Brynja Ingibjörg Brynleifsdóttir Mallios fæddist á Akureyri 3. maí 1953, en ólst upp og bjó í Keflavík frá 1954. Hún lést á sjúkrahúsi í Lakeland í Flórída 2. nóvember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Aðalheiður Axelsdóttir, f. 1931, d. 1992, og Brynleifur Jóhannesson, f. 1930, d. 2007. Hún átti fjóra bræður: 1) Jón Brynleifsson, f. 1951, í sambúð með Ingunni Sigurðardóttur. Jón átti tvo drengi úr fyrra hjónabandi, Brynleif, f. 1969, og Ágúst, f. 1973. 2) Jóhannes Brynleifsson, f. 1956, kvæntur Sigríði Garðarsdóttur og áttu þau þrjá drengi, Aron, f. 1986, d. 2004, Pétur, f. 1990, og Núma, f. 1995. Jóhannes átti tvo drengi úr fyrra hjónabandi, Brynleif, f. 1978, d. 2000, og Kristófer, f. 1979. 3) Karl Brynleifsson, f. 1958, kvæntur Jónínu Skaftadóttur og eiga þau tvær dætur, Ásthildi, f. 1995, og Karen, f. 1998. 4) Tobías Brynleifsson, f. 1960, kvæntur Margréti Jónsdóttur og eiga þau tvö börn, Aðalheiði, f. 1986, og Róbert, f. 1991. Brynja var þrígift í Bandaríkjunum. Hún hefur búið í Bandaríkjunum meirihluta fullorðinsára. Hún giftist Philip Mallios 3. maí 1992 og hafa þau búið síðustu 17 ár í Flórída. Brynja átti einn son, Jósep Lárus Brynleifsson, f. 1971. Foreldrar hennar ólu Jósep upp hér á Íslandi. Jósep hefur búið í Bandaríkjunum síðustu árin, frá 1997. Hann er tvíkvæntur og á þrjú börn, Ágústu, f. 1997. Síðan á hann tvo drengi, Nolan, f. 1999, og Hunter, f. 2002, sem búa í Bandaríkjunum. Brynja hefur unnið við þjónustu- og verslunarstörf bæði hérlendis og erlendis. Þjónustulundin var mjög mikil og var hún vel liðin þar sem hún vann. Enda hörkudugleg og gefandi kona. Útför Brynju Ingibjargar fór fram í kyrrþey á Íslandi.

Elsku Brynja. Þegar við lítum yfir farinn veg þá er okkur efst í huga þakklæti til þín. Þú reyndist mér alltaf góð systir. Ég gat alltaf leitað til þín með allt, bæði þegar við vorum börn og einnig þegar við urðum fullorðin. Mamma var sú sem hélt fjölskyldunni saman og þegar hún dó þá gekkst þú Heiðu og Robba börnum okkar Möggu í ömmustað. Og þótti okkur öllum mjög vænt um þig. Og eigum við eftir að sakna þín mikið. Við heimsóttum þig nokkrum sinnum til Flórída og þú tókst alltaf vel á móti okkur. Þú varst búin að gera herbergi til fyrir okkur. Það var heimur ævintýranna. Herbergið var fullt af allskyns leikföngum fyrir krakkana. Krakkarnir muna þetta ennþá. Við ferðuðumst  og fórum í allskyns skemmtigarða. Þetta voru ógleymanlegar stundir. Samband okkar hefur alltaf verið gott og sterkt og þó þú byggir í Bandaríkjunum þá varstu samt stutt frá okkur. Við töluðum saman í síma og í gegnum tölvuna. Þú komst einnig og heimsóttir okkur, þá varstu alltaf hjá okkur. Og eigum við margar góðar minningar eftir það.

Þú varst alltaf gjafmild kona og vildir gera allt fyrir alla. Þar sem líða tekur að jólum þá minnumst við þess þegar allt jólapakkaflóðið fór að streyma frá Bandaríkjunum. Það var ekkert venjulegt, yfirleitt tíu jólapakkar á hvern mann. Þegar þú greindist svo með MND fyrir ca. 2 árum þá kom það eins og reiðarslag. Sérstaklega þar sem þú byrjaðir mjög fljótt að eiga erfitt með mál, en lengi vel ef þú gast ekki talað í síma þá skrifaðir þú okkur og við vorum í góðu sambandi í gegnum tölvuna. Okkur fannst erfitt að geta ekki verið nær þér þá en þú áttir frábærar vinkonur sem reyndust þér vel í veikindunum. Og viljum við sérstaklega þakka henni Kristínu Engiljónsdóttur fyrir alla hjálpina, hún sannaði hvað trú vinkona getur skipt miklu máli. Og að lokum vil ég þakka þér þær góðu stundir sem við áttum saman síðasta mánuðinn sem þú lifðir þegar ég heimsótti þig út. Þá varstu komin á sjúkrahús í Lakeland þar sem var hugsað mjög vel um þig. En þar áttum við góðan tíma saman og margar ómetalegar minningar sem ég mun geyma í mínu hjarta um ókomna tíð.

Minning þín lifir.

Þinn bróðir,

Tobbi, Magga og börn.

Elsku Brynja mín.

Mig langar að þakka þér fyrir að hafa komið inn í líf mitt og gert það betra. Þú sagðir alltaf að ég hefði átt að vera þín. Að storkurinn hefði farið með mig í vitlaust hús. Þú ert svo frábær kona í alla staði og þín verður sárt saknað og sérstaklega af mér. Alltaf þegar að mér leið illa þá hélstu utan um mig og ruggaðir mér fram og tilbaka og sönglaðir og þá leið mér alltaf miklu betur. Þú hefur alltaf verið góð við alla og sérstaklega við mig. Þegar að Alla amma dó þá var ég svo ung að þú komst í hennar stað. Ég hef ávallt hugsað til þín sem ömmu og mig langar að þakka þér fyrir það. Þú gerðir allt fyrir mig. Þú hefur alltaf verið talin hávær og fyrirferðamikil og erum við líkar að því leyti. Það veit enginn nema þú hversu mikið ég á eftir að sakna þín elsku Brynja mín. En núna ertu  komin til Öllu ömmu og hún mun hugsa vel um þig. Ég bið að heilsa henni. En nú hef ég ekki aðeins misst eina ömmu heldur tvær og mér þykir það mjög leitt. En mundu bara að ég hef og mun ávalt elska þig.

Þín,

Heiða.