Róbert Friðþjófur Sigurðsson fæddist í Hafnarfirði 18. september 1960. Hann lést hinn 19. nóvember 2009. Móðir Róberts var Mona Gudrun Andersson, f. 16. mars 1937 í Nötö í Finnlandi, d. 18. desember 1989. Foreldrar Monu voru Martha og Fridtjof Andersson frá Nagu í Finnlandi. Faðir Róberts er Sigurður Óskarsson, f. 9. júlí 1937 að Seljavöllum í Eyjafallasveit, sonur Önnu Jónsdóttur og Óskars Ásbjörnssonar. Albróðir Róberts er Stefán Sigurður, f. 25. janúar 1957, og hálfbræður samfeðra eru Sveinn Óskar, f. 27. júlí 1968, og Elís Anton, f. 15. mars 1971. Stjúpsystkini Róberts eru Ragnheiður Guðný, f. 1960, og Guðmundur Ingi, f. 1954. Stjúpmóðir Róberts er Eygló Guðmundsdóttir, f. 1935. Kona Róberts er Kristín Sveinsdóttir, f. 8. febrúar 1963, í Reykjavík. Foreldrar hennar eru Sigríður Sigurðardóttir, f. 17. júlí 1937 og Illugi Sveinn Stefánsson, f. 6. maí 1936. Dætur Róberts og Kristínar eru Marta Sigríður, f. 21. júlí 1989, og Bryndís Móna, f. 22. mars 1995. Róbert ólst upp í Hafnarfirði, gekk í Öldutúnsskóla og síðar í Flensborg, þaðan sem hann lauk stútentsprófi af málabraut í maí 1982. Hann hóf nám við Háskóla Íslands og lauk námi frá Félagsvísindadeild í uppeldis- og kennslufræðum til kennsluréttinda í júlí 1986 og BA prófi í sagnfræði, ensku og forspjallsvísindum frá Heimspekideild. Árið 1986 fluttu Róbert og Kristín til Patreksfjarðar þar sem Róbert vann sem kennari í eitt námsár en síðan lá leiðin til Akureyrar haustið 1987 þar sem hann réðst til starfa sem kennari við Menntaskólann á Akureyri og starfaði þar allar götur síðan að undanskildu einu ári þegar fjölskyldan flutti til Englands, þar sem hann lauk mastersnámi í alþjóðasamskiptum við Háskólann í Kent Kantaraborg í nóvember 1992. Hann lauk prófi frá Leiðsöguskóla Íslands 1997 og varð svæðisleiðsögumaður á Norðurlandi eystra. Þá lauk hann námi fyrir fjarkennara frá Endurmenntunarstofnun HÍ árið 2000 og starfaði sem slíkur við Verkmenntaskólann á Akureyri samhliða kennslunni við Menntaskólann. Útför Róberts fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, mánudaginn 30. nóvember, og hefst athöfnin kl. 13.30.
Með örfáum orðum langar mig að kveðja þig kæri bróðir og þakka fyrir allar þær stundir sem við áttum saman og þá sérstaklega þær stundir sem við eyddum saman norður á Skaga við veiðar, stað sem þú hefur farið árlega rúm 20 ár, stað sem þú elskaðir að vera í ósnortinni náttúru við veiðar þar sem heiðin í sinni víðáttu og fjallasýn iðaði af lífi og fuglasöng, þar sem vötnin full af fiski biðu þín.
Seinustu sex árin komst þú með þá hugmynd við bræður eyddum þar saman einni helgi oftast voru í för með okkur Daníel sonur minn og vinur þinn Davíð. Þessar stundir voru ávallt helgina kringum Jónsmessuna þegar sumarið er í algleymi miðnætursólin dansandi á haffletinum, þessar stundir mun ég geyma vel í hjarta mínu því trúi ég að andi þinn muni svífa þar að eilífu. Vertu sæll elsku bróðir.
Eiginkonu þinn Kristínu Sveinsdóttur og börnunum Mörtu Sigríði og Bryndísi Mónu votta ég mína dýpstu samúð.
Stefán S. Sigurðsson.