Vigfús Baldvinsson fæddist í Fremri Hundadal í Dalasýslu 7. febrúar 1925. Hann lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 18. nóvember s.l. Foreldrar hans voru Baldvin Sumarliðason f. 6. ágúst 1884, d. 6. desember 1959 frá Breiðabólsstað, Sökkólfsdal í Dalasýslu og Guðrún Vigfúsdóttir f. 4. júní 1880, d. 10. ágúst 1967 frá Dalsmynni, Mýrasýslu. Vigfús var eina barn foreldra sinna en fósturbróðir hans var Sumarliði Kristjánsson. Hinn 18. nóvember 1953 giftist Vigfús Katrínu Karlsdóttur f. 24. ágúst 1926, d. 7. júní 1997, frá Fitjum í Staðarsveit, Strandasýslu. Foreldrar hennar voru Jón Pétur Karl Jónsson f. 22. júní 1899, d. 23. okt. 1968 og Guðrún Níelsdóttir f. 8. júní 1894, d. 17. jan. 1989. Börn Vigfúsar og Katrínar eru: 1) Guðrún , f. 6. júní 1954, í sambúð með Ársæli Þórðarsyni f. 19.des. 1949. Barn þeirra er Katrín Elfa f. 11. des. 1975, í sambúð með Jónasi K. Árnasyni, börn þeirra eru Brynjar Atli, Mikael Fannar og Hekla Maren. 2) Ingibjörg f. 9. des. 1957, gift Guðmundi Eyþórssyni, f. 6. ágúst 1952. Börn þeirra Vigfús Baldvin f. 7. nóv. 1980 í sambúð með Birnu Karlsdóttir barn þeirra er Baldvin Dagur, Birkir Rafn f. 14. sept. 1984 og Anna Rósa f. 28. mars 1987 barn hennar er Ólafur Vignir. 3) Edda Bára f. 28. jan. 1963 gift Jónasi Theodór Sigurgeirssyni f. 30. júní 1960. Börn þeirra Erla Björk f. 9. okt. 1980, börn hennar Annika Katrín og Emil Theodór, Sævar Þór f. 22. nóv. 1983, barn hans Isaac Jónas, Arnór Ingi f. 3. okt. 1992. Vigfús keypti sér sinn fyrsta vörubíl 17. ára gamall og stundaði vörubílaakstur á Keflavíkurflugvelli og í Reykjavík áður en hann flutti í Búðardal árið 1952 og hóf þar vörubílaakstur að mestu fyrir Vegagerð ríkisins til ársins 1972 en frá því ári var hann ráðinn verkstjóri hjá Vegagerðinni í Búðardal og gengdi því starfi til ársins 1997. Árið 2003 flutti hann á Minni Grund og dvaldi þar til dauðadags. Á Grund eignaðist hann góð vin- og samferðakonu Guðrúnu Hannesdóttir f. 29. nóv. 1925 og dvelur hún þar enn. Þau tóku þátt í ferðalögum með eldri borgurum í Reykjavík ásamt því að mæta á samkomur á þeirra vegum.

Ég vil að minnast elsku besta afa míns og langafa. Ég á alltaf eftir að muna eftir afa sem þrjóskasta manni sem ég hef þekkt. Mínar helstu minningar eru þegar ég var heima hjá ömmu og afa að leika mér í hundaleikjum, þá fannst mér alltaf svo gaman að láta afa taka þátt í leiknum með mér, hann var alltaf kallinn sem vildi ekki hafa hunda inn á heimilinu sínu og því henti hann mér út og ég krafsaði í hurðina og afi stóð inni og horfði á mig. Þetta þótti mér mjög gaman.

Einnig þegar  ég fékk að sofa hjá ömmu og afa þá fékk ég alltaf að vaka eins lengi og ég gat, ég sofnaði að sjálfsögðu alltaf á stofugólfinu. Það sem lét mig alltaf líða eins og ég væri sérstök í augum afa var að þegar ég gisti hjá ömmu og afa þá fékk ég ekki að sofa í stóra svefnsófanum eins og ég vildi alltaf því afi vildi hafa mig í sófanum í stofunni svo hann gæti séð mig.

