Auður Vordís Jónsdóttir fæddist á Akureyri 3. mars 1933. Hún lést á Hrafnistu í Reykjavík laugardaginn 24. október síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Elín Aðalmundardóttir, f. 25. nóvember 1899, d. 3. mars 1960 og Jón Hallgrímsson, f. 31. janúar 1897, d. 31. október 1981. Auður var eldri systir af tveimur börnum þeirra hjóna. Eftirlifandi systir Auðar er Ída Heiður Jónsdóttir, f. 1. ágúst 1934. Foreldrar Auðar bjuggu að Oddeyrargötu 8 á Akureyri og þar ólst Auður upp. Hinn 24.12 1957 gekk Auður í hjónaband með Guðmundi Bjarna Guðmundssyni frá Hóli á Patreksfirði, f. 6. mars 1928, d. 12. nóvember 2002. Þau fluttust til Reykjavíkur árið 1958 og stofnuðu heimili. Árið 1966 fluttust þau til Kópavogs og áttu þar heimili alla tíð. Þeim varð þriggja barna auðið. Þau eru: 1) Jón Heiðar hagfræðingur, f. 25.1. 1958, kvæntur Þóru Björgu Stefánsdóttur kennara, þau búa í Kópavogi. Sonur Jóns Heiðars er Bjarni, f. 18.8. 1985, barnsmóðir María Jónsdóttir. Börn Jóns Heiðars og Þóru Bjargar eru Hallveig, f. 9.7. 1995 og Stefán, f. 21.7. 1998. 2) Elín skrifstofumaður, f. 3.3. 1960, maki Guðjón Ármann Einarsson framkvæmdastjóri, þau búa í Kópavogi. Stjúpbörn Elínar eru Guðlaug og Guðjón, börn Guðjóns. Barn Elínar og Guðjóns er Auður, f. 8.4. 1993. 3) Helga læknir, f. 22.4. 1966, gift Ólafi E. Jóhannssyni framkvæmdastjóra, þau búa í Noregi. Börn Helgu og Ólafs eru Ásta Sól, f. 10.8. 1992 og Óskar, f. 9.4. 1994. Auður ólst upp á Akureyri og menntaði sig með hefðbundinni skólagöngu á þeim tíma og stundaði einnig nám í Húsmæðraskólanum á Ísafirði og lauk þaðan prófi 1952. Auður stundaði íþróttir á sínum æskuslóðum og spilaði m.a. handknattleik með KA á Akureyri. Fyrstu ár starfsævi sinnar starfaði Auður hjá KEA á Akureyri við ýmiss konar verslunarstörf, m.a. í járn- og glervöruverslun KEA þar sem hún hitti tilvonandi eiginmann sinn, Guðmund Bjarna. Eftir að Auður og Guðmundur Bjarni fluttust til Reykjavíkur 1958 starfaði Auður um áratuga skeið við verslunarstörf m.a. hjá KRON samhliða því að stunda heimilisstörf. Auður var virkur þátttakandi í Sinawik, kvennaarmi Kiwanishreyfingarinnar og í félagsmálum eldri borgara í Kópavogi. Útför Auðar verður gerð frá Digraneskirkju í Kópavogsdal í dag, 2. nóvember, kl. 13.

Mig langar að minnast minnar góðu vinkonu Auðar Jónsdóttur sem lést 2. nóv. síðastliðinn.
Við kynntumst skömmu eftir að maðurinn minn gekk í Kiwanisklúbinn Eldey í Kópavogi fyrir u.þ.b. 30 árum, en þar var Bjarni, maður Auðar, einnig félagi.
Auður var ein af sfofnendum klúbbs Eldeyjarkvenna í Kópavogi.
Fyrir tæpum 22 árum fékk hún heilablóðfall  og lamaðist og hefur verið í hjólastól síðan. Eftir það var  hún ekki fær um að starfa að fullu með klúbbsystrum og var hennar sárt saknað af félagskonum, sem þó fylgdust ætíð með henni . Hún var einnig félagi í Sinawik í Reykjavík þar til heilsan brást.
Fyrir rúmum þremur árum fór hún á  Hrafnistu í Reykjavík  og undi sér þar mjög vel. Hún sagði alltaf eftir að hún flutti þangað: það fer svo vel um mig hér.
Ég heimsótti hana eins oft og ég gat. Þá var nú hlegið dátt,  því að við  höfðum um svo margt að spjalla  og rifja  upp allt það skemmtilega sem við höfðum gert  saman. Við fórum saman í mörg ferðalögin til útlanda með Kiwanis á Evrópuþingin, sem voru  ansi mörg, og á heimsþing  í Vínarborg og margt  fleira.
Ekki má gleyma Kanadaferðinni,  hún var toppurinn og þar var  beðið frétta af  fæðingu fyrsta barnabarnsins.
Það er svo margs að minnast eftir samveruna í  öll þessi ár.
Þegar ég kom heim úr  ferðalögum frá útlöndum, hafði ég gjarnan myndavélina mína með til hennar og þá var sko myndasýning sem henni þótti ákaflega gaman að sjá og fylgjast með. Mér gafst ekki tími til að sýna henni nýjustu myndirnar frá Ítalíu, sem ég ætlaði að koma með eftir helgina,  eins og við töluðum um, þegar ég hingdi í hana,  þremur dögum áður en kallið kom. Ekki datt mér í hug, að þetta væri í síðasta sinn sem við töluðum saman. Svona er lífið.
Hvíl í friði mín kæra vinkona.
Við Helgi vottum fjölskyldunni innilega samúð.




Nanna Þorleifsdóttir.