Rögnvaldur Óðinsson fæddist í Reykjavík 26. júlí 1950 og lést þar 13. nóvember 2009. Foreldrar hans eru Hulda Arnórsdóttir og Óðinn Rögnvaldsson. Systkini hans eru Kolbrún Óðinsdóttir, maki Kristján S. Ólafsson; Hrafnkell Óðinsson; Margrét Óðinsdóttir, maki Jón H. Skúlason; Ingiríður Óðinsdóttir, maki Árni Guðmundsson. Rögnvaldur kvæntist Fríðu Ólafsdóttur. Þau slitu samvistum. Eignuðust þau saman fjóra syni, Óðinn, Daníel, Finn Óla og Sveinbjörn Karl. Rögnvaldur lauk gagnfræðaprófi frá Réttarholtsskóla. Síðan lá leið hans til Noregs og var hann þar við nám í tvö og hálft ár.Hann starfrækti matvöruverslun í Hátúni 10 í nokkur ár og seinna heildverslun. Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Vinur minn Rögnvaldur Óðinsson er látinn. Maður sem var hetja í sínu lífi og fyrirmynd þeirra sem ekki fæðast inn í þennan heim líkamlega fullkomnir. Hetja sem tók neikvæðum þáttum í lífi sínu á  jákvæðan hátt og sneri oft upp í grín því sem flestir hefðu haldið að væri viðkvæmt fyrir hann.
Ég þekkti þennan mann alltaf, mæður okkar voru nánar vinkonur. Reyndar bundust mæður okkar það sterkum böndum að lengi vel hélt ég að við værum skyld.  Ég átti Rögga alltaf sem vin. Þó ég hafi ekki hitt hann í nokkur ár núna, þar sem ég hef búið í Kanada í 7 ár, þá finnst mér að ég hafi hitt hann í gær. Með börnin sín að máta skó, hlæja að öllu því neikvæða í lífinu og lifa frekar fyrir það jákvæða. Ég vildi að ég gæti spurt hann hvernig ég get litið á fráfall hans á jákvæðan hátt. Það er erfitt.
Röggi var duglegur og lét aldrei deigan síga. Oft hefði mér fundist að á unglingsárum hefði hann átt að bogna, en hann átti fjölda vina. Öllum þótti vænt um hann. Hvernig var annað hægt, hann sem alltaf sýndi öðrum svo glaðlegt og hlýtt viðmót.
Elsku Óðinn, Hulda og systkini. Ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Eins bið ég algóðan Guð að styrkja börnin hans sem og ykkur öll.
Megi minningin um þessa hetju lifa.

Drífa Jónsdóttir.