Hálfdan Ármann Björnsson fæddist á Hraunkoti í Aðaldal 2.desember 1933. Hann lést 20. ágúst síðastliðinn á Landspítalanum við Hringbraut. Foreldrar hans voru Björn Ármannsson f. 19.1.1902 á Hraunkoti, d. 18.8.1970 og Kristín Kjartansdóttir f. 3.4.1898 á Daðastöðum í Reykjadal, d. 17.9.1988. Hálfdan var fjórði í röð 6 systkina en þau eru: Þórey f. 4.10.1929, Árdís f. 8.11.1930, Kjartan f. 22.5.1932, Svanlaug f.31.10.1942, d. 5.2.1996, Þórgrímur f.27.11.1937. Hálfdan kvæntist Bergljótu S. Benediktsdóttur, f. 23.2.1942, þann 19. Mars 1960. Foreldrar hennar voru Benedikt S. Sigurðsson frá Garði í Aðaldal, f. 14.1.1909, d. 3.12.1988 og Snjólaug Guðrún Jónsdóttir frá Kaldbak, f 6.4.1919, d. 10.6.2006, þau bjuggu á Hjarðarbóli í Aðaldal. Hálfdan og Bergljót eignuðust 5 börn: 1) Hlédís Hálfdanardóttir, f. 6.5.1960 gift Steindóri G. Steindórssyni frá Akureyri. Börn Hlédísar eru a) Hilmir Freyr Jónsson, f. 26.4.1980 kvæntur Brendu Asiimire frá Uganda sonur þeirra er Davíð Morris f. 8.1.2009. Hilmir á einnig dótturina Söru Dögg f. 5.5.2001. b) Guðjón Ívar Jónsson f. 3.6.1986. c) Daníel Geir Steindórsson f. 28.1.1996. 2) Sigurður Hálfdanarson f. 10.9.1963, kvæntur Brynju Arngrímsdóttur frá Húsavík. Sonur þeirra er Benedikt f. 22.9.1989. 3) Þyrnir Hálfdanarson, f. 17.4.1965 kvæntur Gunnlaugu D. Pálsdóttur. Börn þeirra eru: a) Þyrnir Hálfdan, f. 13.5.2003, b) Bergljót Sóley, f.2.6.2005 c) Þórey Kristín, f. 12.3.2009. 4) Freyja Hálfdanardóttir, f. 3.7.1972 gift Jóni Gunnari Þorsteinssyni, frá Húsavík. Börn þeirra eru: a) Þorsteinn f. 18.12.1999. b) Hálfdan Árni f. 29.6.2003. 5) Benedikt Hálfdanarson, f.15.11.1978 kvæntur Maeve C. Hölscher frá Þýskalandi. Hálfdan lauk gagnfræðaprófi frá Héraðsskólanum að Laugum í Reykjadal árið 1953 og einnig var hann einn vetur í lýðháskóla í Noregi. Árin 1957-1961 starfaði hann sem farkennari í Reykjahverfi og á Tjörnesi. Hálfdan og Bergljót bjuggu félagsbúi á Hjarðarbóli í Aðaldal með foreldrum Bergljótar og síðar með Sigurði syni sínum og Brynju konu hans. Hálfdan sinnti mörgum ábyrgðar og trúnaðarstörfum, hann var í samlagsráði Mjólkursamlags KÞ á Húsavík, deildarstjóri mjólkurdeildar Aðaldæla, sat í stjórn Búnaðarfélags Aðaldæla 1977 -1988, var formaður Búnaðarsambands Suður – Þingeyinga og stéttarsambandsfulltrúi Þingeyinga auk margra annarra trúnaðarstarfa. Hálfdan var einn af stofnfélögum kirkjukórs Nessóknar sem hann söng með til ársloka 2008, var gjaldkeri Neskirkju í fjölda ára og söng einnig um árabil með karlakórnum Hreim. Hálfdan gaf út 2 ljóðabækur, Fjóshendur (2003) og Rúmhendur (2009). Útför Hálfdanar fer fram frá Neskirkju í Aðaldal kl 14.00 laugardaginn 29. ágúst.

Mig langar til að minnast Hálfdanar tengdaföður míns en hann hefði átt afmæli annan desember.
Það var gaman að fylgjast með þeim hjónum Hálfdani og Beggu þegar þau hófu að mála á steina. Listsköpun Beggu fólst í því að glæða steina lífi í ýmsum dýraformum s.s. uglur, ketti og hunda. Hálfdan hafði meira gaman af því að mála eitthvað sem vakti viðbrögð hjá fólki; ófrýnilegar vættir eða fólk, ýmsar þjóðþekktar persónur sem hann sá úr steinunum eða presta með voða ámátlegan svip.
Svo hóf hann að tálga karla og kerlingar. Sum þeirra voru ansi glennuleg og jafnvel bara dónaleg, má þar nefna hjónin sem Hálfdan stillti eitt sumarið út á tún í Hlégarði og það tísti í honum hláturinn í hvert sinn sem hann var að sýna gestum og gangandi listaverkin.
Ef Hálfdan var ekki að tálga eða mála þá var hann að skálda. Hann gaf út tvær ljóðabækur Fjóshendur og Rúmhendur, þar sem húmorinn, erótíkin og þörfin fyrir að segja sögur koma svo sterkt fram.
Hálfdan var ekki mikið fyrir tölvur og netið og fannst tæknin sú bara tímaeyðsla en þegar hann uppgötvaði samfélag hagyrðinga á netinu og Vísnahornið þá var hann ekki lengi að tileinka sér tæknina og það birtust oft kvæði eftir hann á netinu og í dagblöðum.
Kæri Hálfdan. Ég veit að þú ert núna á góðum stað, vonandi þar sem þú kemst af og til í fjós, og segir sögur, tálgar í tré og spinnur ljóð. Hvíl í friði.
Þín tengdadóttir,

Gunnlaug.