Rögnvaldur H. Haraldsson fæddist á Frostastöðum í Blönduhlíð, Skagafirði, 17. júni 1934. Hann lést á Landspítalanum Landakoti 12. nóvember 2009. Foreldrar hans voru Haraldur Jóhannesson bóndi, fæddur 21. des 1903 í Skagafirði, dáinn 11. júní 1994, og kona hans Anna Margrét Bergsdóttir húsmóðir, f. 7. júní 1897 í Svarfaðardal, Eyjafirði, dáin 26. janúar 1991. Systkini Rögnvaldar eru: Bergur Óskar, f. 8. nóv 1926, dáinn 17. ágúst 2006. Kjartan, f. 18. sept. 1928, dáinn 22. okt 1975. Margrét, f. 15. jan. 1932. Birgir, f. 1 feb. 1937. Rögnvaldur kvæntist 16. janúar 1965 Ágústu Ingibjörgu Andrésdóttur, f. 16. sept. 1942 á Selfossi, snyrtifræðingi og kennara. Foreldrar hennar voru Andrés Hallmundsson, f. 26. ágúst 1915 að Króki í Hraungerðishreppi, trésmiður og húsvörður í Reykjavík, og kona hans Aðalheiður Guðrún Elíasdóttir húsmóðir, f. 2. okt. 1922 í Haga í Sandvíkurhreppi, d. 8. feb. 2000. Börn Rögnvaldar og Ingibjargar eru: 1) Brynja Björk, f. 15. des. 1963, maki Þórhallur G. Harðarson, f. 25. júní 1962, þau eru búsett í Reykjavík. Börn þeirra eru Ingibjörg Erla, f. 1. apríl 1992 og Hörður, f. 15. jan. 1999. 2) Rögnvaldur Óttar, f. 21. nóv. 1967, kvæntur Margréti Gísladóttur, f. 27. des. 1963. Búsett í Danmörku. Börn Rögnvaldar Óttars og Sigríðar Kristmanns frá fyrra hjónabandi eru tvíburarnir Erna Jóna og Rögnvaldur Óðinn, f. 11. des. 1994. Rögnvaldur ólst upp að Frostastöðum í Blönduhlíð til níu ára aldurs. Fjölskyldan fluttist þá að Unastöðum í Kolbeinsdal, Skagafirði. Þar átti hann heima þangað til hann fluttist til Reykjavíkur, í fyrstu vann hann við akstur og keyrði áætlunarbíla á milli Siglufjarðar og Reykjavíkur. Rögnvaldur hóf störf hjá lögreglunni í Reykjavik 1. okt. 1955, lauk prófi frá Lögregluskólanum 1958, hann hætti störfum þar 31. des. 1965. Hann hóf störf hjá Hagtryggingu við stofnun hennar 1965 og síðan vann hann hjá Samvinnutryggingum þar til hann lét af störfum vegna veikinda. Hann var virkur félagi í klúbbnum Öruggur akstur og formaður Reykjavíkurklúbbsins um skeið, ennfremur gegndi hann trúnaðarstörfum fyrir starfsmannafélag Sammvinnustarfsmanna og VR. Söngur var stór hluti af hans lífi. Meðan hann starfaði í lögreglunni söng hann með Lögreglukórnum. Hann söng með Skagfirsku söngsveitinni í Reykjavík til fjölda ára og var formaður hennar í mörg ár. Rögnvaldur verður jarðsunginn frá Bústaðakirkju föstudaginn 20. nóvember og hefst athöfnin kl. 13.

