Benedikt Davíðsson fæddist á Patreksfirði þann 3. maí 1927. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 13. nóvember sl. Foreldrar hans voru hjónin Davíð Davíðsson, f. 21.ágúst 1903, d. 11. janúar 1980 og Sigurlína Benediktsdóttir, f. 8. nóv 1900, d. 18. apríl 1941. Stjúpmóðir Benedikts var Guðrún Guðbjörg Einarsdóttir. Benedikt átti tvo yngri albræður, þá Ólaf, f. 1929 og Davíð Jóhannes, f. 1933. Einnig átti hann fjögur hálfsystkini, þau Sigurlínu, f. 1942, Guðnýju, f. 1944, Höskuld, f. 1948 og Hreggvið, f. 1953. Börn Guðrúnar voru einnig fjögur, Ingimar Einar, Guðjóna, Gunnbjörn og Guðrún Ólöf. Benedikt var fæddur og uppalinn á Patreksfirði en fluttist til Reykjavíkur vorið 1945. 1952 kvæntist hann Guðnýju Stígsdóttur frá Horni á Hornströndum, f. 24.8. 1928, d. 8.3. 1972 og varð þeim fjögurra barna auðið. Þau eru: 1) Guðríður Helga, f. 1950, hennar maður er Hagerup Isaksen. Börn þeirra eru: a) Haraldur, kona hans er Ásthildur Gestsdóttir og eiga þau fjögur börn. b) Guðný Rut, hún á tvö börn. c) Rakel Ýr, hennar maður er Einar Helgason, þau eiga þrjú börn. d) Helgi Már hann er kvæntur Bergrúnu Ísleifsdóttur, þau eiga tvö börn. 2) Viggó, f. 1951, kvæntur Diljá Markúsdóttur. Þeirra börn eru: a) Benedikt, sambýliskona hans er Linda Rós Björgvinsdóttir, þau eiga eitt barn. b) Þórmar, kvæntur Gígju Rós Sigurðardóttur, þau eiga tvö börn. c) Rebekka Rós, sambýlismaður hennar er Halldór Halldórsson, þau eiga tvö börn. 3) Elfa Björk, f. 1956, hún er gift Magnúsi Reyni Ástþórssyni. Börn þeirra eru: a) Hulda Björt sem er í sambúð með Þorsteini Kristinssyni. Hulda á eina dóttur. b) Hjörtur Bæring. c) Hákon Bragi. d) Halla Bryndís. 4) Jóna, f. 1962 gift Henry Bæringssyni. Börn þeirra eru: a) Kristín Þóra sem er í sambúð með Arnóri Stígssyni). b) Guðný Harpa, sambýlismaður hennar er Ari Jóhannsson, þau eiga tvö börn. c) Bæring Rúnar. Benedikt gekk að eiga Finnbjörgu Guðmundsdóttur 1978, þau eignuðust tvö börn: 1) Stefni, f. 1980, börn hans eru: a) Davíð Þór. b) Viggó Böðvar. 2) Birnu Eik, f. 1982. Synir hennar eru: a) Eyþór Atli. b) Benedikt Eysteinn. c) Baldur Prause. d) Jón Egill. Fyrir átti Finnbjörg soninn Guðberg Egil, f. 1971, kona hans er Birna Kristín Friðriksdóttir. Börn þeirra eru: a) Ingvar. b) Benedikt. c) Anna Kristjana. Benedikt og Finnbjörg fóstruðu einnig Kára Walter Margrétarson og Davíð Þór Stefnisson. Benedikt sótti sjó sem ungur maður á Patreksfirði en fluttist svo til Reykjavíkur til náms í húsasmíði. Námið stundaði hann samhliða sjómennskunni og lauk hann sveinsprófi frá Iðnskóla Reykjavíkur árið 1949. Benedikt tók virkan þátt stjórnmálum og vann ötullega að félagsmálum innan verkalýðshreyfingarinnar alla sína starfsævi. Á meðal hans hugðarefna innan verkalýðshreyfingarinnar voru lífeyrissjóðsmálin, uppbygging og virkni fæðingarorlofs- og atvinnuleysistryggingasjóða og almannatryggingakerfisins. Hann starfaði m.a. hjá ASÍ, Trésmiðafélagi Reykjavíkur og Sambandi byggingamanna. Eftir að eiginlegum starfsferli lauk starfaði hann hjá Landssambandi eldri borgara. Hann lét af störfum 78 ára að aldri. Útför Benedikts fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 20. nóvember 2009, og hefst athöfnin kl. 15.

