Árni Jóhannsson fæddist í Teigi í Fljótshlíð 2. apríl 1932. Hann lést á Sjúkrahúsi Suðurlands að morgni sunnudagsins 6. desember sl. Árni var sonur hjónanna Jóhanns Jenssonar bónda í Teigi í Fljótshlíð, f. 1895, d. 1978, og Margrétar Albertsdóttur, f. 1900, d. 1989. Systkini Árna eru Guðni, f. 1926, búsettur á Hvolsvelli, Albert, f. 1926, d. 1998, bjó á Skógum undir Eyjafjöllum, Ágúst, f. 1927, búsettur á Selfossi, Sigrún, f. 1930, búsett á Hvolsvelli, og Jens, f. 1942, búsettur í Teigi. Eiginkona Árna er Jónína Björg Guðmundsdóttir, f. á Dvergasteini við Seyðisfjörð 31. janúar 1937, dóttir hjónanna Guðmundar Sigfússonar, f. 1913, d. 1996, og Þorbjargar Pálsdóttur, f. 1915, d. 2002. Árni og Jónína gengu í hjónaband árið 1958. Börn þeirra eru: 1) Hrafnhildur, f. 30. september 1958, búsett í Reykjavík, gift Páli P. Theódórs og eru synir þeirra Árni Björn, f. 1982, unnusta Sylvía Sigurbjörnsdóttir, Fannar, f. 1986, og Hlynur, f. 1993. 2) Guðbjörn, f. 1. mars 1960, búsettur í Reykjavík, kvæntur Hlín Hólm, börn þeirra eru Anna Þrúður, f. 1988, (móðir hennar er Ragnhildur Anna Gunnarsdóttir), Helga, f. 1992 og Hugi, f. 1995. Árni lauk prófi frá Bændaskólanum á Hvanneyri vorið 1955 og keypti jörðina Teig II í Fljótshlíð árið 1957. Fyrstu árin vann Árni ýmis störf samhliða búrekstrinum, m.a. hjá Kaupfélagi Rangæinga á Hvolsvelli og við akstur skólabarna. Árni sat í stjórn hestmannafélagsins Geysis í all nokkur ár og var fulltrúi félagsins á Landsþingum Landssambands hestamanna um árabil. Árni var gerður að heiðursfélaga í Geysi árið 2007 og árið 2008 var hann sæmdur gullmerki Landssambands hestamannafélaga fyrir störf sín í þágu hestamanna. Árni gegndi hinum ýmsu trúnaðarstörfum fyrir bændur í sinni sveit og var m.a. formaður Búnaðarfélags Fljótshlíðar og formaður sóknarnefndar Hlíðarendakirkju um tíma. Árni var fjallkóngur á afrétti Fljótshlíðinga í 19 ár samfellt. Útför Árna fer fram frá Breiðabólstaðarkirkju í Fljótshlíð í dag, miðvikudaginn 16. desember 2009, og hefst athöfnin kl. 14.
Það er nú einhvern veginn svo að þegar rituð eru minningarorð um nákominn aðila sem fallinn er frá að maður kemst ekki hjá því að tala um sjálfan sig í því samhengi. Ég kynntist Árna og fjölskyldu ´71 þegar fjölskylda mín festi kaup á vesturbænum á Heylæk í Fljótshlíð og var ég þá rétt 5 ára gamall. Fljótlega fór ég að venja komur mínar að Teigi til Jónínu og Árna, fylgjast með búskapnum og sjálfsagt þvælast ansi mikið fyrir til að byrja með, enda stóð ég varla út úr hnefa á þeim tíma, þurfti að spyrja að öllu sem fyrir augu bar og tala mikið. Það var oftar en ekki að foreldrar mínir þurftu að koma yfir og ná í mig þegar leið að kvöldi og hafði ég þá gjarnan dvalið á Teigi frá því snemma morguns og fram á kvöld. Mikill myndarbúskapur var að vesturbænum að Teigi og mikill metnaður lagður í reksturinn. Fyrir smápjakk úr Reykjavík sem hafði gaman af dýrum var það mikill fengur að fá að taka þátt í daglegum störfum og því sem var að gerast og fékk ég fljótlega það embætti að reka kýrnar fyrir og eftir mjaltir í og úr haga. Hitt var annað sem mér þótti þó mikil upphefð í og það var að stýra traktor og lét ekkert tækifæri frá mér fara ef bauðst. Í fyrsta skipti var ég ekki hærri í loftinu en svo að þegar ég var látinn aka á milli bagga í heyskapnum með heyvagn að setja þurfti dráttarvélina í gír fyrir mig þar sem ég náði ekki niður á pedalana á tækinu og svo fékk ég að stýra.
Jónína húsfrú hafði endalausa þolinmæði í að vera með okkur pjakkana sem komum að Teigi í eftirdragi, leyfa okkur að aka Landrover og fylgja sér út um allt í erli dagsins hvort heldur sem um var að ræða að skreppa niður á aura með kaffi handa vinnumönnum eða fylgja sér við sína vinnu heimavið. Það voru forréttindi að fá að alast upp við þessar kringumstæður, taka þátt í öllum störfum og viðburðum. Ekki síst var frábært að fá að alast upp og taka þátt í hestamennsku í Teigi.
