Guðrún Gunnarsdóttir fæddist á Reykjum í Fnjóskadal 4. ágúst 1916. Hún lést á Dvalarheimilinu Hvammi á Húsavík 7. desember síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Gunnar Jónatansson, bóndi á Reykjum, f. 1876, d. 1965, og kona hans Þóra Sigríður Guðmundsdóttir, húsfreyja, f. 1889, d. 1951. Systkini Guðrúnar eru Tryggvi, iðnverkamaður, f. 1920 og Guðmundur, bóndi, f. 1924, d. 2008. Maki, Pálína Magnúsdóttir, húsfreyja, f. 1924. Árið 1957 giftist Guðrún Steingrími Davíðssyni, iðnverkamanni, f. 1913, d. 1988. Foreldrar hans voru Davíð Jónatansson, f. 1866, d. 1944, og Guðrún Halldórsdóttir, f. 1867, d. 1943. Guðrún og Steingrímur voru barnlaus. Guðrún ólst upp á Reykjum. Hún stundaði nám við Kvennaskólann að Laugum. Árið 1951 tóku systkinin þrjú við búinu á Reykjum af foreldrum sínum og stóð sú samvinna til ársins 1958. Þá fluttist Guðrún ásamt manni sínum til Akureyrar og byggðu þau sér hús í Ásabyggð 15. Starfaði Guðrún eftir það allan sinn starfsaldur á verksmiðjum Sambandsins á Gleráreyrum. Guðrún fluttist árið 2003 til Húsavíkur og keypti sér þjónustuíbúð á Dvalarheimilinu Hvammi, en frá 2006 dvaldist hún á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu á Húsavík til dauðadags. Útför Guðrúnar Gunnarsdóttur fer fram frá Illugastaðakirkju í Fnjóskadal 16. desember 2009 kl. 14.
Árið 1964 - ég var átta ára, nýflutt í kjallarann hjá Guðrúnu og Steingrími í Ásabyggðinni. Guðrún að þvo í þvottahúsinu en Steingrímur eitthvað að brasa í skúrnum. Þetta er aðeins ein af mörgum myndunum sem skjóta upp kollinum þegar ég hugsa til baka í Ásabyggðina, þar sem ég bjó í sex ár og átti alltaf skjól á loftinu hjá þeim Guðrúnu og Steingrími. Tryggvi, eftirlifandi bróðir Guðrúnar, bjó hjá þeim á þessum tíma og þótti sjálfsagt.
Guðrún og Steingrímur voru barnlaus en þrátt fyrir það var þolinmæði þeirra gagnvart mér ótrúleg, bæði hvað varðaði endalausan spurningaflaum og eins að leyfa mér að vera hjá sér þegar ég var ein heima á kvöldin og mamma var að vinna.
Á þessum tíma vann Guðrún langan vinnudag “út á Sútun” eins og það var kallað og keyrði Steingrímur hana áður en hann fór í vinnu á sjúkrahúsið, þar sem hann var í hópi þeirra sem sáu um viðhald og viðgerðir. Síðar þegar Steingrímur veiktist lærði Guðrún á bíl og mikið var ég stolt af henni þá. Þó svo vinnudagur væri langur þá var alltaf eitthvað verið að dunda í höndunum, prjóna, sauma, baka og brasa. Oft fékk ég að taka til hendinni og hjálpa til þó svo, eftir á að hyggja, hafi ég verið til óþurftar ef eitthvað var. Garðurinn var stór og matjurtagarður bak við hús eins og svo víða á þessum tíma og fékk Guðrún oft góða uppskeru. Hún reyndi líka fyrir sér með margskonar matjurtir og jarðarber sem mér þótti spennandi að smakka á þegar ég kom úr sveitinni á haustin. Gjafmildin hennar Guðrúnar var mikil og hjá henni fékk ég margskonar góðgæti, m.a. þykka rabarbarasaft sem ég notaði sem djús og þótti voða góð en mamma taldi of gerjaða fyrir mig (?). Já, það var fátt sem mér var neitað um á loftinu. Ég fékk líka að fara með þeim Guðrúnu og Steingrími í sveitina – það lifnaði alltaf yfir henni þegar hún talaði um heim að Reykjum þar sem Guðmundur bróðir hennar bjó með Pálínu konu sinni. Margar sögur heyrði ég þaðan bæði frá Guðrúnu og Tryggva sem lýstu samheldni þeirra systkina og væntumþykju. Lítinn sumarbústað áttu þau Steingrímur, í skóginum fyrir innan Reyki og þangað var ekki fært fyrr en eftir leysingar að vori. Þetta var einn af sælureitum Guðrúnar og ævintýraland fyrir mér.
Guðrún gafst ekki upp á að reyna að gera úr mér almennilega húsmóður eftir að ég fór að búa. Eftir að Steingrímur kvaddi þá kom hún og var hjá mér tíma og tíma, hjálpaði mér að taka slátur og steikja kleinur svo eitthvað sé nefnt. Guðrún hafði gaman af að ferðast og það var aðdáunarvert hvað hún var dugleg að drífa sig í heimsóknir hingað og þangað um landið.
Ég á margar góðar minningar um Guðrúnu, jákvæðni hennar og hjálpsemi. Eftir að heilsunni fór að hraka leitaði Guðrún austur á Húsavík, þar var þó rétta loftið og undi hún hag sínum vel, sátt við sitt eins og ávallt.
Ég vil að lokum þakka Guðrúnu það skjól og þá kennslu sem hún veitti mér um leið og ég votta Tryggva og öðrum ættingjum samúðarkveðjur.
Sigríður A. Pálmadóttir.