Helga Þorbjörg Jónsdóttir fæddist í Reykjavík 19. febrúar 1933. Hún lést á líknardeild Landspítalans, Landakoti 1. desember sl. Hún var dóttir hjónanna Jóns Gunnarssonar fv. skrifstofustjóra, f. 1895, og Ásu Þorsteinsdóttur frá Vík í Mýrdal, f. 1909. Systur Helgu eru Erna Jónsdóttir, f. 1938, maki 1 Magnús Marteinsson, maki 2 Þórður Gröndal, börn; Jón Magnússon, Marteinn Magnússon, Ása Magnúsdóttir og Edda Jónsdóttir, f. 1941, maki Ólafur Briem, börn; Ólafur Briem, Kristín Briem og Ása Briem. Helga lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1953, innritaðist síðan í Háskóla Íslands þar sem hún lagði stund á frönsku og þýsku. Hún stundaði framhaldsnám í Grenoble, Frakklandi og Heidelberg, Þýskalandi. Helga var gædd góðum gáfum og listrænum hæfileikum en rúmlega tvítug veiktist hún á geði og settu veikindin mark sitt á líf hennar upp frá því. Hún vann um tíma við skrifstofustörf, en eftir dauða móður sinnar hélt hún heimili með föður sínum. Helga var afar ljóðelsk, hafði gaman af að skrifa ljóð sjálf og birtust nokkur þeirra í Lesbók Morgunblaðsins. Helga tók kaþólska trú árið 1973. Útför Helgu fór fram í kyrrþey frá Kristskirkju, Landakoti, 8. desember 2009.

Hún var stóra systir mín, elst okkar systra, frumburður foreldra okkar, fyrsta barnabarnið í móðurætt og eftirlæti allra í fjölskyldunni.

Mínar fyrstu bernskuminningar tengdar henni eru um útlimagranna, dökkhærða telpu, sem var glaðsinna og fjörug, framkvæmdaglöð, sífellt að finna uppá einhverju skemmtilegu, og ég dáði hana.

Árin liðu og við uxum upp og þroskuðumst, áttum ekki mjög margt sameiginlegt enda tæp níu ár sem skildu okkur að í aldri. Hún var dul, mikill bókaormur, gekk vel í skóla og fór að sjálfsögðu í Menntaskólann, fannst ég sjálfsagt mikið barn.

Helga fór í framhaldsnám til Frakklands, var um tíma í Þýskalandi og ferðaðist til Ítalíu og Spánar áður en hún sneri til baka til Íslands. Mér er minnisstætt þegar hún kom aftur heim, forfrömuð, í fötum samkvæmt nýjustu tísku sem enn var ekki komin hingað. Man ég sérstaklega þegar ég dró vinkonur mínar inn í herbergið hennar til þess að sýna þeim skóna sem hún hafði keypt. Voru þeir með "klósetthælum" sem var það nýjasta í skótískunni, en á þessum tíma var ekki mikið um tískuvarning í verslunum  Reykjavíkur.

En upp úr því fór að halla undan fæti. Helga veiktist og fékk aldrei fyllilega notið sinna góðu gáfna og hæfileika. Þótt hún ætti vissulega sínar góðu stundir, verður mér oft hugsað til þess hvernig líf hennar hefði getað orðið hefði hún ekki veikst.

Helga var ljóðaunnandi og síðustu árin sem hún lifði skrifaði hún sjálf talsvert af ljóðum, aðallega myndrænar hugrenningar og smámyndir úr daglega lífinu.

Um leið og ég kveð systur mína og þakka henni samfylgdina ætla ég að enda þessi minningarorð mín á ljóði eftir hana sem ég fann í fórum mínum.

Yfir úfin höfin

flýgur fuglinn grár

til heimkynna sinna

á veturna.

Í gegnum haustskóg

skildi stúlkan

eftir fótspor sín.

Edda.

Skarpgreind og falleg ung kona lauk prófi frá máladeild Menntaskólans í Reykjavík árið 1953. Áfram hélt hún námi, ekki einungis við Háskóla á Íslandi, heldur líka í Frakklandi og Þýskalandi. Óvenjulegt og spennandi líf ungrar íslenskrar konu var rétt að hefjast þegar skuggi færðist yfir bjarta ásýnd hennar. Framtíð Helgu frænku minnar hvarf undir óveðursský í formi geðsjúkdóms. Meðferðarúrræði voru fábrotnari í þá daga en nú þekkist og veikindin áttu eftir að halda Helgu fanginni öll hennar fullorðinsár.

Mínar bernskuminningar af Helgu tengjast reykfylltu herbergi hennar heima hjá Jóni afa mínum, en þau tvö héldu heimili á Hagamelnum eftir að amma dó. Camel filterslausar eða kannski Prince sígarettur. Öll tjáskipti, svipbrigði og orð, í lágmarki. Eftir að afi dó flutti Helga í kjallaraíbúð í sama húsi. Ég orðin fullorðin og kíkti til Helgu af og til, sem var allt annað en að heilsa bara og kveðja um leið og ég heimsótti afa. Það var í raun einfaldara að skreppa í heimsókn til Helgu en flestra annarra ættingja. Ljóst var að maður þurfti aldrei að setja sig í stellingar, staldra lengi við eða spjalla neitt að ráði um allt og ekkert. Mér líkaði vel að geta haft heimsóknirnar stuttar og laggóðar, en góðar þó. Hún var vissulega misjafnlega stemmd en hafði mjög ákveðnar skoðanir á ýmsum málum. Samskipti okkar voru mismikil yfir kaffibollanum, en fölskvalaus. Ég kvaddi Helgu oftast hugsi og yfirleitt alltaf umkringd reykjarmekki, þótt hún hafi reyndar fært sig yfir í sígarettur með filter fyrir einhverjum áratugum. Ég lærði margt af henni í gegnum árin þótt hún hafi aldrei reynt að kenna mér neitt.

Helga fór ekki mikið út úr húsi og hélt sig þá við vestur- og miðbæ Reykjavíkur, helst að hún tæki sér stöku sinnum bíl suður í Hafnarfjörð að sækja messu eða kaupa hluti í Karmelklaustrinu. Hún hafði áhuga á trúmálum og tók Katólska trú snemma á áttunda áratugnum. Hún var líka mikill ljóðaunnandi og fór létt með að þylja upp ljóð á íslensku og frönsku, nú eða Maríubænir hvort sem var á latínu eða íslensku. Líklega var hennar sterkasti tjáskiptamáti fólginn í ljóðagerð, en Helga lætur eftir sig ógrynni af ljóðum sem sumhver hafa birst í Lesbók Morgunblaðsins. Ég hlakka til að mega áfram blaða í skrifum hennar.

Af öllum afmælisdögum hef ég einhverra hluta vegna alltaf munað hennar best. Kannski frá því ég var hugfangin af stjörnumerkjum sem krakki og vissi að hún rétt slapp inn í mitt fiskamerki. Ég held það verði áfram svo að ég muni fæðingardaginn hennar best og minnist Helgu með virðingu og söknuði.

Sólin skín á kinn

sinnisveikrar stúlku.

Liljur í ljómandi góðu skapi,

lítill drengur tínir þær fyrir föður sinn.

Sólin sindrar á fjaðrir fugls í flæðarmálinu.

Faðirinn tekur stúlkuna í fangið.

(Helga Jónsdóttir.)

Kristín Briem.