Þórey Jóhanna Dóra Þorsteinsdóttir fæddist í Hofsósi 31. mars 1944. Hún lést á Sauðárkróki 9. nóvember 2009. Foreldrar hennar voru Þorsteinn Hjálmarsson (1913-1981), póst- og símstöðvarstjóri, og Pála Pálsdóttir (1912-1993), kennari í Hofsósi. Systkini Dóru eru Páll, f. 1941, kvæntur Dröfn Pétursdóttur; María, f. 1943; Gestur, f. 1945, kvæntur Sóleyju Skarphéðinsdóttur; Anna Pála, f. 1947, gift Val Ingólfssyni; Þorsteinn, f. 1948, kvæntur Helgu Jónsdóttur; Broddi, f. 1951, kvæntur Hjördísi Þorgeirsdóttur; Snorri, f. 1956, kvæntur Anne Hoffmeyer; Rósa, f. 1958, gift Guðna Sigurði Óskarssyni. Árið 1964 giftist Dóra Sigurgeiri Angantýssyni bifvélavirkja, f. 12. apríl 1939. Þau eignuðust tvö börn, Halldóru Vöndu, f. 28. júní 1965, gift Jakobi Frímanni Þorsteinssyni, og Andra, f. 30. mars 1976, sambýliskona hans er Aníta Sigurbjörg Ásmundsdóttir. Börn Vöndu og Jakobs eru Þorsteinn Muni, f. 26. nóvember 1998, Þórdís Dóra, f. 24. júlí 2000, og Gunnar Ásgeir, f. 14. maí 2009. Áður átti Sigurgeir tvær dætur, Friðriku Jóhönnu sem lést á fyrsta ári og Friðriku Jóhönnu, f. 4. desember 1960, sambýlismaður Þorvaldur Guðmundsson, börn hennar eru Ívar Áki Hauksson, f. 1978 og Rakel Lind Hauksdóttir, f. 1982. Dóra starfaði sem talsímavörður hjá Pósti og síma í Hofsósi 1955-1964 og á Sauðárkróki 1965-1986 með hléum, en á því tímabili stundaði hún einnig nám í híbýlafræði í Kaupmannahöfn. Hún var skrifstofumaður við Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki 1987-1988 og gjaldkeri hjá Pósti og síma á Sauðárkróki 1989-1991. Dóra var forstöðumaður Héraðsbókasafns Skagfirðinga 1991-2007 og starfaði síðan á upplýsingamiðstöð ferðamála í Varmahlíð. Hún var alla tíð virk í starfi Alþýðuflokksins og síðar Samfylkingarinnar. Þá starfaði hún lengi með Alþýðulist, félagi handverksfólks í Skagafirði. Útförin fer fram frá Sauðárkrókskirkju laugardaginn 21. nóvember.

Sumt fólk sem maður mætir á lífsleiðinni, jafnvel um skamma hríð, verður manni ógleymanlegt.  Þannig var það með Dóru Þorsteinsdóttur, sem nú hefur kvatt þennan heim eftir óviðráðanleg veikindi. Ég kynntist Dóru þegar ég fór að venja komur mínar í Skagafjörðinn sem frambjóðandi til Alþingiskosninga í Norðvesturkjördæmi árið 2007.  Dóra mætti gjarnan á stjórnmálafundi og tók virkan þátt í umræðum.  Öll framganga hennar einkenndist af skarpri gagnrýni og réttlætiskennd en um leið hvatningu til góðra verka.  Hún hafði á hreinu grunngildi jafnaðarmennskunnar um jafnrétti og bræðralag, stefnu sem hún hefur verið trú sem jafnaðarmaður og starfandi félagi í Alþýðuflokknum og síðar Samfylkingunni.  Dóra átti það til að grípa símann til að minna mig á, spyrja um eitthvað, eða senda hrós og hvatningu, allt atriði sem eru ómetanleg í starfi stjórnmálamanns.  Hún hefur verið verðugur fulltrúi þeirra gilda sem kallað er svo mjög eftir í samfélaginu okkar í dag; heiðarleika, virðingar, jafnréttis og réttlætis.  Í öllum samskiptum við Dóru mátti lesa einlæga virðingu og trú hennar á náttúru, menningu og alþýðulist sinnar heimabyggðar.  Þessi viðhorf hafa óhjákvæmilega haft áhrif á mig, sem kom nýr inn í samfélagið, viðhorf sem hvetja til dáða í þágu héraðsins. Eftir að hafa kynnst þessu fallega sögufræga svæði, mannlífinu, náttúrunni og menningunni, er auðvelt að skilja hvers vegna Dóra var svo trygg sinni heimabyggð og helgaði líf sitt störfum í Skagafirðinum. Ég mun sakna góðra ráða, hvatningar og gagnrýni Dóru.  Minningin um hana mun verða mér vegvísir í baráttunni fyrir betra og réttlátara samfélagi. Ég sendi eftirlifandi eiginmanni og fjölskyldunni allri mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Guðbjartur Hannesson