Tryggva Guðmundsdóttir Söebech fæddist 25. júlí 1914 á Akureyri. Hún lést á Dvalarheimilinu Hlíð 26. nóvember sl. Foreldrar hennar voru Guðmundur Hafliðason, fæddur í Fljótum, Skag., 6. apríl 1874, og Stefanía Tryggvadóttir, fædd Hofi á Höfðaströnd, Skag., 10. mars 1873. Tryggva var næstyngst af sex systkinum. Sigurlína, f. 1899, d. 1976. Kristjana, f. 1903, d. 1933. Hafliði, f. 1906, d. 1984. Sigríður f. 1910, d. 1994. Jóhann, f. 1916, d. 1989. Tryggva giftist Benedikt Péturssyni Söebech 22. janúar 1944. Þau eignuðust 3 börn 1) Sigurgeir, f. 21. júlí 1945, kvæntur Þuríði Hauksdóttur, f. 19. maí 1948. og eiga þau tvo syni og sex barnabörn. 2) Ágústína, f. 14 júní 1950, gift Heimi Jóhannssyni, f. 26. maí 1949, og eiga þau þrjú börn og sjö barnabörn. 3) Pétur, f. 16. febrúar 1954, d. 19. mars 1977. Tryggva ólst upp á Jarlstöðum í Bárðardal frá átta ára aldri til fullorðinsára er hún flutti til Akureyrar. Fósturforeldrar Tryggvu voru systkinin Sigurgeir Guðnason og Jónína Guðnadóttir. Einnig elst upp á Jarlstöðum systursonur Tryggvu, Hermann Baldvinsson, f. 19. júlí 1928, d. 1. júlí 2009. Tryggva vígðist í Hjálpræðisher Akureyrar 24. janúar 1937 og var virk þar til heilsu hennar hrakaði. Tryggva verður jarðsungin frá Akureyrarkirkju í dag, mánudaginn 7. desember, og hefst athöfnin kl. 13.30.
Hvað við vorum ótrúlega heppin að hafa þig svona nálægt, alltaf varstu á neðri hæðinni og
þangað gátum við alltaf leitað. Hvort sem okkur vantaði prjónaða vettlinga eða sokka,
nýbakaðar kleinur, hádegismat, eða einhvern til að hlusta sem hafði allan heimsins tíma, þá varst það þú.
Elsku amma þú varst sannur bandamaður og alltaf var hægt að stóla á þig, þú dekraðir við okkur með ást þinni og hlýju, laumaður alltaf einhverju að okkur sem þú varst búin að vefja inn í servíettu, svo mamma tæki ekki eftir. Þú varst björt og hlý, sjálfstæð og létt í lund.
Maður getur ekki annað en brosað þegar maður hugsar til þessa yndislegu tíma sem við áttum með þér.
Við hugsum til þín og vitum að þú munt vaka yfir okkur og passa áfram.
Við höfði lútum í sorg og harmi
og hrygg við strjúkum burt tárin af hvarmi.
Nú stórt er skarð í líf okkar sorfið
því fegursta blómið er frá okkur horfið.
/
Með ástúð og kærleik þú allt að þér vafðir
og ætíð tíma fyrir okkur þú hafðir
þótt móðuna miklu þú farin sért yfir
þá alltaf í huga okkar myndin þín lifir.
/
Við kveðjum þig, amma, með söknuð í hjarta,
en minning um faðmlag og brosið þitt bjarta.
Allar liðnar stundir um þig okkur dreymi
og algóður Guð á himnum þig geymi.
(Sigfríður Sigurjónsdóttir.)
Elsku amma sorgin er sár en við brosum fyrir þig.
Rannveig Björk Heimisdóttir, Tryggvi Jóhann Heimisson og Petra Sæunn Heimisdóttir.