Ólafur Tryggvi Jónsson var fæddur í. Hólmi í Austur-Landeyjahreppi í Rangárvallasýslu 29. maí 1922. Hann lést á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Lundi, Hellu, fimmtudaginn 3. desember 2009. Foreldrar hans voru Jón Árnason, bóndi á Hólmi í Austur-Landeyjarhreppi, Rangárvallasýslu, f. 7. mars 1885 á Skíðbakka A-Landeyjum, d. 14. október 1964, og Ragnhildur Runólfsdóttir, f. 26. október 1889 á Fossi, Hvammshreppi, V-Skaftafellssýslu, d. 5. desember 1986. Systkini Ólafs Tryggva: Ragnar Hólm, f. 27.12. 1914, d. 9.6. 2001, Guðmundur, f. 26.2. 1916, d. 19.7. 1964, Ingólfur, f. 25.6. 1920, Árni, f. 12.5. 1926, d. 29.07. 2008 og Ásta, f. 16.8. 1927. Ólafur kvæntist 26. nóvember 1949 Magneu Helgu Ágústsdóttur f. 16. janúar 1926, d. 28. september 1998 frá Hemlu í Vestur-Landeyjum. Börn þeirra eru: 1) Ágúst Ingi Ólafsson f. 2.1. 1949 giftur Sóley Ástvaldsdóttur f. 23.1. 1951 og eiga þau þrjú börn. Sigrún f. 1969, Ástvaldur Óli f. 1971 og Magnús f. 1977. 2) Ragnhildur Ólafsdóttir f. 20.3. 1950 gift Sæmundi Sveinbjörnssyni f. 5.3. 1945 og eiga þau tvö börn. Sveinbjörn f. 1970 og Ingibjörg f. 1971. Útför Ólafs Tryggva verður gerð frá Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð, föstudaginn 11. desember og hefst athöfnin kl. 11:30.

Hann var kallaður Óli í Hemlu, hann afi. Þar stunduðu hjónin Ólafur og Magnea umfangsmikla hrossarækt lengi vel á myndarlegu býli sem var æskuheimili ömmu Möggu. Þar var gott landrými og stórkostlegt útsýni til allra átta. Samhliða hrossaræktinni ráku þau fjárbúskap sem og kúabúskap framan af. Hrossaræktin átti þó hug hans allan. Þeir voru margir sem höfðu kynnst afa í gegnum þau störf hvort sem var í næstu sveitum eða fjær. Á áttunda áratugnum tóku að birtast erlendir hestakaupmenn í Hemlu. Það var dálítill ævintýrabragur yfir því. Ekki vitum við til þess að afi hafi verið tungumálamaður en það virtist engu skipta. Afi var annars bóndi af gamla skólanum, hafði lært af því að vinna. Hann var alinn upp við bústörf að Hólmi í Austur-Landeyjum ásamt fimm systkinum. Fjórum þeirra kynntumst við vel, Ragnari, Ingólfi, Árna og Ástu, en Guðmundur lést ungur að aldri. Fögur söngrödd einkenndi þá bræður. Ríkastur af hæfileikum á því sviði var Árni sem kvaddi okkur á síðasta ári. Ógleymanlegt var að heyra þá Ingólf, Ragnar og Árna, þrjá aldna höfðingja taka lagið á niðjamóti Ragnhildar langömmu fyrir nokkrum árum. Afi söng reyndar ekki oft svo við heyrðum til en það er aðeins um ár síðan að hann tók lagið, Fósturlandsins Freyja, að áeggjan og ásamt félaga sínum Braga á Dvalarheimilinu Lundi. Það var yndisleg stund. Ásta, eina stelpan í hópnum, hógvær hæfileikakona, á það svo til að bresta í ljóðaupplestur á miðju eldhúsgólfinu. Þannig unna þau öll listinni á einn eða annan hátt dugnaðarfólkið frá Hólmi.

Afi lærði málaraiðn og var meistari í þeirri grein. Afbragðs handbragð var á öllu hans málverki. Okkur krökkunum þótti stofan í Hemlu vera sú litríkasta og flottasta á landinu. Hún var tvískipt með rauðu lofti öðru megin og bláu hinu megin. Afi sá ávallt til þess að bæði íbúðarhús og útihús væru falllega máluð í hvítu og rauðu og fór vel á því þar sem húsin standa uppi á hæð skammt frá þjóðvegi nr. 1. Þeir vissu það líka sem þekktu hann afa að hann vildi hafa liti í lífinu.

