Ingibjörg Gísladóttir fæddist 10. september 1934. Hún andaðist 7. desember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Gísli Guðmundsson bifreiðarstjóri, f. 20.3. 1903, d. 10.1. 1983, og Pálína Þórðardóttir, f. 30.5. 1902, d. 9.9. 1935. Seinni kona Gísla var Jónína Sigurrós Scheving Hallgrímsdóttir, f. 17.7. 1908, d. 3.2. 1983, sem gekk Ingibjörgu í móðurstað og ól hana upp sem dóttur sína. Systir Ingibjargar er Pálína, f. 19.6. 1938. Ingibjörg giftist 16.9. 1955 Sigurbergi Sveinssyni viðskiptafræðingi og kaupmanni, f. 15.4. 1934. Foreldrar hans voru Sveinn Þorbergsson vélstjóri, f. 12.4. 1899, d. 10.2. 1989 og Jónína Guðlaugsdóttir húsmóðir, f. 21.10. 1904, d. 15.7. 1991. Börn Ingibjargar og Sigurbergs eru: Hjördís ljósmóðir, f. 1952, maki Ingvar S. Jónsson, f. 1951, Rósa kennari, f. 1957, maki Jónatan Garðarsson, f. 1955, Sveinn kaupmaður, f. 1960, maki Björk Pétursdóttir, f. 1962 og Gísli Þór viðskiptafræðingur, f. 1965, maki Hafdís Sigursteinsdóttir, f. 1967. Barnabörnin eru tíu og barnabarnabörnin þrjú. Ingibjörg ólst upp í Hafnarfirði og gekk þar í skóla. Hún fór ung að vinna og starfaði lengst af við verslun og var um árabil hjá Kaupfélagi Hafnarfjarðar. Hún stofnaði ásamt eiginmanni sínum og hjónunum Bjarna og Valgerði Blomsterberg verslunina Fjarðarkaup í júlí 1973 og starfaði þar fram á síðasta dag. Útför Ingibjargar fer fram frá Víðistaðakirkju í Hafnarfirði í dag, miðvikudaginn 16. desember, og hefst athöfnin kl. 14.

Það var hnípinn hópur sem hóf störf sín hjá Fjarðarkaupum að morgni 8. desember.

Okkur höfðu borist þau hörmungartíðindi að ástsæll samstarfsmaður hefði látist skyndilega kvöldið áður.

Ingibjörg Gísladóttir, ævinlega kölluð Inga, hafi unnið við hlið okkar frá því fyrirtækið var stofnað í júlí 1973, en hún var einn af eigendum þess.

Alltaf leit hún á sig sem eina af okkur og kunni þá list að lynda við alla. Aldrei hóf hún sig á stall heldur umgekkst okkur af alúð og með kímnigáfu sinni sá hún gjarnan spaugilegar hliðar á þessu daglega amstri okkar. Hún fylgdist með okkur og fólkinu okkar og bar hag okkar allra fyrir brjósti og fyrir það viljum við þakka við leiðarlok.

Við biðjum þann sem öllu ræður að þerra tregatárin hjá okkur öllum og þeim sem henni voru kærastir.

Við viljum kveðja með þessu litla erindi:

Ég kveð þig, hugann heillar minning blíð,
hjartans þakkir fyrir liðna tíð,
lifðu sæl á ljóssins friðar strönd,
leiði sjálfur Drottinn þig við hönd.
(Guðrún Jóhannsdóttir.)

F.h. samstarfsfólks í Fjarðarkaupum,

Sigurbjört Þórðardóttir

Við æskuvinkonurnar úr vesturbænum viljum senda þér okkar hinstu kveðju, með þakklæti fyrir þína tryggu vináttu.

Nú ertu horfin aldna vina mín.

Frá æskumorgni ljúf var kynning þín.

Hjá þér var tryggðin stöðug, hjartað hlýtt

í harmi og gleði jafnt við blítt og strítt.

/

Og heimsins bragur bjartur var

því bræðralag og eining ríktu þar.

Hver höndin var til hjálpar öðrum greið

og hindrun allri að víkja af þeirra leið.

/

Það auðgar líf mitt að ég kynntist þér

og innstu þakkir mínar fram ég ber.

Mér aldrei fyrnist fögur minnig þín

sem fram til loka kærleiksrík mér skín.

(Ingibjörg Sumarliðadóttir frá Valshamri.)

Elsku Sigurbergur og fjölskylda við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ragnheiður, Sæunn, Guðbjörg, Kristín og Sigrún.