Lilja Guðrún Pétursdóttir fæddist í Reykjavík 18. október 1931. Hún lést á Dvalarheimilinu Höfða 11. nóvember sl. Foreldrar: Eufemía Steinbjörnsdóttir, saumakona á Akranesi, f. 25.3. 1895 í Galtarholti, Skilmannahreppi, Borg. d. 10.3. 1973 og Jens Peter Oluf Madsen, bakarameistari í Reykjavík og Danmörku f. 9.2. 1887 í Danmörku, d. 1970. Systir samfeðra í Danmörku sem nú er látin. Lilja giftist, 26. apríl 1953, Guðna Halldórssyni, heilbrigðisfulltrúa, f. 16.12. 1926 í Vestmannaeyjum, d. 30.1. 2003. Foreldrar: Sveinn Ólafur Halldór Árnason og Júlía Árnadóttir. Börn Lilju og Guðna: 1) Guðmundur Smári, vélstjóri og skipstjóri, f. 2.11. 1952 á Akranesi. Maki Kristín Guðjónsdóttir, starfsmaður tannlæknis, f. 22.3. 1957. Börn: a. Lilja Guðrún, uppeldis- og menntunarfræðingur og háskólanemi, f. 5.7. 1978. b. Guðgeir, tæknifræðinemi, f. 19.8. 1982. 2) Eufemía Berglind, hjúkrunarfræðingur, f. 12.6. 1955. Fyrri maki: Davíð Jón Pétursson Butt, bifvélavirki, f. 15.10. 1947. Börn: a. Elísa Butt, sjúkraliði, f. 18.2. 1980. b. Guðni Butt, sölustjóri, f. 24.6. 1981. c. Júlíus Butt, í herþjónustu Bretlandi, f. 15.4. 1987. Seinni maki: Kjartan Björnsson, verkstjóri, f. 2.10. 1956. 3) Júlíus Víðir, skipstjóri, f. 17.8. 1963. Maki: Fanney Björnsdóttir, þroskaþjálfanemi, f. 25.9. 1969. Börn: a. Ágúst f. 28.1. 1989. b. Guðmundur Brynjar, f. 12.2. 1994. Barnabarnabörn eru 4. Lilja var sjúkraliði að mennt. Hún ólst upp á Akranesi hjá móður sinni en fór ung í vinnu til Reykjavíkur. Nítján ára hóf hún störf á Landakoti og vann eftir það alla starfsævina á heilbrigðisstofnunum. Lilja og Guðni bjuggu fyrstu búskaparárin í Reykjavík en fluttust á Akranes fljótlega eftir fæðingu fyrsta barnsins. Þar bjuggu þau alla tíð að Bjarnastöðum, æskuheimili Lilju, ásamt móður hennar, þar til hún fór á sjúkrastofnun. Eftir að þau hjónin fluttu á Akranes hóf Lilja störf við Sjúkrahúsið á Akranesi sem var vinnustaður hennar þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir. Hjúkrun var Lilju í blóð borin, henni var eiginlegt að hlúa að velferð annarra. Ósérhlífni hennar og jafnlyndi hvað sem á gekk var við brugðið. Þekking hennar og reynsla náði langt út fyrir starfssvið hennar og henni var trúað fyrir hjúkrunarstörfum sem ella voru aðeins fengin þeim sem höfðu sérmenntun til. Undraði engan að hún yrði með fyrstu sjúkraliðum sem útskrifuðust hér á landi en hún lauk því prófi 1967. Lilja var mikils metin, jafnt af samstarfsfólki sem kaus hana til forystu og þeim sem nutu umönnunar hennar. Lilja var jafnréttissinni og kjör þeirra sem minna mega sín voru henni hugleikin. Hún tók virkan þátt í jafnréttisbaráttu og kjarabaráttu stéttarfélags síns, var í stjórn Starfsmannafélags Akraness frá 1971-85, lengst af varaformaður, fulltrúi á þingum BSRB frá 1976-83, í orlofsheimilaráði BSRB 1976-86, í jafnréttisnefnd BSRB nokkur kjörtímabil og í trúnaðarmannaráði BSRB. Útför Lilju Guðrúnar fer fram frá Akraneskirkju, föstudaginn, 20. nóvember, og hefst athöfnin kl 14.
Gunnvör Björnsdóttir