttir, sem þá var nýlega orðin ekkja hún varð seinni kona afa míns og má segja að hún hafi verið örlagavaldur í lífi mömmu. Rétt eftir að mamma fermdist fóru þær Fanný til Akureyrar og þaðan sjóleiðina suður til Reykjavíkur en þar hófu þau búskap Fanný og Ólafur og eignuðust yndislegt heimili að Þrastargötu 8. Móðir mín var svo hólpin að komast í vist til Bryndísar í Grafarholti í Mosfellssveit en þær Fanný og Bryndís voru kunningjakonur. Þar lærði hún margt og var alla tíð mjög kært milli þeirra Bryndísar og móður minnar. Nú gat hún safnað sér fyrir skólavist í Reykholtsskóla og þar var hún í 2 vetur. Hún var alltaf stolt af veru sinni þar og hugði á frekara nám, hugur hennar leitaði til hjúkrunarnáms en af því varð því miður ekki. Hún hefði orðið mjög góð hjúkrunarkona, hún hafði einstakt lag á börnum og þau löðuðust sjálfkrafa að henni.
Ungur frændi ömmu Fannýjar, Jónmundur Guðmundsson, fór nú að venja komur sínar á heimili þeirra því hann var ofan af Akranesi og var að læra til vélstjóra. Guðmundur faðir Jónmundar var hálfbróðir ömmu Fannýjar. Þannig atvikaðist það að Jónmundur og Aðalheiður felldu hugi saman. Reyndar hafði mamma séð þennan fallega mann árinu áður í Reykholti sagði hún okkur, þá vissi hún ekkert hver hann var. Nokkrar skólasystur lágu úti í lautu og nutu vorsins og sólarinnar. Komu þá nokkrir vaskir, frískir menn hoppandi eftir veginum og til þeirra og ræddu lítillega við þær. Hún minntist þess að henni leist mikið vel á þennan unga myndarlega mann ofan af Skaga.
Mamma og pabbi hófu búskap á Akranesi en fluttust 1946 til Reykjavíkur og festu kaup á íbúð á Reynimel 58, en þar var svo heimili þeirra eftir það. Við systknin ólumust upp við það að faðir okkar sjómaður, fyrsti vélstjóri á ms Fanney re4 og var að heiman nokkra mánuði í senn, en mamma stjórnaði öllu af miklum myndarskap. Prjónaði og saumaði allt á okkur. Það lék allt í höndunum á henni og það var eins og hún vissi alltaf hvað var í tísku, fann það bara á sér. Það var allt notað, saumað upp úr gömlu og hver lítill efnisbútur var nýttur í fallega flík. Utanyfirflíkur, kápur, peysuföt, upphlutur, tískukjólar og jakkaföt, hún sneið og saumaði allt sem henni datt í hug. Margir voru þeir sem fengu flík, sokka eða vettlinga að gjöf frá henni. Hún prjónaði alla tíð.
Mamma var mjög menningarleg og sendi okkur öll systkinin í tónlistarnám. Pabbi var líka með gott tóneyra og langaði að læra á harmonikku. Við ólumst upp við að fara í leikhús og ég fékk að læra ballett í Þjóðleikhúsinu. Þegar mamma var um fertugt tók hún sig til og tók bílpróf. Það gaf henni tækifæri til að fara hvert sem hún vildi og naut hún þess að keyra á milli okkar systkinanna og út á land þangað til núna í vor að hún þurfti að leggja honum grána sínum.
Þegar raunir þjaka mig
þegar ég á aðeins þig
einn með sorgir mínar.
Gef mér kærleik, gef mér trú,
gef mér skilning hér og nú.
Ljúfi drottinn lýstu mér,
svo lífsins veg ég finni
láttu ætíð ljós frá þér
ljóma í sálu minni.
(Gísli á Uppsölum.)
Ég þakka fyrir að hafa átt sterka kjarkmikla ástríka móður
Blessuð verður ávallt minningin um móður mína Aðalheiði Dagmar Ólafsdóttur.
Fanný Jónmundsdóttir.
Þegar ég hugsa til hennar er svo margt skemmtilegt sem kemur upp í huga mér. Þegar hún rúmlega áttræð, kleif stiga upp á bílskúrsþakið sitt til að sópa niður laufblöðunum. Það var svo afskaplega sóðalegt að horfa á þau útum gluggann. Einnig þegar stillansar voru utan um húsið hennar. Þá var verið að laga þakkantinn, og að sjálfsögðu notaði hún tækifærið, dreif sig út um gluggan og þreif rúðurnar sínar að utan.
En ég mun sérstaklega muna eftir einni af seinustu heimsóknum mínum til hennar. Við spiluðum á spil í rúman klukkutíma. Enn hafði hún orkuna í það að svindla eins og henni var vant í spilum. Samt alltaf jafn gaman.
En við vitum, að nú er hún þar sem hún vill vera. Samt sem áður þegar missirinn er svona mikill, ólgar sorg innra með mér, en einnig gleði fyrir hennar hönd.
Þín nabbla,
Dagmar Ploder Ottósdóttir.