Laufey Einarsdóttir var fædd á Bakka í Bjarnafirði þann 24. ágúst 1947. Hún lést sunnudaginn 6. desember 2009. Foreldrar hennar eru Sigríður Benediktsdóttir, f. 1. desember 1922, og Einar Jóhannsson, f. 4. febrúar 1915, d. 16. ágúst 2002, bændur að Bakka í Bjarnafirði og síðar búsett í Keflavík og Garði. Systkini Laufeyjar eru 1) Valgerður Einarsdóttir, f. 25. nóvember 1940, d. 3. febrúar 2000. Maki Jón Hörður Sigurbjörnsson, f. 6. maí 1937, d. 23. desember 1990. 2) Guðmundur Einarsson, f. 18. janúar 1943, d. 30. ágúst 1988. Maki Fanney Jóhannsdóttir, f. 15. júní 1948. 3) Ólafur Ólafs Einarsson, f. 15. ágúst 1944. Maki Anna Magnúsdóttir, f. 13. júní 1946. 4) Guðveig Einarsdóttir, f. 1. ágúst 1954. Maki Árni Pétursson, f. 13. júní 1953. 5) Jóhann Karl Einarsson, f. 29. september 1960. Maki Ásrún Guðmundsdóttir, f. 19. apríl 1963. Laufey giftist 25. nóvember 1972, eiginmanni sínum, Hannesi Ólafssyni, f. 26. febrúar 1944, og eignuðust þau þrjú börn. 1) Hjalti Þór, f. 13. júní 1972. Maki Kristín Guðmundsdóttir, f. 4. febrúar 1972. Þau eiga þrjú börn, Karen Petru, Erik Aldan og Elmar Aldan. 2) Ómar Örn, f. 10. janúar 1974. 3) Sigríður Harpa, f. 19. ágúst 1977. Maki Halldór Freyr Sveinsson, f. 2. janúar 1975. Útför Laufeyjar fer fram frá Digraneskirkju í dag, þriðjudaginn 15. desember, og hefst athöfnin kl. 13.

Þá er þinn tími komin, hvort sem okkur líkar það betur eða verr.
Fyrir tæpum 40 árum komstu inn í fjölskylduna og varðst strax ein af okkur, eins og við hefðum alltaf þekkt þig.
Heimili ykkar Hannesar stóð okkur, fólkinu ykkar að norðan, alltaf opið, fyrst í Vesturberginu, þar var nú ekki mikið pláss en þar sem hjartarými er, þar er alltaf pláss. Seinna byggðuð þig yfir ykkur í Giljaselinu, Hótel Giljasel eins og það var gjarnan kallað, og þar var nú oft þétt setinn bekkurinn, og sofið út um allt hús.
Yngra fólkið var heilu veturna hjá ykkur, eins og væru ykkar börn, og við hin komum og gistum ef verið var að erinda í höfuðborginni.
Ég minnist margra skemmtilegra stunda þar, hvort heldur var setið að spilum hálfa nóttina eða við spjall. Sem betur fer er Giljaselið einbýlishús, því ekki hefðum við alltaf þótt hæf  í fjölbýli, svo mikil voru hlátrasköllin.
Þá eru samverustundirnar norður í Hvammi ekki síðri, berjaferðir og notalegheit.
Utanlandsferðirnar okkar saman voru yndislegar, sem og sumarbústaðaferðir innanlands líka.
Já, það er margs að minnast og margar góðar minningar að orna sér við.
Ég er þakklát fyrir okkar síðustu samverustundir við laufabrauðsbakstur í Brún og bíltúrinn í Miðhóp til að vita hvort Ella ætti tertu!
Þetta eru aðeins örfáar minningar um þig elsku Laufey, þín verður sárt saknað næst þegar  Sólbakki Group heldur ölskyldumót
Ég bið algóðan Guð að styrkja aldraða móður þína, Hannes, Hjalta. Ómar, Siggu og aðra aðstandendur, Guð veri með ykkur öllum.
Takk fyrir samveruna.

Ása Ólafs.

Þá er langri og strangri baráttu lokið, komið að leiðarlokum. Sjúkdómurinn hafði betur. Með tár í augum reynir maður að koma nokkrum kveðjuorðum á blað, en hugur og hönd ná illa saman, hugurinn reikar, minningar um Laufeyju koma fram í hugann og þær margar.
Litla íbúðin í Vesturberginu fyrir löngu, ég ný komin úr stórri skurðaðgerð, fann fótbolta, lét freistast og datt, varð hræddur, ég gleymi aldrei hvernig Laufey talaði við mig.
Sauðburður með krakkana litla, göngur mörg haust, margar góðar stundir í Giljaselinu, yfirleitt hlátur og gleði en stundum meiri alvara eins og gengur. Það var gott að leita ráða hjá Laufeyju.
Þegar ég var að vinna í bænum þá hafði hún auga með manni, bauð í mat og setti í þvottavél. Það hafa margir úr Sólbakkaættinni verið undir vermdarvæng Laufeyjar og Hannesar í gegnum tíðina. Oft þegar ég heyri talað um Hótel mömmu þá kemur Laufey upp í huga minn.
Þegar við eignuðumst tvíburana þá kom ekki annað til greina en Stína yrði þar meðan hún  beið fæðingar og er að stóru stundinni kom þá ók hún um miðja nótt eins og vanur sjúkabílstjóri á fæðingardeildina og var til staðar á meðan þörf var. Það var gott að halda í hendina á henni. Fyrir þetta verður aldrei fullþakkað.
Kaffi í Kórsölum nú í seinni tíð, oftar en ekki litið við áður en haldið var norður, spjallað góða stund.
Það verður sérstakt og þín sárt saknað þegar Guðmundur Bjarki verður fermdur í vor.
Að lokum viljum við þakka fyrir allt, þú munt ávallt eiga  stað í hjarta okkar.
Elsku Hannes, Hjalti; Ómar, Sigga og fjölskyldur megi góður Guð styrkja ykkur í sorg ykkar.

