Guðfinnur Sigurður Sigurðsson var fæddur í Reykjavík þann 16. nóvember 1940. Hóf störf hjá lögreglunni árið 1964. Lauk námi frá Lögregluskólanum 28. febrúar 1969. Starfaði sem í umferðardeild lögreglunnar á bifhjóli. Starfaði einnig í lögreglustörfum í Vestmannaeyjum, Reykjavík, Ólafsvík, Keflavíkurflugvelli, og Akranesi. Starfaði við afleysingar varðstjóra í Neskaupsstað nokkrum sinnum við almenna lög- og tollgæslu. Guðfinnur kom aftur til starfa hjá lögreglunni í Reykjavík árið 1978 til 1995 en þá var Guðfinnur leystur frá störfum vegna veikinda sinna. Var virkur félagi í Frímúrarareglunni. Gengdi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn og sat í miðstjórn flokksins og ýmsum nefndum og ráðum fyrir hann. Starfaði lengst af sem áfengisvarnarfulltrúi lögreglunnar í Reykjavík og var frumkvöðull í því starfi sem nú er. Fjölskylda: Guðfinnur Sigurður Sigurðsson f. 16.nóv. 1940. d. 18.nóv. 2009. For.: Sigurður Sigurðsson sjómaður f.24.01. 1908. d. 26. mars. 1971 og Helga Kristín Guðmundsdóttir f.14. nóv. 1913. d. 18. des. 1947. Systkini: Sesselja Sigurðardóttir f. ?? á lífi og Guðmundur E. Sigurðsson f. 2. nóv. 1938. d. 20. sept. 1998. Fyrrverandi eiginkona og barnsmóðir hans er: Guðbjörg Pálína Einarsdóttir f. 4. ágúst 1942. Áttu saman þessi börn: Einar Óla f. 16. júlí 1961. d. 7. jan. 1980. Lést af slysförum. Sigurð Kristinn f. 26. jan. 1963 Dóttir f. og d. 1964 Stefán Birgi f. 28. nóv. 1965. Svein Hjört f. 2. maí 1971. Helgu Björgu f. 7. ágúst 1972. Á lífi eru fjögur börn Guðfinns. Seinni kona Guðfinns er Helen Sigurðsson en þau giftu sig árið 2006. Útför Guðfinns fór fram 27. nóvember 2009.
Finni móðurbróðir minn er fallinn frá. Óneitanlega bregður manni þegar maður ekki eldri en hann, hverfur úr þessu lífi.
Ungur að aldri missti hann móður sína og ósjálfrátt kom móðureðlið upp í móður minni (systur hans) og fannst henni hún ætíð bera ábyrgð á honum.
16 ára að aldri flutti hann svo inná heimili okkar í Hlíðargerðinu, deildum við þá herbergi og vorum eins og bræður þrátt fyrir 8 ára aldursmun.
Finni stundaði sjó á togurum en sótti síðar um í lögregluna og starfaði sem lögreglumaður meiripartinn af sinni starfsævi.
Hann var þrjóskur og fylginn sér og komst þannig áfram með ýmsa hluti sem ella hefðu ekki gengið upp.
Finni lenti í mjög alvarlegu bílslysi ungur að árum og hafði það slys áhrif á allt hans líf.
Annað afar þungt áfall dundi yfir Finna og þáverandi eiginkonu hans, Guðbjörgu, þegar elsti sonur þeirra, Einar, var stunginn til bana um borð í varðskipi einungis 19 ára gamall. Slíkt sár grær aldrei, þó fólk læri að lifa með því.
Foreldrar mínir Guðmundur, sem nú er látinn, og Sesselja, systir Finna, báru alla tíð hag hans fyrir brjósti og til þeirra gat hann leitað þegar erfiðleikar steðjuðu að.
Finni var trúaður maður og hefur það eflaust hálpað honum í gegnum erfiðleikana.
Hann var í kringum fertugt þegar fyrsta hjartaáfallið dundi á honum og segja má að hann hafi verið sjúklingur æ síðan.
