Haraldur Ásgeirsson fæddist á Sólbakka í Önundarfirði 4. maí 1918. Hann lést á Landspítalanum 20. nóvember sl. Foreldrar hans voru Ásgeir Torfason frá Flateyri, skipstjóri og framkvæmdastjóri, og Ragnheiður Eiríksdóttir, fædd á Hrauni á Ingjaldssandi. Systkini Haraldar eru Torfi (f. 1910, d. 1994), kvæntur Valgerði Guðrúnu Vilmundardóttur; Ragnar (f. 1911, d. 1981), kona hans var Laufey Maríasdóttir (d. 2006); Eiríkur Þórir (f. 1913, d. 1921); María (f. 1916), gift Gunnari Böðvarssyni (d. 1966); Önundur (f. 1920), kvæntur Evu Ragnarsdóttur; Sigríður Hanna (f. 1923), gift Magnúsi Konráðssyni (d. 1983); Ásgeir (f. 1927, d. 1973), kvæntur Guðrúnu Fanneyju Magnúsdóttur. Á heimilinu voru einnig uppeldissystkini, Kristján Torfason, Ragnar Sigurðsson og Carl J. Eiríksson. Haraldur kvæntist 26. október 1947 Halldóru Einarsdóttur (f. 1924, d. 2007), húsmæðrakennara frá Bolungarvík. Hún var dóttir Einars Guðfinnssonar, útgerðarmanns í Bolungarvík, og Elísabetar Hjaltadóttur. Haraldur og Halldóra bjuggu á Ægisíðu 48 í Reykjavík. Þau eignuðust fjögur börn. Þau eru: 1) Elísabet, f. 1949, maður hennar er Gunnar Örn Guðmundsson. Börn þeirra eru Bárður Örn, f. 1974, kona hans er Agnes Andrésdóttir, sonur þeirra er Alexander Örn, f. 2006; Halldór Örn, f. 1979, sambýliskona hans er Jaqueline Downey; Sólveig Ragnheiður, f. 1986, sambýlismaður hennar er Karl Stephen Stock. 2) Ragnheiður, f. 1951, maður hennar er Hallgrímur Guðjónsson. Börn þeirra eru Haraldur, f. 1974, kona hans er Anna Blöndal, synir þeirra eru Hallgrímur, f. 2003, Kári, f. 2005 og Ragnheiður, f. 2009. Synir Önnu og stjúpsynir Haraldar eru Benedikt og Halldór Karlssynir, f. 1996; Kári Guðjón, f. 1977, kona hans er Eyrún Nanna Einarsdóttir, börn þeirra eru Þór, f. 2007 og Haraldur, f. 2009; Margrét Halldóra, f. 1986; Ásgeir, f. 1992. 3) Ásgeir, f. 1956, kona hans er Hildigunnur Gunnarsdóttir. Dóttir Ásgeirs er Tinna Laufey, f. 1975, sonur hennar er Pétur Bjarni Einarsson, f. 2002, sambýlismaður Tinnu er Sigurður Gylfi Magnússon. Börn Ásgeirs og Hildigunnar eru Gunnar Steinn, f. 1986, unnusta hans er Sara Sigurlásdóttir; Ragnheiður Steinunn, f. 1990, unnusti hennar er Brynjar Þór Guðbjörnsson. 4) Einar Kristján, f. 1964, kona hans er Helga Guðrún Hallgrímsdóttir. Börn þeirra eru Ingvar Bjarki, f. 1991; Hallgrímur Hrafn, f. 1993; Halldóra Björk, f. 1998. Haraldur varð stúdent frá MA árið 1940 og lauk MSc-gráðu í efnaverkfræði árið 1945 frá University of Illinois. Hann starfaði m.a. við atvinnudeild Háskóla Íslands og var forstjóri Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins frá stofnun 1965 til ársins 1985. Í starfi lagði Haraldur mikla áherslu á rannsóknir, þróun og framfarir, einkum í steinsteypu. Hann vann m.a. að styrkingu íslensks sements með íblöndun kísilryks og aðferðum til að minnka alkalívirkni, þróaði loftblendi í steinsteypu auk rannsókna á styrkleika og veðrunarþoli ásamt þróun léttsteypu. Haraldur vann einnig að ýmsum rannsóknar- og þróunarverkefnum, m.a. þróaði hann síldardælur til notkunar við síldarflutninga. Haraldur sinnti margvíslegum félags- og trúnaðarstörfum. Hann hlaut ýmsar viðurkenningar, m.a. varð hann heiðursfélagi Steinsteypufélags Íslands og Verkfræðingafélags Íslands. Hann hlaut stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir rannsóknar- og þróunarstörf í þágu byggingaiðnaðar. Útför Haraldar verður gerð frá Neskirkju í dag, föstudaginn 20. nóvember, og hefst athöfnin kl. 11.