Hvað er hægt að segja um mann sem búið er að skrifa um margar greinar og að auki heila bók? Okkur systur langar samt að rifja upp nokkrar minningar um frænda okkar, Benedikt Davíðsson. Benni var alltaf þarna, jafn sjálfsagður hluti af tilverunni eins og sólin sem kemur upp í austri. Að rifja upp minningar um hann þýðir í raun að rifja upp eigin bernsku og æsku því hann tengist öllum okkar uppvexti.

Benni var bróðursonur Harðar Davíðssonar, föður okkar, og fæddist í húsi afa okkar og ömmu á Patreksfirði. Hann var í raun einn af ,,litlu strákunum, á svipuðum aldri og yngstu föðurbræður okkar og mikill félagi þeirra. Guðný, fyrri kona Benna, og Sigrún, móðir okkar, voru systur, Stígsdætur frá Horni í Sléttuhreppi. Foreldrar okkar bjuggu í sama húsi í gegnum tíðina. Skyldleikinn mikill og samgangur einnig,  við vorum í raun eins og ein fjölskylda þótt þær væru tvær.

Fyrstu minningarnar um Benna frænda tengjast Miðstræti 5.  Benni var smiður, með stórar og sterkar hendur sem veittu öryggi. Myndin af Gurrý, elstu dóttur hans, standandi í opnum lófa á útréttum armi hans, örugg og brosandi, er enn ljóslifandi í hugskotinu, jafnvægisæfingarnar tókust með glans, pabbi var sterkur.

Smiðurinn negldi líka hænsnanet fyrir svalirnar á þriðju hæðinni, svo að krakkarnir dyttu ekki fram af. En það verptu dúfur á svölunum. Þeim var ekki fleygt út, nei. Benni leyfði krökkunum að skoða hreiður dúfnanna, en það varð að læðast út, ekki mátti trufla fuglana.

Frá Miðstræti lá leiðin í Kópavoginn þar sem fjölskyldurnar settust að á Víghólastíg 5. Þar fjölgaði börnunum. Benni setti sitt mark á húsið og íbúa þess. Gaf hann öllum viðurnefni og önsuðum við þeim eins og ekkert væri sjálfsagðara. Við sjáum hann fyrir okkur með gráu derhúfuna, að smíða, pússa og lakka. Og á síðari árum, með naglaklippurnar í hendinni, þegar hann sagði frá atburðum líðandi stundar.

Um pólitík, verkalýðsbaráttu, jafnrétti og réttlæti hafa aðrir ritað. Fyrir okkur var Benni bara oft á fundum, í sjálfu sér ekkert meira um það að segja.

Og auðvitað þótti okkur merkilegt þegar frændi fór til útlanda og kom heim með gjafir handa öllum, m.a. leikföng sem enn eru varðveitt.

Fólkið á Víghólastígnum hafði gaman af söng, ekki síst Benni. Hann hafði góða söngrödd og söng af innlifun, sérstaklega þegar kom að lögunum ,,Langt fyrir utan ystu skóga og að ekki sé talað um ,,Bláfjóluna. Þessi lög og hann eru eitt.

Um gamlársdag og nýársnótt eigum við góðar minningar. Fjölskyldurnar sameinaðar í gleðinni og var iðulega sungið og trallað fram undir morgun. Síðar urðu börnin foreldrar og barnabörnin þátttakendur. Ekkert okkar gleymir nýársnóttunum á Víghólastíg 5.

Þegar Stígsfjölskyldan frá Horni, hóf  viðgerðir og endurbætur á ættaróðalinu þar, lagði Benni hönd á plóg. Hann naut þess ekki síður en afkomendur hans að dvelja í víkinni, njóta umhverfisins í kyrrðinni og horfa á sólarlagið sem hvergi er eins og þar.

Það er sérkennileg tilviljun að Andrea amma (stjúpamma Benna) dó á afmælisdeginum hans  árið 1968 og hann var jarðsettur á afmælisdegi hennar. Böndin milli þeirra voru sterk, enda fæddist hann í hennar húsi eins og fyrr er getið.

Við, sem ólumst upp á Víghólastíg 5, kennum okkur gjarnan við húsið, okkar á milli. Benni og fjölskylda hans ásamt foreldrum okkar sköpuðu umhverfið þar, öryggið og skjólið og hlúðu að þeim sem þar bjuggu, bæði ,,niðri og ,,uppi.

Við teljum okkur heppnar og erum þakklátar fyrir að hafa átt Benna frænda og fólkið hans að. Slíkir ættingjar eru gulls ígildi.


Harpa, Gígja og Andrea Harðardætur.