Algóðan Guð bið ég að blessa sálu Finna frænda míns og innilegar samúðarkveðjur, sendi ég fjöllskyldu hans.
Far þú í friði kæri frændi.
Helgi S. Guðmundsson.
Elsku afi minn. Þegar mér bárust þær fréttir að þú værir dáinn fékk ég svo illt í hjartað. Ég skynjaði strax þegar ég sá mömmu fá sjokkið þegar hjúkrunarkonan sagði mömmu það í gegnum símann. Ég finn svo til í hjartanu elsku afi minn en ábyggilega ekki eins og þú þegar þitt hjarta stoppaði og þú fórst frá mér (okkur). Það er svo margt sem ég vill segja við þig en náði ekki. Ég tala bara við þig þó þú sért farinn. Ég veit þú hlustar og hjálpar mér í einu og öllu.
Ég sakna þín svo mikið, ég er með mynd af þér inni hjá mér og kertaljós og í hvert sinn sem kveiki á kertinu þá er ég að segja þér að ég elska þig og sakna þín.
Góða ferð elsku afi minn. Núna ertu kominn til Guðs. Þú finnur ekki lengur til. Þú ert búinn að hitta alla. Einar Óla son þinn, dóttur þína, mömmu þína og pabba, bróður sem ég veit að þú saknaðir mikið. Þú varst og ert bestur, mundu það, þú munt alltaf vera í hjarta mínu um ókomna tíð.
Ég kveð þig elsku afi minn með sár í hjarta.
Þín Dúkka,
Sonja Rut Jónsdóttir 12 ára.
Ó, pabbi minn ég kveð þig kært
með klökkva í hug og sál.
Og þér með hjarta sonar sært
ég sendi þakkarmál.
/
Ég horfði ei fram á hinsta sinn,
ég hélt í von og trú.
Og bað svo heitt um bata þinn
sem brugðist hefur nú.
/
Því horfinn er við harmsins blæ
þér heimur augum frá.
Ég tæplega því trúað fæ
og tárin streyma af brá.
/
Því söknuðinn ég sáran finn
í sál og hjartastað.
Þín hlýja fyllti heiminn minn,
ég hlaut að finna það.
/
Það allt var hreint og heilt í þér
sem hollast reyndist mér.
Sá finnur Guð sem góður er
og geymir ljós í sér.
/
Og þannig varstu þannig man
ég þig með trausta mund.
Þinn fjársjóður var fjölskyldan,
það fann ég hverja stund.
/
Ég lít því árin liðnu í þrá,
við ljúfa bernskusýn.
Því þar ég áfram þig mun sjá
og það er huggun mín.
/
Svo farðu pabbi farðu vel
í friði heim á leið.
Þú finnur Drottins fagrahvel,
þér förin verður greið.
Elsku hjartans pabbi minn. Ég sakna þín svo sárt. Takk fyrir að vera vinur
minn í lífi mínu. Takk fyrir allar samverustundirnar sem við áttum. Ég
þakka þér pabbi minn fyrir að vera til staðar þegar ég þarfnaðist þín í
lífi mínu. Það er sárt að kveðja þig, en ég veit að þú ert í góðum höndum.
Einar bróðir og litla systir taka á móti þér opnum örmum, og umvefja
þig. Afi og amma sem elskuðu þig, og Gummi bróðir þinn. Núna ertu með þeim
öllum í ljósinu bjarta. Ég mun geyma þig í hjarta mínu, og minningin um þig
elsku pabbi minn mun lifa í hjartanu mínu um ókomna tíð. Þú varst
yndislegur faðir. Góða ferð elsku pabbi minn, og við sjáumst seinna.
Eins og Tanja Dagbjört afastelpan þín skrifaði eitt sinn til mín, tileinka ég þér þau sömu orð.
Með ást þinni kenndir þú mér að elska. Með trausti þínu kenndir þú mér að að trúa. Með örlæti þínu kenndir þú mér að gefa. Takk fyrir allt elsku pabbi minn.
Ég elska þig.
Þinn ástkæri sonur,
Sigurður Kristinn Guðfinnsson.