Látinn er brautryðjandi í íslenskri rannsóknastarfsemi, Haraldur Ásgeirsson fyrrum forstjóri Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Haraldur var einn helsti frumkvöðull að tæknilegum rannsóknum í þágu byggingariðnaðar og mannvirkjagerðar á tuttugustu öldinni. Ég kynntist Haraldi líklega sumarið 1966 meðan ég var enn við framhaldsnám í Bandaríkjunum í efnaverkfræði, þeirri sömu grein og hann var menntaður. Þegar ég síðar hóf störf hjá Rannsóknaráði ríkisins sem þá hét, kynntist ég Haraldi betur. Hann hafði sterkar skoðanir á skipulagi og stefnumótun varðandi hagnýtar rannsóknir í landinu og lét til sín taka í líflegum skoðanaskiptum sem urðu um þau mál á árunum í kringum 1970. Þá voru margir þeirrar skoðunar að við byggjum við gallað skipulag sem komið var á 1965 með lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Haraldur var ekki á því en taldi hins vegar skorta mikið á að unnið væri af skynsemi að stefnumótun og áætlanagerð um uppbyggingu rannsókna í landinu. Hann gagnrýndi Rannsóknaráð hart en málefnalega fyrir skort á forystu í því efni. Eftir úttekt OECD á vísinda- og tæknistefnu hér á landi 1972 var niðurstaðan efnislega í samræmi við skoðanir Haraldar að ekkert væri að skipulaginu en starfsstefnu vantaði. Stuttu seinna var Haraldur sjálfur skipaður í framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs úr hópi forstjóra rannsóknastofnana atvinnuveganna. Beitti hann sér m.a. fyrir því að gerð yrði langtímaáætlun um uppbyggingu rannsókna í þágu atvinnuveganna er næði til allra megingreina atvinnulífsins - sjávarútvegs, fiskvinnslu, landbúnaðar, iðnaðar og byggingariðnaðar. Undirritaður var svo lánssamur að eiga hlut að verkefnastjórn við þá áætlanagerð og fylgja henni síðar eftir sem framkvæmdastjóri Rannsóknaráðs. Var þá gerð í fyrsta sinn greining á framtíðarhorfum þessara atvinnugreina og í kjölfarið áætlun um þær rannsóknir sem mikilvægast væri að sinna á tímabilinu 1976-1981. Alþingi ályktaði um málið og eftir þetta leitaði fjárveitinganefnd Alþingis umsagnar ráðsins varðandi framlög til málaflokksins. Áætlunin var síðan endurnýjuð frá grunni fyrir tímabilið 19821987 og náði þá einnig til rannsókna í verkfræði og raunvísindum við Háskóla Íslands. Þeirri áætlun var einnig fylgt eftir með fjárveitingum og síðar skipulagsbreytingum sem lagðar voru til í áætluninni, m.a. um stofnun og eflingu samkeppnissjóða. Á þessum árum sat Haraldur í framkvæmdanefnd Rannsóknaráðs ríkisins, var lengi formaður nefndarinnar og fylgdi málum fast eftir. Með þessum  áætlunum hófst mikið framfaraskeið í rannsóknum. Framlög til þeirra rannsókna jukust jafnt og þétt sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Ísland komst á þrjátíu árum úr einu neðsta sæti innan OECD í eitt af þeim hæstu að tiltölu. Þar átti Haraldur drjúgan hlut að upphafi máls.

Við Áslaug nutum góðs kunningsskapar við Harald og Halldóru konu hans meðan leiðir lágu saman. Við sendum börnum og afkomendum þeirra samúðarkveðjur um leið og kvaddur er góður samverkamaður.

Vilhjálmur Lúðvíksson.