Óli og Stína.

Elsku Laufey mín, ég trúi því varla að þú sért farin frá okkur. Ég er að reyna að skrifa en minningarnar ryðjast svo fram í huganum og það er eins og við höfum stundum verið að gera ýmislegt saman, eins og það að fara níu haust í röð í göngur; við með matinn og Siggi að keyra. Ég man hvað ég var undrandi þegar þú hringdir í haust og sagðist ætla að taka boðinu og fara með til heiða. Því var ekki lítið gaman þegar þú fórst í tíunda sinn með okkur og Nínu. Þá minnist ég með þakklæti allra heimsóknanna til ykkar Hannesar í sumarbústaði, ekki síst á óðalið ykkar á Ströndum. Einnig frábærrar samveru á Kanarý, ekki síst er við vorum saman í íbúð á Monte Mar. Þá var Edinborgarferðin ógleymanleg þegar farið var út að borða með Ellu.
Oft höfum við líka átt skemmtilegar stundir við að undirbúa veislu eða einhvern mannfögnuð í fjölskyldunni. Og ekki er síst að minnast allra heimsóknanna okkar á milli, alltaf var sjálfsagt að gista hjá ykkur Hannesi þegar farið var suður. Þó við værum stundum ansi mörg var alltaf pláss fyrir alla. Einnig hafa mörg af okkar börnum dvalið hjá ykkur um lengri eða skemmri tíma.
Að lokum þökkum við innilega alla þína vináttu og biðjum góðan Guð að hugga og styrkja allt fólkið þitt.

Blessuð sé minning þín.

Sigrún og Sigurbjartur.

Það er erfitt að sætta sig við gang lífsins þegar einhver manni nákominn fellur frá. Jafnvel þótt barátta við erfið veikindi hafi staðið yfir árum saman er vonin um bata alltaf til staðar.

Mig langar í fáum orðum að minnast Laufeyjar Einarsdóttur, konu Hannesar frænda eins og ég kynnti hana iðulega fyrir þeim sem ekki til þekktu. Ég hefði samt allt eins getað kynnt hana með öðrum hætti, sem vinkonu, sem leiðbeinanda, sem konu sem ég leit upp til og tók mér til fyrirmyndar.

Ég skal viðurkenna að ég var örlítið smeyk við Laufeyju til að byrja með, þessa skörungskonu sem Hannes frændi minn kynnti fyrir fjölskyldunni fyrir margt löngu. Laufey var alla tíð hreinskiptin og ófeimin að segja skoðun sína og þessi eiginleiki hennar ásamt ungum aldri mínum sköpuðu þennan ótta. Það þurfti hinsvegar enginn að óttast Laufeyju, hvorki ungur né gamall og barnaskapurinn rann fljótt af mér, kannski of fljótt því Laufey og Hannes sátu uppi með mig árum saman sem hálfgert fósturbarn. Og eftir að mínum tíma lauk sem kostgangari hjá þeim áttu fósturbörnin eftir að verða fjölmörg til viðbótar, það voru meira að segja komin kynslóðaskipti þegar Hrafnhildur dóttir mín bjó þar í nokkra vetur á meðan hún stundaði framhaldsskólanám í Reykjavík.

Það var í rauninni ótrúlegt hvað alltaf var pláss fyrir næturgesti hjá Laufey og Hannesi. Fljótlega eftir að þau tóku saman fluttu þau í litla íbúð í Vesturberginu. Þar var oft þröng á þingi og ég tala nú ekki um eftir að þau fluttu í Giljaselið. Þrátt fyrir að eigin fjölskylda stækkaði með tilkomu Hjalta, Ómars og Siggu, stóðu dyr þeirra alltaf opnar fyrir fjölskyldu og vinum. Fjölskyldan var samhent og það var alltaf gott að koma á hótel Giljasel eins og heimilið var stundum kallað.

Að lifa kátur lífs er mátinn bestur

Þó að bjáti eitthvað á

úr því hlátur gera má.

Þessi skagfirski húsgangur lýsir vel hvernig Laufey tók á áralangri baráttu sinni við erfið veikindi. Dugnaðurinn var einstakur og hún lét veikindin ekki aftra sér frá ferðalögum innanlands sem erlendis og þátttöku í hverskonar atburðum. Enda var Laufey virkur þátttakandi í lífinu, það var ekki í hennar eðli að sitja hjá og horfa á lífið úr fjarlægð, hún tók svo sannarlega þátt til síðustu stundar.

Elsku Hannes, Hjalti og fjölskylda, Ómar, Sigga og Halldór. Missir ykkar er mikill. Ég votta ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Ólöf Inga.