Birgir Ævarsson meistari í rafvélvirkjun og kaupmaður fæddist í Reykjavík 14. janúar 1959. Hann lést 9. desember 2009. Foreldrar hans eru Ævar Jónsson, f. 14. febrúar 1932, d. 9. febrúar 2009, og Anja Honkanen, f. í Finnlandi 19. janúar 1933. Systkini Birgis eru: 1) Katrín, f. 7. janúar 1954. 2) Hjálmar, f. 26. maí 1963. 3) Ævar Oddur, f. 30. júlí 1964. 4) Arnar, 11. júlí 1968. 5) Samfeðra: Tinna, f. 9. mars 1979. Birgir kvæntist Þorbjörgu Töru Guðmundsdóttur læknaritara 22. mars 1979. Synir Birgis og Þorbjargar eru: 1) Birgir Daníel vefstjóri, f. 1. febrúar 1980. 2) Bjarki Einar laganemi í HÍ, f. 28. febrúar 1986. Birgir og Þorbjörg slitu samvistum. Seinni kona Birgis er Vala Björg Guðmundsdóttir, f. 7. janúar 1966. Börn hennar eru Guðmundur Borgar Ingólfsson meistaranemi í verkfræði, f. 13. nóvember 1984, og Hrafnhildur Baldvinsdóttir nemi, f. 30. janúar 1995. Birgir ólst upp á Hraunbraut 25 í Kópavogi og stundaði þar grunnskólanám. Seinna lá leið hans í Iðnskóla Reykjavíkur, þaðan sem hann útskrifaðist sem rafvélvirki. Á yngri árum starfaði Birgir við margvísleg störf til sjós og lands. Birgir var alla tíð mikill útivistarmaður og gekk til veiða á fugli og fiski þegar færi gafst. Árið 1989 stofnaði hann fyrirtækið Rafbjörg sem sérhæfði sig í þjónustu við smábátaútgerðir. Síðar setti hann á stofn verslunina RB veiðibúð í Skútuvogi 4, þar sem aðaláhersla var lögð á vörur og þjónustu tengda frístundasjóveiði og útivist. Þar starfaði hann allt þar til illvígur sjúkdómur er hann greindist með síðastliðið vor, hamlaði starfsorku hans á haustdögum. Útför Birgis fer fram frá Kópavogskirkju í dag, föstudaginn 18. desember 2009, og hefst athöfnin kl. 13.
Birgir var vinur minn. Núna er hann farinn og ég veit ekki hvert. Ef hann er einhversstaðar annarsstaðar en í hugum okkar sem eftir stöndum, þá vona ég að þar sé nóg við að vera. Birgir var maður athafna.
Einhvern veginn sé ég hann ekki fyrir mér sem engil, sitjandi á hvítu skýi leikandi á hörpu. Til þess var hann of stór. Hann var ekki bara stórskorinn maður, hann var í mínum huga stór persóna sem skilur eftir sig minningar sem eiga eftir að fylgja mér ævilangt og kalla fram bros og þakklæti fyrir samfylgdina.
Biggi var enginn engill en mér þótti vænt um hann. Ef í handanheiminum er til staður þar sem vantar fólk með leiftrandi kímingáfu, fólk sem er duglegt og ósérhlífið, er til staðar fyrir vini sína, fólk sem er fljúgandi vel gefið og nýtur þess að brjóta hlutina til mergjar, fólk sem lítur á vandamál sem verkefni og kvartar ekki þó á móti blási, þá er Biggi þar því hann var þannig maður.
Ekki myndi skemma fyrir ef á þessum stað væri væri teflt og eingöngu hlustað á Jethro Thull.
Ég sé hann fyrir mér á þessum stað. Birgir búinn að hertaka plötuspilarann og hitt gáfaða, duglega og ósérhlífna fólkið dilla sér agndofa við flautusólóum Ians Anderson, sem er eins gott því að annað fær það ekki að hlusta á.
Góður drengur er genginn, guð veri með honum.
Fjölskyldu og vinum votta ég innilegustu samúð mína.
Nonni.