Guðmundur Sigjónsson fæddist í Vestmannaeyjum 22. mars árið 1928. Hann lést 7. nóvember 2009 á Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja. Hann var sonur hjónanna Sigjóns Halldórssonar, f. á Bakka í Hornafirði 31. júlí 1888, d. 19. apríl 1931 og Sigrúnar Runólfsdóttur, f. á Hóli, V.-Landeyjarhr., Rang. 26. maí 1889, d. 11. ágúst 1991. Systkini Guðmundar eru: 1) Sigjón Sigjónsson, f. 1912, d. 1912. 2) Þórunn A. Sigjónsdóttir, f. 1913, d. 1998. 3) Bragi Sigjónsson, f. 1914, d. 1985. 4) Garðar Sigjónsson, f. 1916, d. 2006. 5) Tryggvi Sigjónsson, f. 1918, d. 2000. 6) Þórhallur Sigjónsson, f. 1919, d. 1993. 7) Friðrik Sigjónsson, f. 1920, d. 1944. 8) Halldór Sigjónsson, f. 1922, d. 1930. 9) Guðríður Sigjónsdóttir, f. 1924, d. 1987. 10) Kristbjörg Sigjónsdóttir, f. 1925. 11) Gústaf Sigjónsson, f. 1927. Eiginkona Guðmundar er Jónína Þuríður Guðnadóttir, f. á Ímastöðum, Vöðlavík, 22. nóvember 1928. Foreldrar hennar voru Guðni Jónsson, f. á Ímastöðum, Vöðlavík, 3. júlí 1891, d. 3. desember 1978 og Steinunn Marta Jónsdóttir, f. í Vattarnesi, Fáskrúðsfirði, 4. mars 1897, d. 22. janúar 1962. Systkini Jónínu eru: 1) Ingvar Guðnason, f. 1926, d. 1926. 2) Ingvar Bjarni Guðnason, f. 1927, d. 1988. 3) Jóhanna Guðnadóttir, f. 1928, d. 1991. 4) Vilhjálmur Guðnason, f. 1930. 5) Þóra Ólöf Guðnadóttir, f. 1930. 6) Geir Guðnason, f. 1932. Börn Guðmundar og Jónínu eru: 1) Steinar Guðmundsson, f. 13. maí 1954, maki: Ásdís Viggósdóttir, f. 26. nóvember 1958. 2) Sigrún Guðmundsdóttir, f. 23. maí 1959, maki: Magnús Guðmundsson, f. 20. september 1959, synir þeirra eru Bergsveinn Hjalti Magnússon, f. 4. október 1982 og Þórarinn Magnússon, f. 31. mars 1989. 3) Guðný Guðmundsdóttir, f. 4. janúar 1963, maki: Alexander Matthíasson, f. 11 júní 1959, börn þeirra eru: 1) Kristófer Alexandersson, f. 19. september 1983. 2) Rakel Alexandersdóttir, f. 7. júní 1988. 3) Bergey Alexandersdóttir, f. 8. nóvember 1995. 4) Friðrik Guðmundsson, f. 28. maí 1965, var í sambúð með Luciu Guðnýju Jörundsdóttur, f. 5. ágúst 1967, börn þeirra eru: 1) Steinunn Marta Friðriksdóttir, f. 5. janúar 1990. 2) Hrafnhildur Vala Friðriksdóttir, f. 7. apríl 1996. 3) Anna Kolbrá Friðriksdóttir, f. 22. desember 1997. Guðmundur lærði vélvirkjun í vélsmiðjunni Magna og starfaði lengst af hjá Áhaldahúsi Vestmannaeyja. Guðmundur verður jarðsunginn frá Landakirkju 21. nóvember og hefst athöfnin kl. 14.

Fátt er mikilvægara hverju fyritæki eða stofnunum en að hafa trausta og góða starfsmenn í sínum röðum , menn sem  búa yfir þeim eiginleikum að hafa úrlausn á hverjum vanda  og vinna sín verk af skilningi og hugsa sig vel um áður en tekist er á við verkið. Slíkt er ávalt farsælast. Þannig maður var sá vinnufélagi minn sem hér er kvaddur hinstu kveðju.

