Brynja JónínaPálsdóttir var fædd þann 26. Desember árið 1935, að Þingeyri við Skólaveg í Vestmannayjum. Foreldrar Brynju voru Páll Jóhannes Guðmundsson frá Fáskrúðsfirði og Þuríður Guðmundsdóttur frá Stokkseyri. Þau hjón áttu 10 börn og var Brynja Jónína fimmta í aldursröðinni í systkinahópnum stóra. Nöfn þeirra eru í aldursröð, Pétur Ólafur, Valdís Viktoría, látin, Már Guðlaugur,látinn, drengur er lést í frumbernsku, svo kom Brynja, Kristinn Viðar, Einar Sævar,látinn, Guðmundur, Snjólaug og yngst var Jóhanna. Fjölskyldan fluttist í Héðinshöfða í Vestmannaeyjum, þegar Brynja var ung að árum og var fjölskyldan ávallt kennd við það hús. Brynja Jónína tók snemma þátt í störfum heimilisins og aðstoðaði Brynja móður sína við að ala upp yngri systkinin, eftir ótímabært andlát heimilisföðurins árið 1955, eftir alvarleg veikindi. Brynja gekk í barnaskólann í Vestmannaeyjum og lauk þaðan barnaskólaprófi. Hún byrjaði ung að vinna hin ýmsu störf utan heimilis, svo sem fiskvinnu og verslunarstörf. Brynja var eftirsóttur starfskraftur og ávallt vel liðin af samstarfsfólki sínu. Brynja kastaði heimdraganum og fór til starfa í Reykjavík sem vinnukona og reyndist það gæfuspor. Þar kynntist hún tilvonandi eiginmanni sínum Heiðari Marteinssyni. Felldu þau hugi saman og hófu búskap sinn saman í Stórholti í Reykjavík og bjuggu þar um tveggja ára skeið. Fluttust þau síðan til Vestmannaeyja og giftu sig þann 17.mars árið 1957. 14.1. 1962, eignuðust þau einkason sinn, Martein Unnar Heiðarsson . Marteinn á tvær stúlkur, Þórhildi fædd 14.5.1998 með Ingibjörgu Eiríksdóttur og Sæunni Heiðu fædd 25.7.1993 með Sigurlaugu Helgadóttur. Þau Brynja og Heiðar fluttust á Snæfellsnes 1963 vegna vinnu Heiðars og bjuggu þar um sex ára skeið. Lífsfley þeirra Brynju og Heiðars þurfti að taka á sig ágjöf og mótbyr og svo fór að leiðir þeirra skildu um tíma. Áttu þau síðasta sameiginlega heimili sitt á Skeljagranda 2, í Reykjavík og fluttu síðan þaðan í Hjúkrunar- og dvalarheimilið Seljahlíð í Breiðholti. Þá var heilsu Brynju farin að hraka. Brynja þurfti að fara á Landspítala Háskólasjúkrahús, ítrekað vegna hins alvarlegs lungnasjúkdóms og lést á lungnadeild Landspítalans þann 19. Nóv s.l. Útförin fór fram í kyrrþey í Fossvogskapellu 27 nóv s.l. að ósk Brynju.
Við sólarlag þegar systkini kveðjast í hinsta sinn, bylgjast upp minningar frá morgni lífsins þegar fegurð heimsins speglaðist með allri sinni fjölbreytni um æfintýralega stigu æskuáranna. Og í minningunni merla þær indælu stundir þegar lítil börn gerðu sér það að leik að reyna að komast undir litskrúðugt hásæti himinbogans til að fá óskir sínar uppfylltar. Sumar náðu að verða að veruleika aðrar ekki.
Brynja Jónína hét hún fullu nafni, hún var fædd að Þingeyri við Skólaveg árið 1935. Og þar fetuðum við okkar fyrstu bernskuspor. Foreldrar okkar voru hjónin Þuríður Guðmundsdóttir frá Tjarnarkoti á Stokkseyri og Páll Guðmundsson sjómaður frá Sandgerði á Fáskrúðsfirði. Í ástríkri fjölskyldu ólumst við upp. Okkur var sköpuð sú gjöf að eiga góða foreldra, sem sýndu okkur ást og umhyggju eftir sinni getu.
Víst hefur Brynja systir mín átt sér fagra drauma um framtíðina, og síðar á lífsleiðinni þráð oft það frelsi og fegurð, sem æsku og unglingsárin veittu henni. En sá heimur, sem handan bíður við það skeið er óútreiknanlegur og getur verið þyrnum stráður þótt rósin lifi. Vissulega átti hún daprar stundir, eins og margir á langri æfi um lífsins vegu og henni mættu erfiðleikar og vonbrigði, en hún sigraðist á mótlætinu með gleði sinni og sá alltaf til sólar í gegnum mistrið.
