Jóhanna Jónsdóttir var fædd í Hafnarfirði 14. september 1963. Hún lést sunnudaginn 6. desember 2009. Foreldrar hennar voru Jón Helgi Jóhannesson, f. 20.9. 1913, d. 6.6. 1982 og Jóna Kristín Hallgrímsdóttir, f. 22.6. 1919. Systkini Jóhönnu eru Hafsteina Helga Magliolo, f. 1940, búsett í Bandaríkjunum, Jóhannes Hafberg, f. 1943, d. 1963, Ingibjörg Sigríður, f. 1945, búsett á Selfossi, Stefán Sigurjón, f. 1946, d. 1993, Jón Helgi, f. 1950, búsettur í Hafnarfirði, Helgi E., f. 1958, búsettur í Hafnarfirði. Jóhanna eignaðist þrjú börn, Stefán Hafberg Sigurðsson, búsettur í Hafnarfirði, f. 1983, dóttir hans er Alma Rán, f. 2004, Heiða Arnardóttir, búsett í Danmörku, f. 1987, Lísa Arnardóttir, f. 1988, d. 2009. Útför Jóhönnu fór fram í kyrrþey þriðjudaginn 15. desember 2009.
Það er erfitt að setjast niður í amstri jólaundirbúnings til að skrifa þessi orð.
En þegar ég heyrði að Jóhanna væri dáin þyrmdi myrkrið yfir mig þrátt fyrir öll jólaljósin sem reyndu að þrengja sér inn í myrkrið.
Það er stutt síðan Jóhanna sat við dánarbeð Lísu en Jóhanna var enn að berjast við sorgina vegna ótímabærs andláts hennar.
Ég hef þekkt Jóhönnu alla ævi þar sem við erum frænkur og hún aðeins nokkrum mánuðum eldri en ég.
Skammt var á milli heimila okkar framundir fermingaraldurinn og okkur fannst sniðugt að mamma hennar var amma mín.
Jóhanna var mikill dýravinur. Þegar hún var lítil var hún dugleg að finna vængbrotna kríuunga, slasaða þúfutittlinga og músarindla og kisu sem henni tókst að koma inn á heimilið. Og þegar við fórum með matinn til afa máttum við ekki gleyma að gefa kríuungunum dauðu fiskiflugurnar sem afi var búinn að safna í gluggann.
Við lékum okkur mikið saman Jóhanna, ég og Hanna Stína systir.
Eitt skiptið þegar við vorum mjög ungar fann Jóhanna stóran og pattaralegan járnsmið og fannst henni alveg tilvalið að borða pödduna. En hún vildi skipta honum jafnt á milli okkar því alltaf var hún jafn gjafmild. Hönnu Stínu fannst alveg fráleitt að borða pöddur og kom þeirri skoðun á framfæri en Jóhanna sagði að fuglarnir borðuðu járnsmiði svo við mættum líka gera það við svo búið hljóp hún inn og náði í smjöhnífinn, Jóhanna skar járnsmiðinn í tvennt og sagði "ég fæ hausinn og þú rassinn," síðan tuggðum við vel og vandlega og þá heyrðist í Jóhönnu "oj, þetta er ekki gott". Alveg var ég sammála og fengu járnsmiðir að vera í friði fyrir okkur eftir þetta.
Við ákváðum líka að stunda vísindarannsóknir og mæla lengd á köngulóarvefjum og máttu margar köngulær láta vef sinn í þágu vísindanna. Við komumst að því að þráður frá einni köngulló væri um það bil 12 metrar.
Háaloftið hjá ömmu var líka ævintýraveröld, þar æfðum við okkur í að vera indíánar með því að binda bjöllur um ökklana og láta ekki heyrast í okkur.
Og eitt var nú, draugasögurnar hennar, Jóhanna sagði svo krassandi og mergjaðar draugasögur að þegar ég lenti í að fara alein heim eftir myrkur vörpuðu tveir ljósastaurar kærkominni birtu á leiðinni. Þvílíkar sögur sem hún gat spunnið eins og ekkert væri.
Stundum teiknaði hún myndir með sögunum alveg listavel gerðar myndir af ófreskjum, draugum eða fallegum stóreygum böngsum sem breyttust í skrímsli. Þó það séu margar skemmtilegar minningar í barnæsku þá skildu nú leiðir að mestu á unglingsárunum.
En þrátt fyrir að ég flutti úr firðinum þá vorum við ávallt í einhverju sambandi.
En örlögin höguðu því að hún fór grýtta leið í lífinu, jafnvel er hægt að segja stórgrýtta leið. Í raun einkenndist líf hennar af eintómri baráttu við veikleika sinn ásamt sorginni sem hafði betur í lokin.
Elsku frænka hvíldu í friði. Amma, Stebbi og Heiða megi Guð gefa ykkur styrk í allri sorginni.
Hafdís.
Við áttum ekki alveg von á því að heyra aftur svona slæmar fréttir þar sem svo stutt síðan að Lísa var jörðuð, en engu að síður fengum við þær fréttir annan sunnudag í aðventu að Jóhanna hafði kvatt þennan heim. Við áttum von á því að fá að hafa mikið lengri tíma með henni, þar sem síðustu dagar og vikur voru búnir að vera henni afar erfiðir og hjálpa henni að komast yfir þann missi sem hún varð nýlega fyrir. Okkur óraði ekki fyrir þessum snögga endir sem varð og því erfitt að kveðja okkar kæru systir, mágkonu og frænku.
Það sem Jóhanna tók sér fyrir hendur gerði hún af fullum krafti, hvort sem það var færibandavinna, tiltekt á heimilinu eða að safna að sér fallegum hlutum. Okkur er það eftirminnilegt að þegar hún var að þrífa þá var allt tekið og þrifið hátt og lágt, allt lauslegt sett út á svalir til að viðra og það lá við að öllum húsgögnum yrði komið fyrir þar líka. Þegar komið var í heimsókn og allt var út á svölum þá vissum við hvað stæði til.
Jóhanna var með eindæmum karftmikil, dugleg og ákaflega gjafmild persóna. Hún var rosalega hrifin af fallegum hlutum og langaði henni í einhvern hlut sem henni fannst mjög sérstakur þá vílaði hún ekki fyrir sér að fara langar leiðir til að eignast það og jafnvel fá einhvern vin eða kunningja sem var á ferðum erlendis að kippa með sér einni skel eða kuðung.
Jóhanna tala oft um það hvað henni langaði mikið til að ferðast bæði innanlands sem og erlendis, hún fór nokkrum sinnum til Bandaríkjanna til að heimsækja ættingja og undi sér vel þá, en draumur hennar var ávallt að fara víðar en henni gafst tími til.
Við eigum eftir að minnast Jóhönnu alla tíð sem litlu systur, mákonu og frænku og þakka þær stundir sem við áttum með henni.
Hugur okkur liggur hjá börnum hennar, Stebba og Heiðu, móður hennar og systkinum megi. Guð gefa ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.
Imba, Bjössi og Hafsteina frænka.