Dag einn tilkynnti afi okkur krökkunum að við þyrftum öll að koma með honum út í hestahagann. Þar beið okkur nokkuð óvænt. Hann hafði valið folald fyrir hvert og eitt okkar. Folöldin höfðu hvert sitt sérkenni, þannig að auðvelt var fyrir okkur að þekkja þau af löngu færi. Folald þess yngsta var hryssa og þar með var kveiktur ræktunaráhuginn í þeim stutta. Þar reyndist sá gamli sannspár um brennandi áhugamál.

Við lærðum margt í sveitinni bæði hin ýmsu verk og að unna náttúrunni. Að liggja í Sóleyjarhafi lengst úti á túni í Hemlu og horfa upp í himininn var engu líkt. Strákarnir þrír í hópnum voru snemma ráðnir vinnumenn hjá afa og ömmu og áttu þar margar góðar stundir. Það kitlaði taugarnar að fá að aka vinnuvélunum og þótti gott að fá að taka til hendinni. Afi var útsjónarsamur við búskapinn og við minnumst þess þegar hann útbjó sér forláta krókstaf úr plaströri, nokkurra metra langan, til að krækja í lömb sem átti að marka. Gjarnan vorum við krakkarnir svo sendir á eftir þeim sem hann ekki náði með stafnum. Þúfnahlaup í sauðburði og smalamennsku varð síðar ágætis undirstaða undir frjálsíþróttaiðkun nokkurra okkar. Afa þótti varið í að fólk stundaði íþróttir og skorti ekki hvatningu frá honum þegar á þurfti að halda að styrkja sjálfstraustið.

Samvinna bændanna í Landeyjunum var annað sem við tókum vel eftir. Þegar mikið lá við var hóað í mannskapinn af næsta bæ og var ekki haldið sérstakt bókhald yfir það hver hafði gert hvað fyrir hvern. Hugarfar sem birtist á þennan hátt er gott veganesti fyrir fólk sem er að vaxa úr grasi.

Við kveðjum afa með söknuði. Góðu minningarnar lifa lengi.

Afabörnin,

Sigrún, Sveinbjörn, Óli, Ingibjörg og Magnús.

Um leið og ég kveð Ólaf Tryggva Jónsson, langar mig að rifja upp nokkrar af mínum hlýjustu og bestu minningum sem tengdust þessum frænda mínum og fjölskyldu hans.  Hann bjó að Hemlu sem var í næstu sveit við okkur í Hólmi og var kært með þeim bræðrum, pabba mínum og honum.  Um hver jól var heimboð til skiptis, annað hvort ár hjá okkur en hitt árið hjá Óla frænda.  Þangað keyrðum við með pabba og mömmu á græna Willysnum. Okkur hlakkaði heil ósköp til og við systur sungum alla leiðina eins og venjulega þegar við fórum í þessum dásamlega jeppa, sem var með járnsætum aftur í og mjúkum teppum þar ofan á til að gera þetta enn þá meiri lúxus, svo vorum við líka á leið til Óla frænda í Hemlu og þess vegna enn þá meiri ástæða til að syngja.  Eftir borðhald þar sem borðaður var guðdómlegur matur og spjallað um alla heima og geima þá var sest í stofu og oft tóku þessi tvenn hjón í spil.  Síðan gerðist það sem mest situr í ljúfa minningaboxinu, að bræðurnir fóru að syngja saman.  Þvílíkar englaraddir fannst mér.  Óli hafði mjög fallega rödd sem var hár tenór, tær og hljómfagur, og mér fannst þessi samsöngur fullkominn. Mikið óskaplega þótti mér og þykir enn, vænt um þessa fjölskyldu.  Það var ekki  bara sungið í jólaboðum, heldur alls staðar þar sem fólk kom saman var tekið lagið.  Þetta fannst mér svo skemmtilegt og yfirleitt vel sungið og lögin svo falleg, þessi gömlu góðu ættjarðarlög, sem voru samin af gömlu meisturunum.  Enn í dag hlýnar mér um hjartaræturnar og augun verða hálf rök, þegar  ég heyri þessi lög sungin og mér finnst hver dagur sem næst fullkominn sem inniheldur söng og mest er gaman þegar ég sjálf fæ tækifæri til að taka þátt í söngnum.  Ég trúi því að þeir bræður muni nú taka lagið á öðrum slóðum og jafnvel með beislistaum í hendi.  Kannski taka þau í spil hjónin sem nú hafa sameinast í hinu stóra rými sem okkur eftirlifendum er hulið. Hjartans þakkir fyrir þessar minningar.

Elsku Didda, Ingi og fjölskyldur, ég sendi ykkur samúðarkveðjur og vona að þið eigið góða og gleðiríka ævidaga.

Erla frá Hólmi.