Gunhild A. Bjarnason fæddist í Struer í Danmörku 15. maí 1917. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Víðinesi hinn 24. nóvember sl. Foreldrar hennar voru Sigurbjörg Einarsdóttir, f. 26. júní 1886, d. 1. október 1970, fædd á Íslandi, og Christen Christensen, f. 3. maí 1882, d. 4. maí 1941, fæddur í Danmörku og voru þau búsett þar. Systkini hennar sem öll eru látin voru Solrun Erna, sem var búsett á Íslandi, Hulfred, búsett í Danmörku, og Andre, búsettur í Danmörku. Gunhild giftist Magnúsi Bjarnasyni, f. 24. ágúst 1913, d. 15.desember 1979. Foreldrar hans voru Ragnheiður Magnúsdóttir og Bjarni Ívarsson. Börn Gunhild og Magnúsar eru 1) Gunnar Rúnar, f. 1947, giftur Kristínu Davíðsdóttur, f. 1949. Börn þeirra eru a) Davíð Rúnar, f. 1973, maki Alda Davíðsdóttir, f. 1971, og eiga þau synina Birki og Jökul. Auk þess á Alda fyrir dótturina Sögu Hrönn Aðalsteinsdóttur. b) Ragnheiður, f. 1978, maki Einar Bragason, f. 1976, og eiga þau börnin Helenu og Eyþór. c) Hilmar, f. 1982, maki Oddný Þóra Logadóttir, f. 1986. 2) Kristinn, f. 1950, giftur Jónu Margréti Georgsdóttur, f. 1951. Börn þeirra eru a) Gunnhildur, f. 1972, maki Ólafur Geir Sverrisson, f. 1968, og eiga þau börnin Jónu Maríu og Kristinn Dag. b) Erla, f. 1980. 3) Einar Þórir, f. 1955, giftur Ingibjörgu Kjartansdóttur, f. 1955. Börn þeirra eru a) Magnús, f. 1981, maki Heiða Einarsdóttir, f. 1984, dætur þeirra eru Karen og Katrín. b) Salvör Ósk, f. 1994. Auk þess átti Einar fyrir dótturina Hrafnhildi Ásu, f. 1976. Gunhild ólst upp í Danmörku en fluttist til Íslands 1945 eftir að Solrun systir hennar giftist íslenskum manni. Gunhild giftist Magnúsi 1946 og bjuggu þau á Reykjabraut í Mosfellssveit. Fyrstu árin var hún húsmóðir en fór síðan að vinna í borðstofunni á Reykjalundi og vann þar fram til sjötugs. Síðustu árin dvaldi hún fyrst á Hlaðhömrum, dvalarheimili aldraðra í Mosfellsbæ og svo á Hjúkrunarheimilinu Víðinesi á Kjalarnesi. Útför Gunhild fór fram í kyrrþey 30. nóvember sl.

Elsku amma. Minningarnar sem við eigum um samveru okkar eru fjölmargar. Stutt var á milli húsa og því vorum við oft að skottast heima hjá þér jafnt inni sem úti. Garðurinn þinn var algjör ævintýragarður hvort sem var sumar eða vetur og alltaf gátum við fundið okkur eitthvað að dunda við þegar við vorum inni. Á veturna var alltaf snjór hjá ömmu. Það var ósjaldan sem við systurnar lentum í því að þurfa að svara neyðarkalli frá þér yfir vetrartímann þegar þú varst innilokuð vegna snjóa og við þurftum að koma og moka þig út úr litla gula húsinu þínu. Þá var öslað af stað í hvaða veðri sem var með skóflu og hafist handa við að moka. Amma var glæsileg kona, alltaf vel til höfð, heilsuhraust og voru göngutúrarnir hennar líf og yndi. Hún gat oft á tíðum verið mjög stíf og dómhörð en sýndi okkur alltaf örlæti og skilning þegar við leituðum til hennar og var ávallt til staðar fyrir okkur og við vorum ávallt til staðar fyrir hana. Við þökkum þér amma fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur í gegnum tíðina. Við munum minnast þín með hlýju og bros á vör. Við viljum að lokum senda þér bænirnar sem þú lærðir sem barn í Danmörku.

Bøn

Nu er jeg træt og går til ro,

lukker mine øjne to;

Fader se med kærlighed

til mit ringe leje med!

(Luise Hensel 1817, Kristian Arentzen 1846.)

/

Nu lukker jeg mit øje

og putter med i min kind,

Gud Fader i det høje,

luk mig i haven ind.

(L. Budde)


Gunnhildur og Erla.

Elsku amma Gunhild. Við systkinin viljum þakka þér fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum með þér. Það fyrsta sem kemur upp í huga okkar þegar við hugsum til baka um þig á Reykjabraut var allur snjórinn, ekkert fannst okkur skemmtilegra en að koma til þín og fá að leika í öllum sköflunum sem náðu oftar en ekki upp á húsþak og vel yfir snúrustaurana. Skemmtilegast var að láta taka myndir af sér við snúrustaurana því hvergi annarsstaðar var svona mikill snjór og alltaf var hægt að búa til myndarleg snjóhús. Þó svo kannski fullorðna fólkinu þætti nóg um og óskaði að snjórinn væri ekki svo mikill. Þegar snjórinn var sem mestur og ófært var heim til þín heilu og hálfu vikurnar gistir þú vanalega hjá okkur, þá var alltaf jafn notalegt að koma heim úr skólanum vitandi að þú beiðst okkar.  Á sumrin var líka mjög gaman að vera hjá þér, við frændsystkinin lékum okkur saman í garðinum og svo fengum við að hjálpa þér að týna sólber og rifsber á haustin, nóg var nú til enda ómælt magn sem var innbyrgt áður en það komst ofaní föturnar. Inni var alltaf nóg af spilum til að spila með þegar allir voru saman. Hér verðum við einnig að minnast allra Andrésar Andar blaðanna sem til voru á dönsku að sjálfsögðu enda er það helsta ástæða fyrir því hversu vel okkur gekk í dönskutímum í skólanum.  En elsku amma nú ert þú komin á góðan stað, við hugsum til þín og geymum góðar minningar um þig í hjörtum okkar.

"Snert hörpu mína, himinborna dís,
svo hlusti englar guðs í Paradís."

Davíð Rúnar, Ragnheiður og Hilmar.