Sigurþór Árnason var fæddur í Akurgerði í Innri-Njarðvík 18. desember 1933. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hlévangi 5. desember síðastliðinn. Foreldrar hans voru Ásta Karítas Einarsdóttir og Árni Sigurðsson, þau slitu samvistum. Systkini Sigurþórs eru Einar Árnason, f. 1. september 1930. Guðríður Eygló Árnadóttir, f. 15. október 1932, d. 25. nóvember 2009. Óskírður Árnason, f. 9. júlí 1935, d. 30. september 1935. Sveinn Guðbergsson, f. 10. janúar 1943. Sigríður Guðbergsdóttir, f. 9 september 1945. Aðalsteinn Guðbergsson, f. 9. janúar 1948. Sigurþór ólst upp í Innri- og Ytri-Njarðvík hjá foreldrum sínum og síðan móður sinni og eiginmanni hennar Guðbergi Sveinssyni. Vann verkamannavinnu og lengst af á Keflavíkurflugvelli í yfir 50 ár. Sigurþór bjó í Njarðvík og síðast í Keflavík þar til í mars 2009 að hann fór á hjúkrunarheimilið Hlévang. Útför Sigurþórs fer fram frá Ytri-Njarðvíkurkirkju í dag, þriðjudaginn 15. desember og hefst athöfnin kl.13.
Elsku Siggi frændi. Við elskum þig og þessar góðu stundir, þegar við vorum að grínast í hvort öðru og þegar þú komst til Ingunnar og skutlaðir okkur fram og til baka og þú talaðir mikið við okkur og okkur fannst það gaman og þér líka. Eða þegar það voru réttir þá stóðst þú við hliðið mikla alveg eins og prins en nú ertu farin og hvíldu í friði. Við hugsum hlýtt til þín, við gleymum þér aldrei. Hafðu góða heimför elsku frændi. Hér sendum við þér ljóð eftir okkur, (Sóldísi Birtu og Bjarneyju Sól).
Nú ertu farinn Siggi minn
Við sjáumst ekki fyrst um sinn
En seinna þegar sólin skín,
þá svífur hugur upp til þín.
Þínar vinkonur og frænkur,
Sóldís Birta og Bjarney Sól.