Ragnar Ingi Tómasson fæddist á Blönduósi 8. september 1946. Hann lést á líknardeild Landsspítalans á Kópavogi 18. nóvember 2009. Foreldrar Ragnars Inga voru hjónin Tómas Ragnar Jónsson frá Blönduósi, f. 8. júlí 1903, d. 10. maí 1986 og Ingibjörg Vilhjálmsdóttir frá Bakka í Svarfaðardal, f. 23. október 1903, d. 24. nóvember 1969. Systur Ragnars eru: 1) Kristín Bergmann Tómasdóttir, f. 12. ágúst 1926. 2) Nanna Tómasdóttir, f. 9. ágúst 1932. 3) Ásta Heiður Tómasdóttir, f. 12. janúar 1935. Eiginkona Ragnars er Steinunn Anna Guðmundsdóttir frá Hofsósi, f. 21 september 1946. Þau giftust 14. október árið 1967. Foreldrar Önnu, Guðmundur Steinsson, f. 24. desember 1921, d. 25. júní 1993 og Stefanía Jónsdóttir f. 12. mars 1925. Börn Ragnars og Önnu eru: 1) Guðmundur St. Ragnarsson, f. 1. maí 1969. Synir hans eru Ragnar Darri Guðmundsson, f. 27. júní 1993, móðir Nína Margrét Pálmadóttir f. 14. desember 1970 og Gylfi Steinn Guðmundsson, f. 24. mars 1996, móðir Lilja Dögg Gylfadóttir, f. 7. október 1974. 2) Tómas Ingi Ragnarsson, f. 9. júlí 1973. 3) Sunna Apríl Ragnarsdóttir, f. 1. apríl 1981. Dóttir hennar er Indíana Ósk Ríkharðsdóttir, f. 9. desember 2006. Barnsfaðir Ríkharður Kolbeinsson, f. 15. nóvember 1980. Ragnar Ingi ólst upp á Blönduósi og bjó þar alla ævi ef frá eru talin síðastliðin tvö ár, þar sem hann bjó í Reykjavík. Hann stundaði nám í bifvélavirkjun og starfaði við það um skammt skeið hjá Vélsmiðju Húnvetninga eftir útskrift 1967. Eftir það hóf hann störf hjá Samvinnufélögunum á Blönduósi og starfaði þar óslitið til ársins 2004, lengst af hjá Sölufélagi Austur-Húnvetninga sem fulltrúi framkvæmdastjóra og síðar hjá Kaupfélagi Húnvetninga. Eftir það starfaði hann um skammt skeið hjá Húnakaupum og hjá Blönduósbæ. Ragnar Ingi var ritari bæjarstjórnarfunda Blönduósbæjar um margra ára skeið. Ragnar Ingi og Steinunn Anna fluttu til Reykjavíkur árið 2007 og hóf Ragnar Ingi störf hjá Húsasmiðjunni í Skútuvogi og starfaði þar til ársins 2009. Ragnar Ingi stundaði hestamennsku á Blönduósi í áratugi. Hann var formaður hestamannafélagsins Neista um skeið. Hann var einn af stofnendum Hjálparsveitar skáta á Blönduósi. Ragnar Ingi var meðlimur í Lionsklúbbinum á Blönduósi um árabil. Þá tók hann þátt í starfsemi Leikfélags Blönduóss á sínum yngri árum. Ragnar Ingi var í kjörstjórn á Blönduósi um áratugaskeið. Hann tók talsverðan þátt í pólitísku starfi á Blönduósi, síðast fyrir H-listann. Einnig gegndi hann ýmsum trúnaðarstörfum fyrir samvinnufélögin og verkalýðsfélög í Austur-Húnavatnssýslu. Ragnar Ingi vann fyrir bændur í Austur Húnavatnssýslu lengst af sinni starfsævi. Málefni bænda og landsbyggðar, Húnaþings og ekki síst Blönduóss voru honum afar hugleikin. Ragnar verður jarðsunginn frá Langholtskirkju í dag. 27. nóvember, og hefst athöfnin kl. 13.

Margs er að minnast, margs er að sakna. Far vel vinur góður, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Góður drengur liggur í valnum eftir erfiða baráttu við illvígan skjúkdóm.  Þegar ég hitti Ragnar í sumar var hann vongóður um að hann kæmist upp þessa erfiðu brekku og að leiðin væri greiðari framundan.  Það fór ekki svo vel, vegurinn varð grýttari og að endingu varð hann að lúta í lægra haldi. Kynni mín af Ragnari hófust þegar ég hóf störf á skrifstofu Kaupfélags Húnvetninga og SAH í maí 1996, þá nýútskrifaður úr háskólanum á Bifröst. Af öllu því frábæra starfsfólki sem þarna vann var Ragnar kletturinn og límið sem hélt öllu saman.  Hann var gríðarlega vel skipulagður, traustur, nákvæmur og vandvirkur starfsmaður sem frábært var að leita til. Ragnar Ingi var orðlagður fyrir vandvirkni sína og áreiðanleika og sá m.a. um áratuga skeið um ritun fundargerða fyrir bæjarstjórn Blönduóss og samvinnufélögin. Okkur Ragnari varð fljótt vel til vina, báðir gátum við verið smámunasamir og námkvæmir en það er gjarnan eðli þeirra sem fæðast í meyjarmerkinu.  Aldrei bar skugga á samstarf okkar þrátt fyrir miklar og oft á tíðum erfiðar breytingar á rekstri og högum félaganna. Er ég Ragnari Inga óumræðanlega þakklátur fyrir vináttuna, traustið og frábært samstarf.

Ég færi Önnu Steinunni , börnun þeirra og barnabörnum, sem nú eiga um sárt að binda mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Lúðvík Vilhelmsson.