Jóhanna Ólafsdóttir, snyrtifræðingur og sjúkranuddari, var fædd á Nauteyri 14. ágúst 1921. Hún lést á Droplaugarstöðum 6. desember 2009. Foreldrar hennar voru Ólafur Pétursson, bóndi, fæddur á Dröngum 5. janúar 1875 og Sigríður Guðrún Samúelsdóttir, húsfreyja, fædd í Skjaldabjarnarvík 12. nóvember 1893. Systkini Jóhönnu voru Þórarinn, f. 23. maí 1912, d. 8. janúar 1995, Ingibjörg, f. 26. ágúst 1914, d. 13. júní 1998, Kristjana Margrét, f. 17. júlí 1917, d. 25. maí 2006 og Hallfríður, f. 9. júli 1927, lifir hún ein systkini sín. Jóhanna ólst upp við Ísafjarðardjúp en fór ung suður til Reykjavíkur þar sem hún bjó upp frá því. Jóhanna giftist Gísla Guðmundssyni, verslunarmanni, f. 18. maí 1919, d. 10. nóvember 2001. Foreldrar hans voru Guðmundur Ari Gíslason, f. 8. desember 1880, og Sigríður Helga Gísladóttir, f. 16. desember 1891. Jóhanna og Gísli eignuðust 5 börn, tvær stúlkur sem létust strax eftir fæðingu, Braga Þór Gíslason, f. 20. apríl 1944, d. 22. janúar 1984, Bryndísi Gísladóttur, f. 26. janúar 1952, d. 2. mars 1973, og Björk Gísladóttur, f. 26. janúar 1952. Dóttir hennar er Bryndís Hrönn Ragnarsdóttir, f. 19. janúar 1974, og sonur hennar er Gísli Regin Pétursson, f. 27. júní 1995. Jóhanna stundaði nám í Héraðsskólanum í Reykjanesi við Ísafjarðardjúp á árunum 1934-1937. Hún vann við ýmis störf en er börnin voru vaxin úr grasi lærði hún bæði snyrtifræði og sjúkranudd og rak eigin nudd- og snyrtistofu „Heilsulindina“ í nokkur ár. Síðustu starfsæviár sín vann hún sem sjúkranuddari á Hrafnistu í Reykjavík. Útför Jóhönnu fer fram frá Fossvogskapellu í dag, þriðjudaginn 15. desember 2009, og hefst athöfnin kl. 15.
Jóhanna Ólafsdóttir, Hanna, eins og flestir kölluðu hana, verður mér alltaf minnisstæð fyrir þá velvild, áhuga og umhyggju sem hún auðsýndi mér alla tíð, en upphaf kynna okkar voru þegar ég kom á heimili hennar, óharðnaður menntaskólanemi með vinkonu minni og skólasystur, systurdóttur hennar, Sigrúnu Guðmundsdóttur. Ávallt var ég velkomin á heimili þeirra Hönnu og Gísla með Sigrúnu og húsfreyjan hvatti okkur til dáða og sýndi okkur áhuga og skilning. Hún benti okkur á það sem hún taldi skipta mestu máli, en þar var menntunin einna efst á blaði. Sín eigin börn hvatti hún með sama hætti.
Mikil harmsaga var það þó, og hlaut að setja mark sitt á þau hjónin, að missa fjögur barna sinna fimm, tvö sem létust strax eftir fæðingu en önnur tvö uppkomin, þ.e. Bryndísi sem lést 21 árs gömul og Braga Þór sem náði því næstum að verða fertugur. En dótturdóttirin Bryndís, heitin eftir tvíburasystur móður sinnar Bjarkar og fædd ári eftir lát nöfnu sinnar, varð móðurforeldrum sínum til mikils yndisauka og augasteinn ömmu sinnar. Henni kynntist ég líka persónulega, því að hún var um skeið barnfóstra hjá mér, þótt ekki væri hún miklu eldri en börnin sem hún átti að líta eftir. Björk var aftur á sínum yngri árum nokkur sumur í norðlenskri sveit hjá foreldrum mínum sem litu á hana sem nokkurs konar dóttur sína.
Hanna hafði góðar gáfur, einnig mikið listskyn og fegurðarskyn, en slíkt er ríkt í þessari vestfirsku ætt og brýst fram í mismunandi formum hjá einstökum meiðum af henni. Hjá Hönnu kom þetta fram í því sem hún hafði umhverfis sig en einkum þó í viljanum til að fegra og heilsubæta manneskjuna, líkamann alla vega - og sálina held ég helst líka, og þar kom að hún lagði stund á snyrtifræði og sjúkranudd og rak um tíma heilsustöð sem ég kynntist af eigin raun. Hjá Ingibjörgu systur Hönnu, þ.e. Ingu móður Sigrúnar vinkonu minnar, kom listfengið einkum fram í forkunnargóðum ljósmyndum, enda hlaut hún verðskuldaðar viðurkenningar fyrir. Hallfríður, Halla, eins og ég vandist við að kalla hana þegar þær Sigrún bjuggu í sama húsinu í Kópavogi, hefur stundað listmálun myndir og unnið ýmss konar fagra muni. Þau systrabörnin Bragi Þór og Sigrún stunduðu bæði hefðbundið myndlistarnám frá unga aldri og urðu bæði fljótt þekkt af, Sigrún einkum sem myndhöggvari, en hún stundar nú líka eldsmíði og ýmislegt fleira, sem hér verður eigi upp talið. Þess konar fólki er listsköpun næstum því eins nauðsynleg og okkur venjulegum mönnum að anda. Listfengi og mannkærleikur eru einkenni þess, slíkt fólk auðgar umhverfi sitt og gefur af sér bæði beint og óbeint samferðamönnum sínum í lífinu og hinum sem á eftir koma.
Ég og fjölskylda mín samhryggjumst innilega afkomendum Hönnu og biðjum þeim og öðrum í vestfirsku stórfjölskyldunni blessunar um ókomin ár. Mikils er misst en ég trúi því líka að Hanna hafi orðið síðustu hvíldinni fegin eftir langan og stundum all tyrfinn æviveg.
Guðrún Karlsdóttir frá Stóru-Borg.