Það var mikill happafengur fyrir Áhaldahúsið þegar Guðmundur var ráðinn þangað til starfa  vorið 1955, þá menntaður vélvirki frá vélsmiðjunni  Magna hér í Eyjum. Það kom fljótlega í ljós að  þar fór afbragðsstarfskraftur. Í fyrirrúmi. Þetta var um það leyti sem keyptar voru hingað til Eyja notaðar malbiksvélar af Keflavíkurflugvelli,  og þurftu mikillar endurnýjunar við svo þær kæmust aftur í notkun. Það þurfti að skipta út öllum mótorum, sem voru bensíndrifnir og setja í staðinn rafmótora, elfatora og færibönd, svo eithvað sé nefnt. Og þar fór Guðmundur  fremstur í flokki viðgerðarmanna, ekkert vafðist fyrir honum  eins og um opna bók væri að ræða. Þegar hann hafði grandskoðað  hina flóknu hluti  og vitað hvernig þeir áttu að virka gekk hann hreint til verks.

Oft þurfti að leita til hans með ráðleggingar og þá taldi hann ekki eftir sér að leiðbeina okkur hinum, sem ekki höfðum það vit  og þekkingu á margbrotinni vélasamstæðu. Hann var því sjálfskipaður foringi þegar fyrsta malbikunastöðin tók til starfa norðan við Lifrasamlagið, en  þar var hún staðsett svo  auðvelt væri að nálgast gufu til upphitunar.

Þetta var upphafið að umfangsmiklum vegaframkvæmdum og mikil bylting  og umhverfisvæn. Og enn snýst hún þrátt fyrir aldurinn.

Með fáum orðum er  mér þröngur stakkur skorinn svo hægt sé  að lísa  til hlýtar mannkostum Guðmundar,  til þess eru þeir of margir.

Hann sigraði alla erfiðleika með hugviti sínu. En mér er það ljúft og skylt að minnast á eitt vandamál, sem hann bauðst til að leysa þegar í óefni var komið. Það var þegar þvottavélin hennar móður minnar bilaði. Hún  var af Servis gerð og var spaði í miðjum belgnum, sem þeytti taujinu til og frá. En nú hafði það skeð að rílastykkið á spaðanum sem hvíldi á öxlinum hafði eyðst af mikilli notkun og þeytarinn því óvirkur. Kom þá upp mikið vandamál því ekki var hægt að nálgast neina varahluti, einfaldlega af því að þeir voru ekki til í bænum. Þá kom sér vel að  eiga hauk í horni sem Guðmundur var og getað leitað til snillingsins. Honum  óx þetta ekki í augum. Hann boraði út gamla rílastykkið  og steypti nýtt og betra  úr hvítmálmi  og felldi í staðinn við mikið þakklæti fjölskyldunnar.

Þegar ég minntist á þetta við Guðmund nokkru seinna sagði hann "en heyrðu Kiddi. það er hægt að  finna lausn á öllum vandamálum ef maður gefur sér tíma til að leysa þau. Mér finnst núna að  eftir góðan kaffisopa hafi hann getað leyst allar þrautir.

Ég á Guðmundi margt að þakka, hann fræddi mig um allt, sem ég þurfti að vita í sambandi við vélar og viðgerðir, og var mér innan handar ef ég þurfti einhvers með. Og hafi einhverjum þótt hann seinn í svifum þá var það einn af eiginleikum hans að hugsa áður en til framkvæmda kom. Og ef allir gerðu hið sama væri þjóðin betur á vegi stödd. Nú er að  lokum komin leið hans í okkar jarðneska lífi, en lengi munu sporin hans lifa í minningunni.

Ég og félagar mínir í  Áhaldahúsinu  þökkum honum farsælt samstarf og óskum honum góðs gengis handan við móðuna miklu.

Kristinn Viðar Pálsson.