Árni var mikill hestamaður og frumkvöðull í mörgu eins og hesthúsið sem hann reisti sýnir og stenst enn í dag samanburð við nýbyggð hesthús hvað varðar aðbúnað hrossa og vinnuaðstöðu. Löngum var talað um Árna í Teigi og brúnu hestana. Að Teigi voru alla tíð ræktuð góð hross, stór, kröftug, getumikil og viljug, mörg hver skaphörð og ákveðin en umfram allt upp til hópa mikil vilja og ganghross. Það var mikil snilld að fylgjast með Árna ríða út og ferðast á hrossum. Mikill reiðmaður og sjálfsagt einn af betri töltreiðmönnum síns tíma en hafði frábært vald á þeirri gangtegund og náði góðu sambandi við hross.
Eins og áður sagði var mikill erill að Teigi, mikill gestagangur og nóg að starfa alla daga. Árni var skemmtilegur húsbóndi með mikinn húmor og kunni vel að segja sögur af mönnum og málefnum en um leið afskaplega ákveðinn og fylginn sjálfum sér. Mér er það minnisstætt tólf ára gömlum þegar við fórum tveir saman ríðandi frá Teigi út á Hvolsvöll að vori til að taka á móti syni hans, Bjössa og Páli tengdasyni, sem voru að koma ríðandi úr Reykjavík. Árni var með fjóra til reiðar ef ég man rétt og ég sat hest sem Árni átti og ég síðar eignaðist og hafði að auki tvo fola í taumi. Folarnir voru fremur ódælir í taumi og vildu dragast aftur úr en sá hestur sem ég sat var ljónviljugur og ekki gefinn fyrir að vera öðruvísi en í forreið. Á móts við Sámsstaði átti ég ekki annarra kosta völ en að láta folana tvo draga mig af baki þar sem ég vissi að sá hestur sem ég sat myndi alltaf stoppa en folarnir myndu hlaupa heim og við því yrði nú fóstri minn ekki glaður. Eftir að hafa dregist nokkra metra eftir mölinni staulaðist ég á fætur, taldi mig heppinn að halda ennþá í folana og hafa ekki misst þá heim á leið og var bara nokkuð hróðugur. Í því sem ég fer að rölta að reiðhesti mínum snýr Árni við sem hafði verið á undan mér og kemur ríðandi áleiðis að mér og segir pollrólegur. Ef þú getur ekki hangið í hnakknum drengur þá geturðu bara riðið til baka heim, og hélt aftur á stað út á Hvolsvöll. Ég skreið á bak aftur og fylgdi á eftir og var fremur fúll því ég taldi mig nú hafa staðið mig nokkuð vel við þessa uppákomu og vera snupraður fyrir en eftir nokkur hundruð metra hægði Árni á sér, reið við hlið mér og fór að segja mér gamansögur af mönnum og málefnum. Það var aldrei leiðinlegt þegar hann komst í þann ham, sem var oftar en ekki þegar við vorum tveir einir saman, og ég varð óðara hinn kátasti aftur.
Árni var mikill húmoristi þegar sá gállinn var á honum og gat maður velst um af hlátri þegar hann var í stuði og rifjaði upp sögur og atburði. Hann leyfði okkur vinnumönnum sem höfðum áhuga á hestum að stunda útreiðar, mat hæfni hvers og eins og valdi undir menn hesta út frá því hversu hæfir honum þótti menn vera til að sitja og halda hestum á gangi með sæmilegum hætti. Ég fékk að njóta þess að keppa á hestum frá Teigi öll þau sumur sem ég var þar vinnumaður og þótti mér mikill heiður. Eins og ég nefndi hér á undan voru og eru miklir gæðingar og góðir reiðhestar í Teigi og Árna mikið í mun að viðhalda góðum reiðhestum og ala upp nýja og hafði óþrjótandi áhuga á öllu sem laut að ræktun hrossa og hestamennsku. Það er ekki svo ýkja langt síðan ég sá hann á baki síðast og þar fór mikill reiðmaður kominn á áttræðisaldur.
Það er mér á þessari stundu sem ég sit og rifja upp margar góðar minningar frá liðnum tíma mikið þakklæti í huga þegar ég lít til baka yfir farinn veg og allar þær stundir sem ég átti að Teigi hjá Árna og Jónínu og án þeirra vildi ég ekki vera og minning um fallinn höfðingja og vin lifir og mun lifa.
Jónína, Hrafnhildur, Bjössi og fjölskyldur, við Jóhanna viljum votta ykkur okkar dýpstu samúð og munum um leið að minningarnar eru margar og góðar um góðan mann sem skilur eftir sig ævistarf sem hver maður gæti verið ákaflega stoltur af.
Hörður Gunnarsson, Heylæk.