Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir fæddist 21.4. 1924 á Barði í Miðfirði í V-Húnavatnssýslu. Hún lést á Landspítala í Fossvogi 30. nóvember síðastliðinn. Ingibjörg var síðast til heimilis á Norðurbrún 1 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Halldóra Sigríður Jónsdóttir, f. 14.2. 1892, d. 15.2. 1931, og Magnús Jónsson, f. 4.1. 1896, d. 23.4. 1980. Systkini Ingibjargar eru María Magnea, f. 10.10. 1916, og Þorvaldur, f. 15.2 1920, d. í nóvember 2006. Ingibjörg eignaðist átta börn alls: Sigríði Berglindi, f. 6.6. 1946, og Gísla, f. 5.6. 1948, með Baldri Árnasyni, f. 8.5. 1926, d. 4.4. 2002. Helen, f. 29.12. 1950, lést af slysförum 1986, Ann, f. 6.10. 1952, Davíð, f. 15.1. 1954, Karl, f. 12.10. 1957, dreng fæddan andvana í janúar 1959, og Maríu Önnu, f. 30.9. 1960. Barnabörnin eru orðin 19 alls og langömmubörnin fjölmörg líka. Fyrstu árin bjö Ingibjörg með foreldrum sínum á Þorkelshóli og á Hvammstanga í V-Húnavatnssýslu. Haustið 1929 fluttu þau suður í Hafnarfjörð, þar sem heimili hennar var fram á unglingsár. Þegar hún missti móður sína í febrúar 1931 fór hún í fóstur til Sigríðar Snæland og manns hennar Péturs Snæland, sem reyndust henni alla tíð vel og allt þeirra fólk. Á meðan hún var á vinnumarkaði vann hún við hótel- og veitingastörf á ýmsum stöðum. Útför Ingibjargar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, mánudaginn 7. desember kl. 15.

Mig langar að minnast með nokkrum orðum vinkonu minnar Ingibjargar G. Magnúsdóttur, Dúfu, sem lést 30. nóvember sl.

Mér er í fersku minni sólbjartur sumardagur fyrir rúmum sextíu árum, þegar ég hitti Dúfu í fyrsta sinn. Mamma hafði beðið mig að fara til dyra og taka á móti stúlku sem væntanleg var til dvalar á æskuheimili mínu í Túngötu 8. Bjallan hringdi og við dyrnar stóð þessi gullfallega, brosmilda, ljóshærða stúlka, þá 24 ára gömul. Hún átti eftir að dvelja hjá okkur í rúmlega tvö ár og, eins og algengt var þá, aðstoða við heimilisstörfin ásamt því að vinna vaktavinnu á veitingastað í miðbænum.

Dúfa varð vinkona okkar mömmu beggja og hélst sú vinátta alla tíð. Það skipti engu máli að ég var níu árum yngri en hún og mamma átján árum eldri. Hún hafði góða nærveru, var einstaklega glaðlynd og það var stutt í hláturinn og glensið. Í lok verunnar í Túngötunni hitti Dúfa væntanlegan eiginmann, Þorstein Löve, sem þá var einn af okkar fræknustu íþróttamönnum og setti fljótlega saman bú með honum. Lífið með Steina var ekki alltaf dans á rósum. Íþróttirnar voru hans ær og kýr og stundum teknar fram yfir vinnu og heimili. En Dúfa tók því með jafnaðargeði; trygglynd og sterk stóð hún við hlið Steina meðan stætt var. Eftir átta ára hjónaband skildu leiðir þeirra og eftir það bjó hún ein með börnum sínum þar til þau uxu úr grasi eitt af öðru.

Dúfa eignaðist stóran og myndarlegan afkomendahóp en af átta börnum hennar eru sex á lífi. Á langri vegferð áttum við saman margar ánægjustundir á heimilum beggja, að ógleymdum öllum bíóferðunum. Hún hafði yndi af að ferðast til útlanda. Eitt sinn leysti hún af sem þerna á Reykjafossi og hafði mikið gaman af og annað sinn fórum við saman á sólarströnd á Spáni og skemmtum okkur vel. Auk þess fór hún margar ferðir til Englands að heimsækja Maríu systur sína, sem vann allan sinn starfsaldur sem hjúkrunarfræðingur á sjúkrahúsi í London.

Dúfa var vel gefin kona og fróðleiksfús. Hún var víðlesin og hafði gaman af að kynna sér málefnin niður í kjölinn. Hún var til dæmis afar fróð um gang heimsstyrjaldarinnar síðari, þekkti vel aðdraganda hennar og helstu menn er þar komu við sögu, svo eitthvað sé nefnt.

Síðustu árin bjó Dúfa á Norðurbrún 1 og líkaði vistin þar vel. Þangað var gott að koma og þiggja heitan tesopa í miðjum göngutúr. Nú verða þær ferðir því miður ekki fleiri og þess mun ég sakna. Að leiðarlokum þakka ég Dúfu minni samfylgdina, tryggð hennar og vináttu.

Ég og fjölskylda mín sendum börnum hennar, fjölskyldum þeirra og Maríu systur hennar okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Hervör Hólmjárn og fjölskylda.