Finnur Kristinsson var fæddur í Reykjavík þann 5. október 1919. Hann lést á líknardeild Landakots 27. nóvember sl. Foreldrar hans voru Kristinn Friðfinnsson, málarameistari, fæddur í Kvíarholti í Holtum, Rang. 2. september 1887, og Agnes Margrét Eggertsdóttir, húsfreyja, fædd á Papósi, Stafafellssókn, A-Skaft., 15. júlí 1891. Systkini Finns voru Eggert f. 19. ágúst 1915, d. 1998, Gunnar, f. 5. október 1917, d. 2004, og Margrét, f. 8. nóvember 1926, lifir hún ein bræður sína. Finnur ólst upp í Reykjavík. Foreldrar hans bjuggu lengst af á Skólavörðustíg 29 en áður í nokkur ár á Grettisgötu. Finnur giftist Hörn Sigurðardóttur, f. 3. desember 1922, þann 5. desember 1946. Foreldrar hennar voru Sigurður Guðnason fæddur í Holtakoti, Biskupstungnahr., Árn., 21. júní 1888, alþingismaður í Reykjavík, verkamaður og formaður Dagsbrúnar og Kristín Guðmundsdóttir, fædd í Tjörn, Biskupstungnahr., Árn., 12. nóvember 1891, húsfreyja. Börn Finns og Harnar eru Ragnar Auðunn Finnsson, læknir, f. 1947, maki Jóhanna Ragnarsdóttir. Sigurður Kristinn Finnsson, húsgagnasmiður, f. 1948, maki Ragnheiður Torfadóttir. Stefán Agnar Finnsson, verkfræðingur, f. 1950, maki Ingibjörg María Pálsóttir. Guðmundur Eggert Finnsson, leikhústæknimaður, f. 1955, maki Guðrún Þorvaldsdóttir. Barnabörnin eru tólf, barnabarnabörnin tuttugu og tvö barnabarnabarnabörn. Finnur varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1940. Stundaði nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands árin 1941 og 1942. Stundaði nám í tæknilegum leikhúsfræðum við „State University of Iowa“ árin 1943 og 1944. Eftir nám starfaði Finnur fyrir Leikfélag Reykjavíkur, Þjóðleikhúsið, sem blaðamaður á Þjóðviljanum og Vísi og í Áburðarverksmiðjunni í Gufunesi. Finnur hóf störf árið 1958 hjá Skipulagsdeild Reykjavíkur sem seinna varð Borgarskipulag. Finnur vann hjá Borgarskipulagi uns hann lét af störfum vegna aldurs árið 1989, þá starfandi skrifstofustjóri. Eftir að starfi lauk tók Finnur saman drög að skipulagssögu Reykjavíkur fyrir borgina, sem til er í handriti. Útför Finns fer fram frá Fossvogskirkju í dag, fimmtudaginn 10. desember 2009, og hefst athöfnin kl. 13.
Ég hef ekki ennþá að áttað mig á því að elsku besti afi minn er farinn. Undanfarna viku hef ég rifjað upp marga gamla og góða tíma og það sem ég hef einna helst áttað mig á er að minningarnar eru svo óendanlega margar að ég veit varla hvar ég á að byrja. Helst hefur komið upp í hugann öll þau skipti sem ég stóð og fylgdist með afa leggja kapal. Mér fannst alltaf það vera mesta sportið að fá að setjast við skattholið hans afa og fá sjálf að leggja kapal. Sömuleiðis komu upp í hugann allar bækurnar sem afi las. Í hvert skipti sem ég kom í heimsókn, hvort sem það var á Víðimelinn í gamla daga eða upp í Norðlingaholt, þá var afi alltaf komin með nýja og spennandi bók að lesa. Þær voru yfirleitt alltaf um eitthvað sem vakti áhuga minn, bækur um hin ýmsu raunvísindi, merkilegar kenningar og um merkilega vísindamenn.
Ég hef átt mjög erfitt með að sætta mig við að þú sért farinn elsku afi, en ég er ákaflega glöð að hafa fengið tækifæri til þess að fagna með þér á 90 ára afmælinu þínu fyrir skömmu og ég veit að restinni af fjölskyldunni líður eins. Hvíl í friði elsku afi.
Kristín Stefánsdóttir.