Agnar Þór Hjartar fæddist í Reykjavík 9. júlí 1947. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 28. nóvember. Foreldrar hans eru Birna Björnsdóttir, húsmóðir í Reykjavík, f. 18.9. 1927, og William R. Catron, tannlæknir frá Kentucky í Bandaríkjunum, f. 14.8. 1926, d. 19.11. 1962. Hálfsystur Agnars, sammæðra, eru 1) Magnea Sigrún Jónsdóttir, f. 18.4. 1951, maki Jónas Guðmundur Halldórsson, f. 22.2. 1952. 2) Hanna Þórunn Skúladóttir, f. 7.7. 1966, maki Kristján Þ. Hallbjörnsson, f. 9.2. 1957. 3) Áróra Hrönn Skúladóttir, f. 5.10. 1970, maki Heimir Guðjónsson, f. 3.4. 1969. Agnar á tvo hálfbræður og eina hálfsystur, samfeðra, sem búsett eru í Bandaríkjunum. Hinn 19. apríl 1969 kvæntist Agnar Guðrúnu Önnu Antonsdóttur, bankastarfsmanni, f. 21.12. 1948. Foreldrar hennar eru Anna Katrín Jónsdóttir, húsmóðir í Reykjavík, f. 29.4. 1920, og Friðrik Anton Högnason, bifreiðastjóri, f. 12.3. 1928, d. 16.11. 1973. Synir Agnars og Guðrúnar eru 1) Hörður, rafvirki, f. 14.8. 1969. 2) Haukur, mannfræðingur, f. 21.6. 1977, kvæntur Kolbrúnu Benediktsdóttur lögfræðingi, f. 19.5. 1978. Börn þeirra eru a) Rósa, f. 12.1. 2006, d. 12.1. 2006, b) Sigurrós, f. 29.5. 2007, c) Vilhjálmur, f. 25.5. 2009. Agnar ólst upp í Smáíbúðahverfinu í Reykjavík. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Réttarholtsskóla, stundaði síðan nám við Verslunarskólann og lauk þaðan prófum. Agnar hóf störf hjá Véladeild Sambands íslenskra samvinnufélaga í Ármúla 1965 og starfaði hjá SÍS í tuttugu og sjö ár, lengst af sem deildarstjóri í varahlutadeild. Hann starfaði síðan skamma hríð hjá Vélum og þjónustu, síðan hjá Bílaumboðinu, stundaði eigin rekstur um skeið og hóf störf hjá Bílanausti 1995. Frá júlí 2002 hefur Agnar starfað hjá Poulsen hf., lengst af sem innkaupastjóri. Agnar var virkur í starfi Frímúrarareglunnar í Reykjavík og starfaði með þeim frá 1987. Hann gegndi ýmsum trúnaðarstörfum fyrir félagsskapinn. Útför Agnars fer fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, mánudaginn 7. desember, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Elsku besti Addi frændi.
Við kveðjum þig okkar kæri frændi með mikilli sorg. Að þurfa að kveðja þig núna þykir okkur mjög svo ótímabært. Þú varst nýorðinn afi í þriðja sinn og færð ekki að njóta samvista við litlu yndislegu afabörnin þín, Sigurrós og Vilhjálm. Þó við vitum að þú vakir yfir þeim og lifir í þeim með öllu því góða sem þú gafst. Takk kæri Addi fyrir allt það sem þú gafst okkur. Við kveðjum þig með orðum úr Spámanninum:

"Og hvað er að hætta að draga andann annað en að frelsa hann frá friðlausum öldum lífsins, svo að hann geti risið upp í mætti sínum og ófjötraður leitað á fund guðs síns?
Aðeins sá, sem drekkur af vatni þagnarinnar, mun þekkja hinn volduga söng.
Og þegar þú hefur náð ævitindinum, þá fyrst munt þú hefja fjallgönguna.
Og þegar jörðin krefst líkama þíns, muntu dansa í fyrsta sinn."

(Kahlil Gibran.)

Elsku Gunna, Hörður, Haukur, Kolla, Sigurrós og Vilhjálmur. Megi Guð styrkja ykkur í sorginni. Þið eruð í bænum okkar bæði kvölds og morgna.
Og elsku amma Birna, það er aldrei eðlilegt að lifa barnið sitt, sama á hvaða aldursskeiði það er. Megi guð styrkja þig í þínum missi og þinni sorg. Við elskum þig.

Birna Íris og Margrét Hildur.