Benedikt Davíðsson fæddist á Patreksfirði þann 3. maí 1927. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 13. nóvember sl. Foreldrar hans voru hjónin Davíð Davíðsson, f. 21.ágúst 1903, d. 11. janúar 1980 og Sigurlína Benediktsdóttir, f. 8. nóv 1900, d. 18. apríl 1941. Stjúpmóðir Benedikts var Guðrún Guðbjörg Einarsdóttir. Benedikt átti tvo yngri albræður, þá Ólaf, f. 1929 og Davíð Jóhannes, f. 1933. Einnig átti hann fjögur hálfsystkini, þau Sigurlínu, f. 1942, Guðnýju, f. 1944, Höskuld, f. 1948 og Hreggvið, f. 1953. Börn Guðrúnar voru einnig fjögur, Ingimar Einar, Guðjóna, Gunnbjörn og Guðrún Ólöf. Benedikt var fæddur og uppalinn á Patreksfirði en fluttist til Reykjavíkur vorið 1945. 1952 kvæntist hann Guðnýju Stígsdóttur frá Horni á Hornströndum, f. 24.8. 1928, d. 8.3. 1972 og varð þeim fjögurra barna auðið. Þau eru: 1) Guðríður Helga, f. 1950, hennar maður er Hagerup Isaksen. Börn þeirra eru: a) Haraldur, kona hans er Ásthildur Gestsdóttir og eiga þau fjögur börn. b) Guðný Rut, hún á tvö börn. c) Rakel Ýr, hennar maður er Einar Helgason, þau eiga þrjú börn. d) Helgi Már hann er kvæntur Bergrúnu Ísleifsdóttur, þau eiga tvö börn. 2) Viggó, f. 1951, kvæntur Diljá Markúsdóttur. Þeirra börn eru: a) Benedikt, sambýliskona hans er Linda Rós Björgvinsdóttir, þau eiga eitt barn. b) Þórmar, kvæntur Gígju Rós Sigurðardóttur, þau eiga tvö börn. c) Rebekka Rós, sambýlismaður hennar er Halldór Halldórsson, þau eiga tvö börn. 3) Elfa Björk, f. 1956, hún er gift Magnúsi Reyni Ástþórssyni. Börn þeirra eru: a) Hulda Björt sem er í sambúð með Þorsteini Kristinssyni. Hulda á eina dóttur. b) Hjörtur Bæring. c) Hákon Bragi. d) Halla Bryndís. 4) Jóna, f. 1962 gift Henry Bæringssyni. Börn þeirra eru: a) Kristín Þóra sem er í sambúð með Arnóri Stígssyni). b) Guðný Harpa, sambýlismaður hennar er Ari Jóhannsson, þau eiga tvö börn. c) Bæring Rúnar. Benedikt gekk að eiga Finnbjörgu Guðmundsdóttur 1978, þau eignuðust tvö börn: 1) Stefni, f. 1980, börn hans eru: a) Davíð Þór. b) Viggó Böðvar. 2) Birnu Eik, f. 1982. Synir hennar eru: a) Eyþór Atli. b) Benedikt Eysteinn. c) Baldur Prause. d) Jón Egill. Fyrir átti Finnbjörg soninn Guðberg Egil, f. 1971, kona hans er Birna Kristín Friðriksdóttir. Börn þeirra eru: a) Ingvar. b) Benedikt. c) Anna Kristjana. Benedikt og Finnbjörg fóstruðu einnig Kára Walter Margrétarson og Davíð Þór Stefnisson. Benedikt sótti sjó sem ungur maður á Patreksfirði en fluttist svo til Reykjavíkur til náms í húsasmíði. Námið stundaði hann samhliða sjómennskunni og lauk hann sveinsprófi frá Iðnskóla Reykjavíkur árið 1949. Benedikt tók virkan þátt stjórnmálum og vann ötullega að félagsmálum innan verkalýðshreyfingarinnar alla sína starfsævi. Á meðal hans hugðarefna innan verkalýðshreyfingarinnar voru lífeyrissjóðsmálin, uppbygging og virkni fæðingarorlofs- og atvinnuleysistryggingasjóða og almannatryggingakerfisins. Hann starfaði m.a. hjá ASÍ, Trésmiðafélagi Reykjavíkur og Sambandi byggingamanna. Eftir að eiginlegum starfsferli lauk starfaði hann hjá Landssambandi eldri borgara. Hann lét af störfum 78 ára að aldri. Útför Benedikts fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 20. nóvember 2009, og hefst athöfnin kl. 15.

"Af hverju kemur afi þinn að sækja þig?" heyrðist spurt í fatahenginu í leikskólanum þegar jakkafataklæddur, gráhærður maður um sextugt gekk inn. Þá var svarað glöðum rómi " hann er ekki afi minn, þetta er hann pabbi ". Þetta er ein af mínum fyrstu minningum um föður minn. Þessi spurning heyrðist oft á meðan á minni barnaskólagöngu stóð en aldrei snerti það mig illa, mér fannst hann svo flottur þessi kall sem ég átti. Ég var viss um að hann væri sterkastur, klárastur, flottastur, duglegastur og fyndnastur í öllum heiminum. Þessi barnstrú mín á föður mínum "læknaðist" í rauninni aldrei ... fyrir mér var hann alltaf og er enn Súpermann, þó svo að hann syði kartöflur með öllum mat.

Önnur minning sem er mér kær er af því hvar ég ligg í rúminu og horfi milli rimlanna á pabba halda á bók í ísbjarnarkrumlunum sínum að lesa Jón Odd og Jón Bjarna fyrir okkur krakkana fyrir svefninn með sínum djúpa rómi að glettast og gera margar raddir eftir persónum bókarinnar.

Þegar ég plástra lítil skrámuð hné barna minna minnist ég handa hans á mínu hné að hjúkra mér eftir byltu. Ég minnist alls sem hann kenndi mér og vona að mér takist að miðla áfram visku hans, hlýju og umburðarlyndi til litlu bræðranna sem nú sakna afa.

Ekki er það nokkrum lifandi manni mögulegt að telja upp allt það sem ég á föður mínum að þakka. Ég var lánsamt barn að fá að alast upp í skjóli hans, með sína mjúku en styrku hönd mér til leiðbeiningar um krókaleiðir lífsins og finn ég nú til þess hve mikið ég myndi vilja fá að njóta leiðsagnar hans lengur.

Minning hans er samofin náttúrunni sem hann og mamma kenndu mér að þekkja og virða. Hann býr í hröfnunum sem hann spjallaði við, tófunum sem hann vingaðist við, vestfirsku björgunum, hafinu og Bláfjólunni. Hann lifir áfram í andlitum litlu sona minna sem opinmynntir hlusta á mömmu sína segja sögur síðan í "gamla daga" þegar hún var lítil og þegar afi var pabbinn.

Birna Eik Benediktsdóttir.