Guðrún Guðjónsdóttir fæddist í Rangárþingi 4. ágúst 1912. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð að morgni sunnudagsins 15. nóvember sl. Foreldrar Guðrúnar voru Margrét Guðmundsdóttir, f. 27. sept. 1888, d. 25. jan. 1980, og Guðjón Einarsson, f. 25. júlí 1885, d. 16. júlí 1966. Guðrún eignaðist níu systkini. 1) Páll Óskar, f. 1911, d. 1966. 2) Guðmundur, f. 1916, d. 1962. 3) Guðríður, f. 1917. 4) Ólafur, f. 1918, d. 1998. 5) Ragnar, f. 1920, d. 1982. 6) Þórður, f. 1921. 7) Skarphéðinn, f. 1924, d. 2007. 8) Hermann, f. 1927. 9) Ágúst, f. 1929. Eiginmaður Guðrúnar var Guðmundur Þórðarson, f. 7. nóv. 1911, d. 31. mars 1960. Guðrún og Guðmundur eignuðust fjögur börn. 1) Erla, f. 18. okt. 1938, d. 17. apríl 1980, og á hún eina dóttur, Hafdísi, f. 1958. 2) Sverrir, f. 18. okt., giftur Huldu Ólafsdóttir, f. 1942, og eiga þau þrjú börn. a) Ragnar, f. 1972. b) Gunnar Már, f. 1975. c) Bryndís Eva, f. 1977. Fyrir átti Hulda synina Halldór Inga, f. 1960, og Brynjar, f. 1961, sem Sverrir gekk í föðurstað. 2) Margrét, f. 14. ágúst 1942, gift Rúnari Jóni Ólafssyni, f. 1937, d. 2006, og eiga þau fjögur börn. a) Þuríður Ólöf, f. 1961. b) Guðmundur Rúnar, f. 1964. c) Hjördís Úlla, f. 1968. d) Helena, f. 1973. 4) Alda, f. 18. jan. 1949, d. 22. jan. 1976, og átti hún tvo syni. a) Elvar, f. 1968, d. 1996. b) Viðar, f. 1972, d. 2001. Langömmubörn Guðrúnar eru 28 og langalangömmubörnin sjö. Útför Guðrúnar fór fram í kyrrþey að hennar ósk.

Elsku besta amma í Kóp., eins og við krakkarnir kölluðum hana er nú farin frá okkur. Ég var mikið hjá ömmu minni þegar ég var lítil en það var alltaf svo gaman að koma til hennar og fá pönnsur, en þær átti hún alltaf til og ef ekki var bara skellt í nokkrar. Við barnabörnin hennar brölluðum mikið heima hjá ömmu.

Þessi kjarnakona átti nú ekki beint áfallalausa ævi, fyrst missti hún manninn sinn og ól ein upp börnin sín fjögur ásamt dótturdóttur sem missti móður sína ung  og  svo aðstoðaði hún við uppeldi á dóttursonum sínum tveimur sem einnig misstu sína móður ungir. Þetta getur ekki hafa verið auðvelt þó ekki hafi borið á neinu.

Þegar ég flutti til Danmerkur árið 2003 með fjölskylduna fengu börnin mín alltaf senda ömmusokka um jólin sem vöktu mikla gleði.  Mér datt ekki annað í hug þegar ég fór til að kveðja hana að það væri nú í síðasta sinn sem ég sæi hana, en nei, hún var sko ekki á leiðinni neitt og þakka ég fyrir að fá að hafa fengið að vera aðeins lengur með þér elsku besta amma í Kóp. Við göntuðumst oft með það að hún ætti níu líf blessunin.

Eftir að ég flutti svo fimm árum seinna heim aftur var hún elsku amma enn í fullu fjöri og átti helling eftir, hún var alveg ótrúlega dugleg. Amma veiktist oft eftir að ég flutti til Íslands en alltaf náði hún sér og var komin í göngugrindina á fullu, þá fórum við að tala um að hún ætti nú kannski þrettán líf.  En hvað sem þau voru mörg þá lifði hún lífinu til fulls og ekkert stóð í vegi hennar.

Það er ein saga sem amma sagði mér fyrir örugglega 20 árum sem mig langar að segja hér því hún lýsir henni ömmu svo vel. Þannig var að amma fór í öllum veðrum upp í Hamraborg að versla, þó ekki vantaði nema einn mjólkurpott. Einn daginn var mikil hálka og hún var á leiðinni heim úr búðinni, þegar hún kom svo að brekkunni niður að götunni sem hún bjó í stóð henni ekki á sama  um hálkuna. Amma sá svo krakka vera að koma úr strætó og setjast á rassinn og renna sér niður brekkuna, sú gamla var ekki lengi að skella sér á rassinn og gera eins og krakkarnir.

Elsku besta amma við eigum eftir að sakna þín óendanlega mikið, en við vonum að þú hafir nú fengið frið í hjarta og sért komin á betri stað.

Vertu guð faðir, faðir minn

Í frelsarans Jesú nafni

Hönd þín leiði þig út og inn

Svo allri synd ég hafni

Hjördís Rúnarsdóttir.