Ein helsta minning mín um þrjóskuna í honum afa mínum er þegar ég fékk í fyrsta skipti að vera ein heima fram á kvöld. Ég fékk peninga hjá mömmu og pabba og mátti fara upp í  búð og fá mér franskar og samloku í kvöldmat. Mér þótti þetta mjög spennandi, að fá að fara svona ein að fá mér að borða. Afi vissi af því að ég væri ein heima svo hann hringdi með mjög reglulegu millibili til að heyra í mér. Svo hringir hann og segist ætla að bjóða mér í mat, ég reyndi að sjálfsögðu að afþakka það því ég var svo spennt fyrir því að fá að fara ein að borða uppí búð. Afi tók ekki í mál að ég færi ein að borða og kom bara og sótti mig. En hann hafði þó bakað alveg rosalega góða pizzu svo ég varð ekkert mjög vonsvikin.

Mér þótti líka svo vænt um það að síðast þegar ég hitti afa þá var hann svo hrifin af Ólafi Vigni og mér þótti einnig svo gaman að því hvað Ólafur var hrifin af langafa sínum, hann var svo spenntur að fara til langafa og sýna honum nýju dráttarvélina sem hann fékk í dótabúðinni. Ólafur hefur spurt mikið um langafa sinn síðan við fórum síðast til hans og biður líka um að fá að sjá mynd af sér með langafa en hann talar um að langafi sé ekki veikur lengur.  Hvíld þú í friði elsku afi og langafi.

Hvert örstutt spor var auðnuspor með þér,
– hvert andartak er tafðir þú hjá mér
var sólskinsstund og sæludraumur hár,
minn sáttmáli við Guð um þúsund ár.

(H. Laxness.)

Þín,

Anna Rósa og Ólafur Vignir.

Kveðja til Vigfúsar

Frændi   þegar  fiðlan þegir,

fuglinn krípur lágt að skjóli.

Þegar kaldir vetrarvindar,

villa sýn á borg og hóli.

/

Sé ég oft í óskahöllum,

ilman skógum betri  landa.

Ljúfling minn sem ofar öllum,

Íslendingum kunn að standa.

/

Þá að brotni þorn í silgju,

Þó að hrökkvi fiðlustrengur.

Ég hef sæmt hann einni fylgju,

Óskum mínum hvar hann gegnur.

(höf. Halldór Kiljan Laxnes)

Kæri Vigfús þakka þér árin.

Kveðja,

þín vinkona,

Guðrún Hannesdóttir.

Við viljum minnast afa okkar Vigfúsar sem við söknum sárt og eigum margt að þakka. Honum var umhugað að okkur liði vel og skorti ekkert. Það var  alltaf gott að koma á Miðbrautina til afa og ömmu, við fengum alltaf höfðinglegar móttökur þar enda sóttum við í að koma þangað og ekki var síðra að fá að fara með þeim í sumarbústaðinn og alltaf var hann eitthvað að lagfæra og bæta þar.  Þar kynnti hann okkur fyrir náttúrunni og að bera virðingu fyrir henni.  Á sínum æskuslóðum  Miðdölum, á Bröttubrekku,  yfirleitt í Dalasýslu og víðar um land þekkti hann mikið af örnefnum.  Á flakki með honum um Dalina var ótrúlegt að hlusta á hann þylja upp örnefni á öllum hólum, giljum og steinum og þorum við að fullyrða að fáir ef einhverjir séu jafn fróðir um sveitina sína og hann afi var.

