Sigvaldi Egill Jónsson var fæddur í Steinholti í Staðarhreppi Skagafirði þann 10. ágúst 1918. Hann lést að dvalarheimilinu Höfða á Akranesi 25. nóvember sl. Foreldrar hans voru Sigvaldína Áslaug Egilsdóttir, f. 31.3. 1891 að Þrastarstöðum Höfðaströnd, d. 17.11. 1950 og Jón Ingvar Guðmundsson, f. 8.11. 1883 að Vöglum í Vatnsdal, d. 1.10. 1941. Sigvaldi kvæntist Guðlaugu Ósk Halldórsdóttur f. 20. júlí 1926 þann 1.10. 1949. Foreldrar hennar voru Guðlaug Helga Guðbrandsdóttir, f. 21.9. 1895 á Hraunbóli á Síðu, d. maí 1974, og Halldór Eiríksson, f. 5.4. 1889 á Ósabakka á Skeiðum, d. 28.10. 1968. Sigvaldi og Ósk eignuðust fjögur börn. Þau eru: Hilmar, f. 1.10. 1947, Helga Dóra, f. 14.12. 1948, Áslaug, f. 4.7. 1951 og Móeiður, f. 7.1. 1957. Hilmar og Guðrún Sigríður Gunnarsdóttir, f. 30.11. 1943, eiga börnin Gunnar Sigvalda, f. 24.7. 1982, og Ósk, f. 7.12. 1984. Helga Dóra og Björn Stefánsson, f. 8.7. 1948 eiga Silju Ósk, f. 2.8. 1976. Áslaug og Sören P. Madsen, f. 16.6. 1952, eiga börnin Tinnu Sörens, f. 8.8. 1977, Marin, f. 18.6. 1981 og Bjarka, f. 8.5. 1990. Móeiður og Lárus Vilhjálmsson, f. 2.3. 1956, eiga börnin Unu Láru, f. 12.9. 1981, Sigvalda Egil, f. 8.9. 1985 og Móeiði, f. 20.8. 1992. Barnabörnin eru orðin 9 og barnabarnabörnin 6. Sigvaldi flutti á Sauðárkrók um 4 ára aldur og var unglingsárin þar. Hann fór snemma að vinna fyrir sér og kom víða við á langri starfsævi. Hann kom árið 1942 til Reykjavíkur og fór að starfa þar sem bílstjóri við vöruflutninga eftir að hafa tekið meiraprófið. Í fyrstu er þetta vinna við vegagerð en síðan liggja leiðir í mjólkurflutninga í Borgarfirði um árabil. Eftir að hafa ekið rútunni hjá Norðurleið um nokkurra ára skeið fór hann að vinna við flutninga á olíu um allt Vesturland og í Ísafjarðardjúp í mörg ár. Þá starfrækti hann dekkjaverkstæði á Akranesi um tíma og vann síðustu árin hjá Sementsverksmiðjunni. Mestan hluta starfsaldurs vann hann við akstur en hann vann einnig við beitningu og fiskvinnslu, steypuvinnu, múrverk og ýmislegt annað. Á áttunda áratug sl. aldar tókst að véla hann út á golfvöll. Hann ánetjaðist og kvartaði síðar yfir að vélabrögðin hefðu verið hálfri öld of seint á ferðinni. Útför Sigvalda fór fram í kyrrþey frá Akraneskirkju 3. desember 2009.

Hinsta kveðja.

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð

hjartans þakkir fyrir liðna tíð

lifðu sæll á ljóssins friðarströnd,

leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.

Ósk G.