Sveinbjörg Stefánsdóttir fæddist í Neskaupstað 23. júlí 1916. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Skjóli í Reykjavík 6. desember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Stefán Guðmundsson og Sesselja Jóhannesdóttir. Systkini Sveinbjargar sem nú eru fallin frá eru: Helga, gift Finni Magnússyni, Jóhannes, eftirlifandi maki Soffía Björgúlfsdóttur, Ólöf, Karl, kvæntur Heiðu Aðalsteinsdóttur, Garðar og Hreinn, kvæntur Elísabetu Guðnadóttur. Eftirlifandi systir Sveinbjargar er Auðbjörg, gift Hallgrími Þórarinssyni, sem nú er látinn. Sveinbjörg giftist 20.6. 1959 Birni Bjarman f. 23.9. 1923, d. 19.4. 2005. Dóttir Sveinbjargar er Sesselja G. Ingjaldsdóttir f. 22.9. 1950, gift Sveinbirni Kristjánssyni frá Súðavík, f. 19.3. 1951. Börn þeirra eru: Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir héraðsdómslögmaður, f. 29.1. 1973, giftist Hauki A. Eyjólfssyni, þau skildu, og eiga þau þrjú börn, Stefaníu Þórhildi, Sesselju Katrínu og Eyjólf Örn. Guðbjörg Gerður Sveinbjörnsdóttir viðskiptafræðingur f. 23.2. 1976, gift Birgi Árnasyni, bifvélavirkjameistara og eiga þau tvö börn, Hlín Birnu og Hildi Sesselju. Kristbjörg Sveinbjörnsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 9.12. 1980. Sveinbjörg ólst upp á Norðfirði og vann við ýmis verzlunarstörf. Lengst af vann hún við umönnunarstörf á Flókadeild og starfaði þar til 73 ára aldurs. Þegar eiginmaður Sveinbjargar veiktist þá annaðist hún hann af ástúð og kærleik fram til dauðadags. Eftir andlát maka síns bjó Sveinbjörg ein í Fellsmúla til í júlí 2009 er heilsu hennar hrakaði og síðustu mánuði var hún á Landakoti og að lokum á hjúkrunarheimilinu Skjóli. Útför Sveinbjargar fer fram frá Grensáskirkju í dag, mánudaginn 14. desember, kl. 13.
Elsku amma okkar, við eigum erfitt með að trúa að núna sértu farin frá okkur. Óteljandi minningar hrannast upp og augun fyllast af tárum. Æskuminningarnar eru sterkar þegar við komum í heimsókn til þín og afa Bjössa í Álftamýrina og Fellsmúlann, þangað var alltaf svo gott og gaman að koma. Heitt kakó og skonsur var oft á boðstólnum auk annarra kræsinga. Aldrei var komið að tómum kofanum.
Elsku amma okkar, þú varst alltaf svo hlý og góð við okkur eins og alla sem þú þekktir. Ótrúlegt hvað þú mundir alla hluti vel, alltaf eins og þeir hefðu gerst í gær. Elsku amma þú varst ótrúleg kona sem kvartaðir aldrei. Við vitum að þegar kemur að endurfundum okkar þá höfum við mikið að tala um en þangað til hvíldu í friði. Minningin um góða ömmu og langömmu lifir áfram.
Guðbjörg og Kristbjörg
Það er dimmur desember þegar elsku amma mín og nafna yfirgefur þennan dvalarstað og heldur á endurfundi við aðra ástvini sína. Í hjarta mínu og huga er þakklæti og gleði yfir þeim yndislega tíma sem við áttum saman, en líka syrgi ég þann ómöguleika að tíminn til að búa til fleiri minningar saman er á þrotum. Ég er þakklát Guði fyrir að hafa leyft mér að hafa ömmu svona lengi hjá mér og fyrir að hann hafi linað þrautir hennar og tekið hana til sín eftir svo skamma sjúkralegu.
Amma Sveina var yndisleg kona, hjartahlý, góð, nægjusöm og þolinmóð, og hún taldi aldrei eftir sér að eyða tíma sínum með þeim sem á þurftu að halda og gaf þeim allt sem hún gat. Hún virtist hafa skilning á því að unga fólkið þyrfti alltaf að vera að vinna og koma undir sig fótunum og hefði því takmarkaðan tíma til heimsókna. Þrátt fyrir staðhæfingar hennar þar um nagar samviskan hjartað, því þetta er allt spurning um val.
Nánustu fjölskyldu, systkinum og systkinabörnum reyndist hún alltaf einstaklega vel og bar mikla ást í brjósti til þeirra. Amma var ættfróð, enda var það nú oft svo hjá þeim ömmu og afa, að ég fékk ættartöfluna aftur í 4. lið hjá því fólki sem bar á góma í umræðum okkar. Ég held að vandfundnari hafi verið glæsilegri hjón en amma og afi og voru margar myndir sem ég sá af þeim sveipaðar ævintýraljóma gömlu kvikmyndanna.
Með ömmu tók ég strætó niður í bæ og fannst fátt mér skemmtilegra en þegar ferðin endaði með súkkulaðibolla á Hressó. Ostaskonsur, kleinur, pönnukökur og brúnkaka voru það besta sem amma gat fært mér enda bakað af stakri snilld og það er erfitt að hemja tárin þegar ég hugsa um að heimsóknirnar í Fellsmúlann verða ekki fleiri. Amma kenndi mér söngva og sagði mér sögur frá æsku sinni á Neskaupstað, þegar hún fór að sækja kýrnar, fór á hesti út á Bakkabakka og aðrar sögur af fjölskyldunni á Svalbarða, vinum og vandamönnum.
Norðfjörður var svo greyptur í hjarta ömmu að þangað leitaði, að ég held, hugur hennar á hverjum einasta degi, ef ekki oft á dag. Hún fylgdist með mönnum og málefnum þar og hvernig byggðarlaginu og fyrirtækjum þar vegnaði. Neskaupstaður komst næst því að vera himnaríki á jörðu í hennar huga og því skildi ég hana svo vel á dánarbeðinu þegar hún talaði um Norðfjörð. Ég var stolt af ömmu minni, hvað hún náði háum aldri, var alltaf falleg og fín og vel tilhöfð, hún bjó ein síðustu árin og sá um sig sjálf alveg fram til júlí á þessu ári. Ég var og er stolt af því að hún var útivinnandi til 73 ára aldurs, hvað hún annaðist vel og var góð við afa Bjössa, gafst ekki upp og hafði mikla þolinmæði.
Elsku amma mín, ég kveð þig með erindi úr ljóðinu sem þú kenndir mér og hefur fylgt mér sem vegarnesti hjarta míns alla tíð síðan:
og barnavinur mesti,
æ breið þú blessun þína
á barnæskuna mína.
/
Mér gott barn gef að vera
og góðan ávöxt bera,
en forðast allt hið illa,
svo ei mér nái' að spilla.
/
Það ætíð sé mín iðja
að elska þig og biðja,
þín lífsins orð að læra
og lofgjörð þér að færa.
Sveinbjörg Birna.
Elsku langamma, þú varst alltaf svo góð og blíð við okkur og vildir vera með okkur. Takk fyrir pönnukökurnar, ísinn og litabækurnar sem þú áttir alltaf til handa okkur.
Okkur fannst líka rafmagnsrúmið sem þú áttir svo skemmtilegt og okkur fannst gaman að leika í því. Við söknum þín og við megi Guð passa þig á himninum, þú verður alltaf í hjarta okkur.
Stefanía, Sesselja, Eyjólfur, Hlín Birna og Hildur Sesselja.