Auður Tryggvadóttir Lést þann 9. desember sl. á landspítalanum við Hringbraut. Auður var fædd í Fellstrandarhreppi Dalasýslu 31. Júlí 1943 og eru foreldar hennar Tryggvi Gunnarsson frá Skorravík í Fellstrandarhreppi, Dalasýslu fæddur 12. desember 1884, látin 16. ágúst 1954 og Kristín Guðmunda Elísabet Þórólfsdóttir frá Vonarholti í Kirkjubólshreppi Strandasýslu fædd 20. nóvember 1917. Alsystkini , eru Svanur Breiðfjörð, látin f. 1940, Gunnar f. 1941, Ásdís f. 1942, Gissur f. 1944, Edda f. 1946, Þorgeir f. 1947, Guðborg f. 1948, Tryggvi f. 1949 og Sigríður f. 1951. Systkini samfeðra eru, Ólafur f. 1911, Einar Breiðfjörð f. 1913, Svava f. 1915, Soffía f. 1916, Ebba f. 1919, Hildiþór f. 1920, Ása f. 1922, Jóhanna f. 1923, Lilja f. 1924 og Jóna f. 1927. Á lífi eru Jóna og Jóhanna. Auður giftist Birni Stefáni Guðmunssyni frá Reynikeldu í Dalasýslu árið 1962, þau skildu. Börn þeirra eru 1)Helgi G. Björnsson fæddur 1961, bankaútibússtjóri, maki Kristín Emilsdóttir. Börn, Hlynur fæddur 1991, Heiðrún Björk fædd 1992 og Álfrún Lind fædd 2005. 2)Guðbjörg fædd 1962, kennari, maki Haraldur Bragason, látin. Börn, Auðunn fæddur 1990, Helga fædd 1992 og Margrét fædd 2000. 3)Elísabet Björg fædd 1963, snyrtifræðingur, maki Jón Engilbert Sigurðsson. Synir, Pálmi fæddur 1980 faðir Rögnvaldur Pálmason og Stefán Geir fæddur 1990 faðir Jón Skúli Sigurgeirsson. Börn Jóns Engilberts eru Sigurður Einar fæddur 1996, Marta María og Súsanna Erna fæddar 1998. Auður starfaði lengst af í Sundhöllinni í Reykjavík eða í um 20 ára skeið og áður vann hún hjá Mjólkusamsölunni í Reykjavík um nokkura ára skeið. Útför Auðar fór fram í kyrrþey frá Digraneskirkju fimmtudaginn 17. desember sl.

Nú hefur Auður föðursystir mín fengið hvíldina, eftir langa og harða baráttu.
Hún var elskuleg og hlý, hún hafði glettilega gott skopskyn og var fljót að koma auga á spaugilegu hliðarnar á tilverunni.
Þar sem ég umgekkst  föðurfólk mitt lítið fyrripart ævinnar kynntist ég ekki Auði frænku fyrr en ég var 16 ára, þá kom ég á heimili hennar í Búðardal.
Þegar ég sá og heyrði Auði frænku mína í þetta fyrsta skipti sem ég man eftir, þá fann ég loks samhljómun við þá hlið á sjálfri mér sem mér fram að því hafði þótt framandi og svoldið væmin.
„Já, nú skil ég af hverju ég er svona eins og ég er, ég er eins og hún“, man ég að ég hugsaði.
Þó ég vildi gjarnan geta líkt mér við Auði frænku mína hef síðan komist að því að hún var með hælana langt fyrir framan mínar tær á flestum sviðum.
Ég fór með pabba að hitta hana þessa daga sem hún lá banaleguna, fyrsta kvöldið var hún svo ótrúlega hress og þau systkinin rifjuðu upp gömul uppátæki og hlógu mikið.
Við sátum svo hjá henni stundarkorn kvöldið áður en hún kvaddi, mér fannst svo sárt að sjá pabba þar sem hann sat og strauk hendina á henni, hann fann svo til með litlu systur og var svo beygður yfir örlögum hennar.
Ég á ekkert nema góðar minningar um yndislegu Auði frænku mína og mikið hræðilega þykir mér sárt að þurfa að kveðja hana nú, svona allt of snemma.
Elsku Guggu, Elsu og Helga, fjölskyldum þeirra, ömmu minni og öllum þeim sem nánir voru Auði, votta ég mína hjartans samúð.



Þórdís Una Gunnarsdóttir.