Guðrún Öfjörð Sigfúsdóttir fæddist í Fossnesi, Gnúpverjahreppi, Árnessýslu, 11. desember 1919. Hún andaðist 27. nóvember síðastliðinn á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund. Foreldrar hennar voru hjónin á Lækjarmóti í Flóa, Sigfús Öfjörð Þórarinsson frá Austurhlíð, Gnúpverjahreppi, f. 13. febrúar 1882, d. 23. febrúar 1963, og Lára Guðmundsdóttir frá Skúfslæk, Villingaholtshr., f. 15. september 1898, d. 12. júní 1968. Systkini Guðrúnar voru þau Kristín, f. 21. desember 1920, d. 31. desember 1920, Guðný, f. 31. mars 1922, d. 4. maí 1936, Guðmundur, f. 5. júlí 1923, d. 3. maí 2003, Þórarinn, f. 3. janúar 1926, Sveinn, f. 23. mars 1928, d. 25. febrúar 2002, og Guðjón, f. 18. september 1929, d. 29. mars 1994. Eiginmaður Guðrúnar, gift 21. nóvember 1942, var Erlingur Ingimundarson, plötu- og ketilsmiður, f. 13. ágúst 1914 í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Ingimundur Ögmundsson og Auðbjörg Árnadóttir. Erlingur lést 5. janúar 1993. Börn Guðrúnar og Erlings eru: 1) Lára, f. 17. júlí 1947. Börn hennar og Ólafs Haraldssonar, f. 1946, eru: Guðrún Erla, f. 1964, barn hennar og Hans Gústafssonar, f. 1960, Lára Sól, f. 1996; Þóra Björk Ólafsdóttir, f. 1973, gift Baldri Stefánssyni, f. 1971, börn þeirra: Stefán Logi, f. 1999, og Kolbeinn Óli, f. 2006. Barn hennar og Fjölnis Geirs Bragasonar, f. 1965: Fáfnir, f. 1995; Haraldur Ólafsson f. 1978. 2) Sigfús Öfjörð, f. 10. júlí 1949, kvæntur Guðbjörgu Gunnarsdóttur, f. 1949. Börn þeirra: Guðrún, f. 1979, Sólrún, f. 1981, Arna, Björg og Hildur, f. 1985. Barn hans og Kristínar Sigtryggsdóttur, f. 1951: Klara Öfjörð, f. 1970, gift Steindóri Gunnarssyni, f. 1970, börn þeirra Almar, f. 2004, og Auðunn, f. 2006. 3) Auðbjörg, f. 30. september 1950, gift Halldóri B. Kristjánssyni, f. 1950. Börn þeirra: Benedikt, f. 1970, kvæntur Berglindi Guðmundsdóttur, f. 1972, barn þeirra: Sóley, f. 2009; Sólveig Alda, f. 1976, sambýlismaður hennar er Kristinn Már Ársælsson, f. 1979, barn þeirra: Húni Breiðfjörð, f. 2008, barn hennar og Bjarna Þórs Sigurbjörnssonar, f. 1973: Ísidór Jökull, f. 1998; Vésteinn Orri Halldórsson, f. 1988, sambýliskona hans er Hildigunnur B. Gunnarsdóttir, f. 1983. 4) Inga, f. 23. september 1952, gift Grétari Vilmundarsyni, f. 1950. Börn þeirra: Margrét, f. 1974, gift Tómasi Ö. Sigurbjörnssyni, f. 1974, börn þeirra: Andri Már, f. 2001, og Ari Fannar, f. 2005; Vilborg, f. 1978, gift Gunnari Valdimarssyni, f. 1974, börn þeirra: Ísabella, f. 2001, og Orri, f. 2003; Erla Rún, f. 1984. 5) Erlingur, f. 20. mars 1961, kvæntur Hörpu Ólafsdóttur, f. 1965. Börn þeirra: Agnar og Egill, f. 1995. Guðrún Öfjörð verður jarðsungin í Neskirkju í dag, föstudaginn 4. desember 2009, og hefst athöfnin kl. 13.

Í dag, 11. desember hefðir þú elsku mamma, amma og langamma okkar orðið níræð og viljum við minnast þín og þakka þér allar góðu stundirnar.

Afmælisdagurinn þinn, 11. desember markaði upphaf  jólanna í fjölskyldunni. Allt var orðið tandurhreint á Nesveginum, hluti af jólaskrautinu komið upp og kökuilmur var í húsinu því þennan dag kom saman öll fjölskyldan, börnin þín, tengdabörn, barnabörn, langömmubörn, frænkur og frændur til að samgleðjast þér. Þetta var jólaboðið í stórfjölskyldunni.

Á þessum degi héldum við tengslunum í fjölskyldunni og kynntum fyrir henni nýjan fjölskyldumeðlim, hvort sem það var nýfætt barn eða maki. Í gegnum þig vissum við hvernig öllum leið og gátum tekið þátt í gleði og sorg okkar í millum og það segir okkur hversu mikils virði þú varst okkur öllum.

Þú varst einstök kona, falleg, hjartahlý og yndisleg. Þú tókst okkur alltaf opnum örmum, með gleði, brosi og faðmlagi. Aldrei komum við að tómum kofanum enda varst þú mikil húsmóðir sem áttir alltaf til bakkelsi og góðgæti handa sísvöngum börnum og líka þeim fullorðnu. Þú varst mikill dýravinur og áttir nokkra ketti um ævina, að minnsta kosti tvo þeirra fékkst þú frá okkur. Kettirnir gátu ekki farið á betri stað en til þín enda sögðum við oft að hjá þér byggju þeir á fimm stjörnu hóteli. Alltaf varstu vel til höfð og glæsileg til fara enda hafðir mikla trú á því að slíkt hjálpaði sálartetrinu. Þú hélst líka fegurð þinni og glæsileika fram á það síðasta.

Nú þegar dagur er að kveldi kominn í lífi þínu og við horfum yfir farinn veg, þá sjáum við arfleifð þína, fimm börn og fjöldamörg barnabörn og barnabarnabörn og hvað er dýrmætara að eiga en ástkæra fjölskyldu sem stendur við hlið manni. Við getum öll sagt með fullkominni vissu og kærleik að þú reyndist okkur stórkostlega, þú hafðir stórt pláss í hjartanu fyrir hvert og eitt okkar og var sú væntumþykja og ást endurgoldin. En nú ert þú farin á annan góðan stað og þar ertu með öllum þeim sem á undan eru gengnir og við erum viss um að þar er kærleikur og mikið hlegið.

Elsku mamma, amma og langamma, við viljum þakka þér allt sem þú gafst okkur öllum, fegurð þína og hlýju og fyrir öll árin sem við fengum að vera samferða þér í lífinu.

Lára, Guðrún Erla, Þóra Björk, Haraldur og fjölskyldur.