Ég minnist hennar með miklu bróðurþeli og dáðist hve dugleg hún var móður okkar, sem líka var gleðinnar barn og vafði ástríkri auðlegð um barnahópinn sinn. Hún sá alltaf eilíft vor þótt naprir vindar næddu um lífsins tilveru. Brynja taldi ekkert eftir sér og var reiðubúin til allra verka, hún vissi hve lífið gat verið erfitt hjá okkar góðu og göfugu móður og lagði henni lið, hvort sem var að nudda tau á þvottabretti eða hlaupa út í næstu mjólkurbúð.
Þegar unglingsárin voru að baki seiddi útþráin hana og hún flutti til borgarinnar bak við kvöldroðann. Þar í höfuðborginni við sundin bláu kynntist hún eftirlifandi eiginmanni sínum, Heiðari Marteinssyni, togarasjómanni, og byrjuðu þau búskap sinn að Stórholti 45, en fluttust fljótlega til Vestmannaeyja og gengu þar í hjónaband hjá sera Haldóri Kolbeins á Ofanleiti. Hér bjuggu þau um tíma í Heiðartúni, Háeyri og Hrísnesi. Og í eyjum fæddist þeim einkasonurinn Marteinn Unnar, sem nú syrgir ljúfa móður sína og var ljósgeislinn í lífi hennar.
Árið 1963 flytjast þau vestur á Snæfellsnes að Tjaldbúðum og taka við rekstri laxa og silungaeldis, sem var í eigu Ólafs Finnsen og félaga. Þar dvöldu þau í sex eftirminnileg ár. Fljótt urðu þau vinsæl þar í sveit enda bæði skemmtileg heim að sækja. Og húsfreyjan með sitt ljúfa innræti leiftraði af gleði og gestrisni. Enda fengu þau tíðar heimsóknir vina og vandamanna. Þaðan eigum við líka góðar minningar frá sumarheimsóknum okkar. Jafnframt því að sem þau hjón sáu um þennan rekstur vann Heiðar við múrverk víða um sveitina enda vandvirkur maður. Alla tíð hefur Heiðar haft mikinn áhuga fyrir ljós og kvikmyndatökum. Því var það á haustdögum 1966 um það leyti sem Sjónvarpið tók til starfa, að Emil Björnsson dagskrárstjóri bað hann um að sjá um fréttamyndir fyrir stofnunina. Sem hann og gerði.
Haustið 1969 fluttu þau svo aftur hingað til Eyja og þá að Birtingarholti. Aftur var Brynja komin á heimaslóðir, sem henni þótti svo vænt um. Því römm er sú taug, sem rekka dregur heimahaga til. Hér í Eyjum settu þau á stofn fyritæki, það fyrsta sinnar tegundar, Ljósmyndaþjónustuna Eyjafótó, sem þau starfræktu með miklum ágætum fram að gosi í því reisulega húsi Þingvöllum við Heimatorg. En lífið átti eftir að riðlast. Eina vetrarnótt árið 1973 bárust þau tíðindi yfir heimsbyggðina að eldgos væri hafið á lítilli eyju úti í Atlandshafi og fólk á flótta út í óvissuna. Þessi atburður átti sér afdrifaríkar afleiðingar fyrir þá, sem hér bjuggu og gróf sig djúpt í vitund eyjabúa, sem sáu eignir sínar verða eldi og eimyrju að bráð, eins og fyrirtæki þeirra hjóna. Hinar fyrstu myndir sem héðan bárust og birtust í ríkissjónvarpinu af þessum vofeiflega atburði komu frá Heiðari, sem dvaldi hér lengst af allan veturinn. Og mér er það minnisstætt eitt drungalegt kvöld þegar við vorum að bera út úr íbúð þeirra hjóna kassa með glermunum að glóandi stein barst utan úr háloftum myrkursins og lenti á milli okkar og braut allt innihaldið mélinu smærra. En lífið hélt áfram og aftur voraði þó ekki væri það alltaf dans á rósum. Og það tóku við nýir tímar.
Fljótlega eftir heimkomuna að hamförum loknum fluttu þau að Nikhól en síðan að Faxastíg 25 og bjuggu þar þann tíma sem þau dvöldu hér. Samtímis því að halda í horfinu fallegu heimili sínu vann Brynja við fiskvinnslu enda afbragðs vinnukraftur og eftirsótt, sem aldrei hlífði sér, en Heiðar stundaði sjómennsku.
Það var farið að gæta rótleysis í lífi þeirra, og árið 1983 flytjast þau til Reykjavíkur og bjuggu þar æ síðan. Þar vann Brynja hjá vestfirsku harðfisksölunni við góðan orðstír. Brátt tók að halla undan fæti þegar heilsu Brynju hrakaði. Og það er sárt til þess að vita hve fólk getur verið vanhugsað um heilbrigði sitt og meta meira þann bölvald og miskunnarleysi, sem reykingar valda en sitt eigið ágæti og þurfa að standa í skugganum af gleði lífsins og finna það fjara út , en slík urðu örlög minnar kæru systur sem brosti við sólarlag brostnum augum fimmtudagskvöldið 19. nóvember. Þá kvöddu klökkir tónar við sólarlag. Ég kveð svo systur mína með þessum fátæklegu orðum. Far vel til fegri heima, minning þín lifir.
Kristinn Viðar Pálsson.