Ragnhildur Fanney Þorsteinsdóttir fæddist á Ólafsfirði 14. mars 1961. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu 17. nóvember sl. Hún var fimmta barn hjónanna Þorsteins S. Jónssonar, f. 13.5. 1928, d. 29.9. 2003, og Hólmfríðar S. Jakobsdóttur, f. 20.11. 1929. Systkini hennar eru: a) Bergþóra Sigurbjörg, f. 20.9. 1949, gift Jóhanni Runólfssyni, eiga þau einn son og eitt barnabarn. b) Jón, f. 11.10. 1951. c) Þorsteinn Jakob, f. 17.1. 1953, kvæntur Sirgíði H. Þórðardóttur og eiga þau fjögur börn. d) Þyri Emma, f. 6.8. 1957, gift Karli Geirssyni og eiga þau tvö börn. e) Kristín, f. 20.8. 1962, d. 14.4. 2000, gift Pálmari Magnússyni og eiga þau fjórar dætur. f) Arna, f. 6.2. 1965, gift Gunnlaugi Magnússyni og eiga þau eina dóttur. Ragnhildur ólst upp á Ólafsfirði til 10 ára aldurs en þá flutti fjölskyldan til Reykjavíkur. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði árið 1983 og kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1986. Hún kenndi í eitt ár í Þorlákshöfn og í eitt ár í Fellaskóla. Fór þá til frekara náms í Bandaríkjunum. Lauk mastersgráðu í sérkennslu og annarri í lestrarfræðum frá North Carolina State University árið 1994. Hún kenndi við East Clayton Elementary school frá 1994-2000 en þá flutti hún heim. Kenndi frá 2000-2002 í Hrísey og við Grunnskólann í Sandgerði frá 2002. Var deildarstjóri sérkennslu þar árin 2003-2005. Ragnhildur fylgdist vel með nýjungum í starfi sínu og sótti fjölda námskeiða í lestri og stærðfræði en lestrarkennsla var hennar aðalstarf. Hún var mjög farsæll kennari og vel metin. Ragnhildur var mikill dýravinur og átti lengstum marga hunda. Bjó hún sér og þeim heimili á Skeggjastöðum í Garði. Útför Ragnhildar verður gerð frá Háteigskirkju í dag, laugardaginn 28. nóvember, og hefst athöfnin kl. 14.

Nú er sál þín rós
í rósagarði Guðs

kysst af englum

döggvuð af bænum
þeirra sem þú elskaðir

aldrei framar mun þessi rós
blikna að hausti
(Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir.)

Elsku Ragnhildur mín, minning um fallega sál, yndislega systur og dýravininn mun ég geyma í hjarta mér , styrk þinn og kjark að leiðarljósi um ókomin ár, bros þitt og hlýju í sál minni.

Nú eruð þið tvær systurnar sem haldist í hendur í rósagarði Guðs, fylgist með okkur sem eftir erum og umvefjið okkur ást, styrk og hlýju.

Hvíl í friði elsku systir mín Guð veri með sál þinni.

Þín litla systir,

Arna.

Í dag kveð ég vinkonu mína og mágkonu til margra ára.  Mikið á ég eftir að sakna þín Ragnhildur mín.  Að koma ekki á Skeggjastaði aftur og ræða við þig um hundana okkar og hin ýmsu mál.  Við þig gat ég rætt um það sem ég ræddi ekki við neinn annan.  Söknuður minn er mikill.  Ég kveð þig með orðunum sem þér þótti svo vænt um voff....voff...voff...

Elsku Fríða, Bergþóra, Nonni, Dengsi, Þyri, Arna, og aðrir aðstandendur, megi algóði Guð styrkja ykkur í þessari miklu sorg.

Hvíl í friði elsku Ragnhildur mín.

Gunnlaugur Magnússon.

Ég var rekinn út heiman frá mér með það erindi í farteskinu að ná í rúllupylsukrydd. Fannst það ágætt, hafði lítið lagt til við pylsugerðina fram að þessu og hafði litlu við að bæta. Á leið milli betri verslana í borginni leitandi að hinu týnda kryddi reikaði hugur minn að komandi sumri og fyrirætlan minni að stunda strandveiðar, kannski suður með sjó. Á milli verslana þar sem kaupmenn útskýrðu fyrir mér með ofurkurteislegum hætti að umbeðið rúllupylsukrydd væri ekki heitasta varan á smásölumarkaðnum þessa dagana, þræddi ég byggðarlögin suður með sjó í huganum og rifjaði upp hverja ég þekkti þar sem gætu sagt mér frá útgerðarháttum. Mundi ég eftir Ragnhildi frænku sem hafði fyrr á lífskeiðinu gætt okkar bræðranna, verið andlegur leiðtogi minn og verkefnastjóri á hinni akademísku braut og þá síðast verkstjóri yfir okkur sem tóku grafir í Grafarvogskirkjugarði á öldinni sem leið.

Mikið var gott að heyra í henni þegar hún loks svaraði.  Við ræddum dágóða stund um lífsins gagn og nauðsynjar og henni var skemmt er ég rakti rúllupylsuófarir mínar.

Hún var iðin við að teikna sjálfsmyndir á sínum tíma, myndir þar sem hún brosti kímin með lárétt augun, sem geisluðu að glaðværð og hlýju. Þannig man ég þig frænka, megi guð geyma þig.

Pétur Einar Traustason.

Ragnhildur var einstök manneskja: hlý og góð. Hún var einstaklega barngóð og meiri dýravin var vart hægt að finna. Réttlætisást hennar hafði ýmsar birtingamyndir en hún tók alltaf málstað þeirra er minna máttu sín. Hundaval hennar endurspeglaði þessa réttlætiskennd því hún valdi alltaf hunda sem fáir ef nokkrir aðrir kærðu sig um að eiga. Ragnhildur hafði líka einstakan húmor, henni tókst að sjá spaugilegu hliðarnar á öllu og ekki gerði hún síst grín að sjálfri sér.

Mér er það svo minnisstætt þegar ég var við nám í málvísindum við Háskóla Íslands og ég heimsótti hana eitt sinn á Landspítalann. Innti ég hana eftir því hvort ég ætti ekki að færa henni eitthvað og þá bað hún mig að koma með töflu yfir íslensku málhljóðin því hún hafði svo mikinn áhuga á hljóðritun. Þetta er fremur týpískt fyrir Ragnhildi. Hún sýndi áhugasviðum annarra og öðru fólki svo mikinn áhuga; hugsaði um að láta því líða vel.

Áhugasvið hennar var afar breitt; það spannaði allt frá rapptónlist, róttækum byltingamönnum til raunvísinda enda fróðleiksfúsari mannneskja vandfundin. Að spjalla við Ragnhildi um allt og ekkert var oft mögnuð upplifun enda manneskjan einstaklega vel lesin og fróð. Orðatiltækið að spjalla um allt milli himins og jarðar öðlaðist skýra merkingu þegar rætt var við Ragnhildi. Stundum var meira að segja rætt um það sem fyrir handan er en Ragnhildur var fremur viss í sinni sök að ýmislegt kynni að leynast þar. Á þessari stundu er gott til þess að vita að hún hafði oft rétt fyrir sér um ótrúlegustu hluti. Ragnhildur var einstök vinkona hennar verður sárt saknað.

Fjölskyldunni votta ég mína dýpstu samúð.
Þín vinkona,

Dagný Bolladóttir.