G. Frímann Hilmarsson fæddist að Fremstagili í Langadal 26.2. 1939. Hann lést á Heilbrigðistofnuninni á Sauðárkróki þann 3.12. 2009 síðastliðinn. Foreldrar hans voru Hilmar Arngrímur Frímannsson og Jóhanna Birna Helgadóttir. Systkini Frímanns eru Halldóra, Anna Helga, Valgarður og Hallur. Eftirlifandi eiginkona Frímanns er Kolbrún Jenný Sigurjónsdóttir. Börn Frímanns eru Hulda Birna, f. 1962; Steinunn Ásgerður, f. 1963; Kristján, f. 1967 lést 1999; Kristín, f. 1969, og Hilmar Arngrímur, f. 1973. Barnabörn Frímanns eru nítján og langaafabörnin þrjú. Frímann var lögreglumaður en vann við ýmis störf á sjó og landi. Hann var mikið náttúrubarn og var hestamennska hans aðaláhugamál. Útför Frímanns fer fram frá Sauðárkrókskirkju í dag, laugardaginn 12. desember, og hefst athöfnin kl. 14.
Elsku pabbi.
Þá er þjáningum þínum lokið. Nánast allt þetta ár hefur verið þér barátta við illvígan sjúkdóm. Barátta sem þú varst dæmdur til að tapa að lokum. Þrátt fyrir að vita það allan tímann barðist þú af æðruleysi og hugrekki sem var ofar mannlegum skilningi. Í þessari baráttu þinni dáðsit ég oft að styrk þínum og hvað þú varst trúr sjálfum þér allt til hinsta dags. En þó ég sé þakklát fyrir að kvöl þinni er lokið, er söknuðurinn mikill.
Því verður seint haldið fram að þú hafir alltaf valið að fara hefðbundnar eða auðveldar leiðir í lífinu. Því mættir þú ýmsum raunum, en hafðir alltaf gæfu til að vinna þig vel frá þeim. Mér hefur alltaf fundist það bera vott um mannkosti þína að þegar þú varst í löggunni voru það „vitleysingarnir“ sem þú þurftir að hafa mest afskipti af sem virtu þig mest. Ég held að þar hafi miklu skipt að þú hafðir svolítið gaman af þeim í laumi.
Leiðir ykkar mömmu skildu árið sem ég fermdist. Það voru erfiðir tímar fyrir okkur öll; systkinin fimm og ykkur mömmu. Þegar ég hugsa um þennan tíma hefði ég viljað hafa haft meira samband við þig. En aðstæður voru erfiðar og það litaði lífið á þeim tíma.
Alla mína ævi hefur þú verið í réttum og göngum. Við vorum ekki oft samferða í göngum, en það var gaman að njóta fræðslu frá þér um umhverfið. Þú varst gríðarlegur viskubrunnur um náttúruna og heill afsjór af þekkingu um örnefni. Ég minnist þess að hafa keyrt þig norður á Sauðárkrók fyrir nokkrum árum. Það var mjög góð ferð. Þú vildir nú aldrei að nokkur maður hefði neitt fyrir þér. Í þetta skipti varstu að koma úr aðgerð á LHS og vantaðir að komast norður. Ég gaf það í skyn að ég væri að fara hvort sem er og þá var í lagi að ég skutlaði þér, en alls ekki lengra en á Blönduós (ég gat ekki átt erindi lengra). Þessi ferð er mér ógleymanleg. Ég hef aldrei fengið aðra eins fræðslu um kennileiti hér á milli. Mér þykir verst að hafa ekki náð að muna þetta allt.
Síðustu árin á meðan þú varst að keyra á milli Reykjavíkur og Sauðárkróks, komstu við og gistir hjá mér. Mér þótti mjög vænt um þegar þú áttaðir þig á að það var lítið mál að koma við á Akranesi og þiggja veitingar og gistingu. Þetta voru oft góðar stundir, sem urðu svo að dýrmætum minningum.
Þú varst mikill söng- og vísnamaður. Ég þekki fáa sem hafa jafngaman af að syngja með vinum á góðri stund. Nokkrar vísur gafstu mér og þær varðveiti ég sem mína dýrmætustu fjársjóði. Því er við hæfi að setja hér ljóð sem þið feðgar sem nú fenguð að hittast á ný, hélduð báðir mikið upp á.
Hátt upp á heiðum hvítir fuglar vaka.
Vængunum stóru veifa þeir og blaka
það eru álftir,-álftirnar sem kvaka
/
Handan af hafi heim í auðnir fjalla,
vordægrin snemma vilta hópinn kalla.
Þá er sungið, sungið fyrir alla.
/
Hringaðir hálsar hljóðar taka dýfur,
Árvakur skarinn öldufaldinn klýfur
Andi guðs friðar yfir vötnum svífur
/
Margs er að minnast. Margt er enn á seyði.
Bleikur er varpinn bærinn minn í eyði.
Syngja þó ennþá svanir fram á heiði.
Elsku Kolla mín þú reyndist honum pabba mínum ótrúlega vel í hans banalegu. Þú annaðist hann af gífurlegri elju og þrautseigju. Á meðan pabbi var veikur var svo gott að vita hann í góðum höndum þínum. Ég bið guð og alla góða vætti að vaka yfir þér og styðja þig í raunum mínum. Ég veit það er erfitt framundan og ætla að minnast þín í bænum mínum og senda þér hlýja strauma.
Að lokum bið ég þig fyrir kveðju til þeirra sem taka á móti þér. Kidda bróður, afa og ömmu, og fleiri ættingja sem ég veit að taka vel á móti þér. Ég er sannfærð um að það eru fagnaðarfundir á himnum núna.
Elsku pabbi minn, guð geymi þig.
Þín dóttir,
Kristín Frímannsdóttir (Stína).
Mér finnst ég varla heill né hálfur maður
og heldur ósjálfbjarga, því er verr.
Ef værir þú hjá mér vildi ég glaður
verða betri en ég er.
/
Eitt sinn verða allir menn að deyja.
Eftir bjartan daginn kemur nótt.
Ég harma það en samt ég verð að segja,
að sumarið líður allt of fljótt.
/
Við gætum sungið, gengið um,
gleymt okkur með blómunum.
Er rökkvar ráðið stjörnumál.
Gengið saman hönd í hönd,
hæglát farið niður á strönd.
Fundið stað, sameinað beggja sál.
(Vilhjálmur Vilhjálmsson.)
Kæri vinur hvíl í friði
Guðmundur Frímann Þorsteinsson.