Magnea Thomsen var fædd 17. maí 1941 á Siglufirði og ólst þar upp til átta ára aldurs. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 15. nóvember 2009. Foreldrar hennar voru Thomas Thomsen frá Skarvanesi í Færeyjum f. 9. maí 1901, d. 14.janúar 1970 og Anna Kristín Halldórsdóttir frá Vémundastöðum Ólafsfirði f. 14. maí 1908, d. 8. október 1998. Systkini hennar voru Hallmar Thomsen f. 7.maí 1932, d. 8.október 2002, Elna Thomsen f.7.júní 1934, d. 9. ágúst 1935, Elna Thomsen f. 11. maí 1936, Thomas Enok Thomsen f. 27. febrúar 1940 og Svala Sigríður Thomsen f. 15.október 1945. Eiginmaður Magneu er Guðmundur Jón Sveinsson, vélstjóri f.17.október 1939 í Ólafsvík,þau giftu sig 10.janúar 1962. Foreldrar hans voru Sveinn K.S. Einarsson f.10.janúar 1892, d. 13. september 1967 og Þórheiður Einarsdóttir f. 4.apríl 1895, d. 6.júní 1964. Börn þeirra voru 11 að tölu auk einnar uppeldisdóttur. Börn Magneu og Guðmundar voru fjögur. 1) Sigurður Sveinn Guðmundsson rafvirki, f. 12.júní 1961, maki Guðrún Jenný Sigurðardóttir kennari, börn Þórheiður Elín, Hugrún Ýr og Eggert Sveinn 2) Anna Margrét Guðmundsdóttir sjúkraþjálfari, f. 1.maí 1963, maki Unnar Freyr Bjarnason smiður, börn Magnea Heiður og Guðmundur Bjarni. 3) Þórheiður Guðmundsdóttir f. 3.september 1964, d. 10. apríl 1965. 4) Tómas Guðmundsson nemi, f.10. mars 1975, maki Sonja Erna Sigurðardóttir húsmóðir, börn Viktor Þór, Sigurður Ingi, Christian Heiðar og Apríl Elna. Magnea bjó á Siglufirði til átta ára aldurs en þá flutti fjölskyldan til Færeyja og bjó þar í tæp þrjú ár ár. Eftir stutta viðdvöl í Reykjavík fluttu þau í Höskuldsey á Breiðafirði, Hjörsey á Mýrum þar sem foreldrar hennar sinntu vitavörslu, í Ytri Bug í Fróaðárhreppi og til Ólafsvíkur. Magnea og Guðmundur bjuggu alla sína búskapartíð í Ólafsvík en fluttu fyrir tveimur árum til Kópavogs. Magnea lauk gagnfræðaprófi af verknámsbraut frá Kópavogsskóla og skrifstofutækni síðar. Hún starfaði sem húsmóðir, talsímavörður, við fiskvinnslu, móttökuritari á Heilsugæslustöð Ólafssvíkur og við skrifstofustörf við fyrirtæki þeirra hjóna. Hún var félagi í slysavarnardadeildinni Sumargjöf í Ólafsvík og voru þau málefni henni mjög hugleikin. Heimilisstörf, handavinna og fjölskyldan voru hennar líf og yndi. Útför Magneu fer fram frá Ólafsvíkurkirkju laugardaginn 28. nóvember kl. 14.00.

Ég fel í forsjá þína,
Guð faðir, sálu mína,
því nú er komin nótt.
Um ljósið lát mig dreyma
og ljúfa engla geyma
öll börnin þín, svo blundi rótt.
(Matthías Jochumsson.)

Komið að kveðjustund, elsku Magga frænka er dáin. Á stundum sem þessum leita á minningar, minningar um einlæga og hjartahlýja móðursystur mína sem ylja mér nú. Á táknrænan hátt kvaddi hún mig á dögunum,  lagði mjúka lófann sinn á vanga minn og bað mig að muna hvað henni þætti vænt um mig. Hlýja hennar í minn garð er veganesti sem ég bý að alla tíð.  Það er mikils virði að vera alin upp í litlu sjávarplássi í nærveru fjölskyldu og vina, að eiga allsstaðar athvarf. Heimili Möggu og Gumma var alltaf opið okkur frændsystkinunum. Ein fyrsta minning mín um Möggu var þegar hún var að skreyta frostingtertuna góðu við eldhúsborðið í Stekkjarholtinu. Tómas átti afmæli, hann var fjögurra ára. Ég var sjálf að verða 9 ára, meira en helmingi eldri en Tómas. Við Tómas vorum með yngstu systkinabörnunum og nutum þess innan fjölskyldunnar. Mér fannst ég orðin svo stór frænka og geta hjálpað svo mikið en eflaust hef ég verið að þvælast fyrir og potað vel í kremið sem var afskaplega freistandi. Á fullorðinsárum hef ég verið búsett í Reykjavík. Magga fylgdist alltaf með mér, hvort sem hún var í Ólafsvík eða á Spáni. Þegar ég eignaðist dætur mínar fékk ég sendingar frá henni. Agnarsmáa sokka og vettlinga, hvít útsaumuð rúmföt fyrir ungabarnið og hlýja kveðju í bréfi. Megi algóður guð geyma minninguna um yndislegu móðursystur mína og gefa fjölskyldu hennar styrk í sorg þeirra.

Ég og fjölskylda mín vottum Gumma, Sigga Sveini, Önnu Margréti, Tómasi og fjölskyldum og öðrum aðstandendum okkar dýpstu samúð.

Ingibjörg Th. Hreiðarsdóttir.