Þann 12. nóvember andaðist á Landakotsspítala vinur okkar hjóna, Rögnvaldur H. Haraldsson, eftir erfið veikindi síðastliðið ár. Rögnvaldur var Skagfirðingur, fæddur og uppalinn í Skagafirði. Kynntumst við honum þó fyrst er hann gekk til liðs við Skagfirsku söngsveitina í Reykjavík á haustmánuðum árið 1973, en þá vorum við hjónin þar innanborðs. Vissi ég þó af þessum manni áður, mér hafði verið bent á þennan Skagfirðing árið 1959 en þá var hann starfandi lögregluþjónn. Rögnvaldur var í Lögreglunni í Reykjavík um 10 ára skeið og söng hann á þeim árum í Lögreglukórnum. Eftir að hafa látið af starfi í lögreglunni fór hann að vinna hjá tryggingafélögum, fyrst hjá Hagtryggingu en síðar hjá Samvinnutryggingum þar sem hann starfaði upp frá því. Rögnvaldur tók að sér ýmis félagsstörf t.d. hjá sínu stéttarfélagi VR, einnig var hann formaður Skagfirsku Söngsveitarinnar í Reykjavík í nokkur ár. Þá var Rögnvaldur einnig félagi í Frímúrarareglunni. Um svipað leiti og við kynnumst Rögnvaldi þá kynntumst við einnig konu hans Ingibjörgu Andrésdóttur snyrtifræðingi svo og börnum þeirra, Brynju og Óttari.
Okkur Rögnvaldi varð fljótt vel til vina er hann hóf að syngja með Skagfirsku Söngsveitinni og hefur sú vinátta staðið allt til þessa dags. Fyrir utan að syngja saman höfum við ferðast með þeim hjónum innan lands sem utan með kórnum,  og þess utan farið saman í ferðalög til útlanda, þar má nefna ferðir til Spánar, Ítalíu, Kanaríeyja, og Danmerkur. Þá eru ótaldar þær stundir er við nutum samvista við þau hjón bæði í Brúnalandi, Sóleyjarrima, svo og í Garðabæ. Voru þau Rögnvaldur og Ingibjörg höfðingjar heim að sækja. Rögnvaldur var kátur og skemmtilegur félagi og naut þess að skemmta sér í góðra vina hópi. Þó munu kannski einhverjir segja að Rögnvaldur hafi ekki verið allra. Hann gat verið manna orðheppnastur og muna örugglega margir kórfélagar eftir því þegar hann kom með ýmsar léttar athugasemdir á kóræfingum, athugasemdir sem voru söngfélögum og söngstjóra til gleði og ánægju. Þá spiluðum við Rögnvaldur brids  um árabil einu sinni í viku, og alltaf spiluðum við fyrir söngæfingar svo og í kaffihléum þar, einnig í ferðum kórsins hérlendis sem erlendis í rútubílum, þar var líka spilað. Rögnvaldur gekk ekki heill til skógar um langt árabil. Hann varð að undirgangast uppskurði og spengingu í baki. Einnig varð hann að fara í hjartaskurðaðgerð fyrir nokkrum árum. Sykursýki hafði hann orðið að takast á við um nokkurra ára skeið og var svo komið að hann varð að fara í svokallaða nýrnavél (skilju) annan hvern dag, fjóra klst. í senn. Fyrir utan allskyns óþægindi þessu samfara hafði þetta í för með sér verulega skert lífsgæði að vera bundinn vél þessari, þó ekkert annað hefði komið til.
Við heimsóttum Rögnvald viku fyrir brottför hans og þá var hann með allra hressasta móti og hafði svo verið um nokkurt skeið. Þess vegna kom okkur andlátsfregnin verulega á óvart er Inga kona hans hringdi að morgni 12. nóv. sl. og sagði okkur hvernig komið væri. Þessa kæra vinar munum við sárt sakna, en nú að leiðarlokum þökkum við ánægjulega samfylgd í áratugi.
Elskulegri eiginkonu hans, Ingibjörgu og börnum þeirra Brynju og Óttari, svo og tengdabörnum og barnabörnum sem nú eiga um sárt að binda, vottum við innilega samúð okkar.

Dökkur skuggi á daginn fellur
dimmir yfir landsbyggðina.
Köldum hljómi klukkan gellur
kveðjustund er milli vina.
Fallinn dómur æðri anda
aðstandendur setur hljóða.
Kunningjarnir klökkir standa
komið skarð í hópinn góða.
(Hákon Aðalsteinsson.)

Þökk fyrir allt kæri vinur.



Ingólfur Dan Gíslason og Jóhanna Jónsdóttir.