Hann var mikill bílaáhugamaður og sást það vel á því að bílarnir hans  voru ávallt vel hirtir. Eftir að við  eldri barnabörnin  eignuðumst okkar bíla var okkur bent  pent á að það þyrfti að þrífa og bóna bílinn. En stundum gerði hann það fyrir okkur sem var nú ekki verra. Hann var ekki mikill hestamaður en með nafna sínum fór hann að velja hest sem hann hafði unnið fyrir og þar hafði hann ákveðnar skoðanir um valið og nafninn tók mark á afa  og sú meri sem hann hafði puttana í að velja hefur staðið sig vel. Þeir sem þekktu til afa vissu það að hann hafði enga þolimæði og þar af leiðindi ekki mjög spenntur fyrir stangveiði. Nafni hans hafði þó mikinn áhuga og vildi ólmur reyna að smita hann af bakteríunni. Þeir nafnar fóru þá eitt sinn að veiða í Straumfirði og er það ein af fáum veiðiferðum afa. Tækni þess gamla var ekki upp á marga fiska en hann náði engu síður að landa tveim fiskum þótt færið hafi ekki farið frá stönginni. Lætin urðu svo mikil þegar hann landaði þeim fyrri að hann hrasaði um stein og flaug á hausinn, enda dauðbrá honum þegar bitið var á beint við fætur hans.

Afi og amma lögðu mikla áherslu á garðrækt enda var garður þeirra til mikilla prýði og eftir að amma dó sló afi ekki slöku við að hugsa um bæði  garðinn og stofublómin sem voru ekki ófá, afi mikið snyrtimenni var ekki sáttur nema allt væri í röð og reglu. Þegar  við komum við á Miðbrautinni á suðurleið þá þurfti að drífa sig, hann vildi að allt gengi hratt og örugglega fyrir sig og hringja þegar komið var á leiðarenda.  Þegar amma dó sýndi afi mikinn styrk og stóð sig eins og hetja þó skyndilegt fráfall hennar hafi verið honum og okkur öllum mikið áfall.

Hann bar ekki síður umhyggju fyrir barnabarnabörnunum, bæði þeim sem eru hér á landi og í Danmörku en þar er eitt barnabarnbarnið sem  honum auðnaðist ekki að hitta.

Ávallt var gott að koma til þeirra á Grund, þar voru þau Guðrún búin að koma sér vel fyrir og töluðu um að þau væru með stofu, eldhús og eitt herbergi þó að tveir gangar væru á milli herbergja. Voru þau með  ýmis góðgæti til að gefa.

Við viljum þakka elsku besta afa okkar og langafa fyrir dásamleg ár.  Guð blessi hann.

Ástarkveðjur,

Barnabörn og barnabarnabörn.

Ég vil minnast tengdarföður míns nokkrum orðum. En Viggi var stór hluti af mínu lífi á liðnum nær 30 árum. Ég komst fljótt að því að hann hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum sem fóru ekki endilega saman með mínum. Það varð í lagi þegar á leið kynni okkar því við lærðum að virða skoðanir hvors annars og ræddum oft pólitík, bæði lands- og sveitarstjórnarmál, vorum stundum ósammála um ágæti einstakra manna og oft um flokka.
Það er þroskandi að þurfa að taka tillit til skoðana annarra en það reyndi á okkur báða, þar sem hann mun eldri aðilinn, var ekki mjög vanur því að honum væri mótmælt innan fjölskyldunnar. Það voru ekki bara stjórnmálaskoðanir sem greindu okkur að, heldur margskonar nostur og nákvæmni við hluti og athafnir. Honum var mjög hugleikið að bílar okkar væru vel útlítandi og bónaðir, lóðir slegnar og vel hirtar, húsum vel við haldið án þess að hlutirnir kostuðu of mikið.
Það má segja að við yrðum nánari eftir að tengdamóðir mín, hún Katrín, andaðist árið 1997 þá varð Viggi raunverulega einn af mínum heimilismönnum þar sem hann kom nær daglega í mat og börnin mín fengu því meira af afa sínum að segja en önnur barnabörn hans. Þó svo að hann kæmi til okkar  var hann fullfær um að hugsa um sig sjálfur, sem var óvenjulegt hjá manni á þessum aldri, hann bæði bakaði og eldaði fyrir sig sjálfur. Af þvottinum hans þurfti aldrei að hafa áhyggjur.
Árið 2003 tók Viggi þá ákvörðun um að flytja og fór þá Dvalarheimilið Grund, þar sem  hann bjó uns hann lést. 18. nóv. sl.

Hvíl í fiði.

Guðmundur.