Grímur Magnússon fæddist í Flögu í Villingaholtshreppi 8. september 1927. Hann lést á dvalarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka 12. desember sl. Foreldrar hans voru Magnús Árnason bóndi og hreppstjóri í Flögu, f. að Hurðarbaki 18. október 1887, d. 23. desember 1973 og Vigdís Stefánsdóttir, f. að Háakoti í Fljótshlíð 13. október 1891, d. 14. mars 1977. Systkini Gríms eru Árni, f. 7. desember 1917, Guðrún, f. 9. ágúst 1919, Stefanía, f. 29. apríl 1921, Brynjólfur, f. 15. júlí 1922, d. 19. janúar 1983, Sigríður, f. 1. nóvember 1924, d. 13. júlí 1987, Guðríður, f. 30. júní 1926, Anna, f. 17. apríl 1929, d. 14. janúar 2005, og Unnur, f. 28. mars 1930. Uppeldisbróðir, Stefán Jónsson, f. 5 nóvember 1934. Grímur ólst upp í Flögu og vann að búi foreldra sinna. Upp úr tvítugu réði hann sig til sjós á vertíðum og réri bæði frá Vestmannaeyjum og Þorlákshöfn. Þá vann hann um tíma við pípulagnir hjá Kaupfélagi Árnesinga. Á þessum árum aðstoðaði hann við búskapinn í Flögu flest sumur og í sínum frístundum. Hann flytur alfarið til Þorlákshafnar uppúr 1960 og byggir sér hús að B-götu 24 og var sjálfstætt starfandi vörubílstjóri um árabil. Eftir að hann hætti rekstri eigin vörubifreiðar gerðist hann vörubílstjóri og vann fleiri störf hjá Meitlinum h.f. í Þorlákshöfn. Að síðustu starfaði Grímur hjá Glettingi h.f. í Þorlákshöfn við salfisk, síldar- og aðra fiskvinnslu þar til hann lét að störfum 67 ára að aldri. Þar fyrir utan vann hann tímabundið önnur störf, vann m.a. við hafnargerðina í Þorlákshöfn og eina vertíð í Hafnarnesi h.f. Um 1970 færir Grímur sig um set í Þorlákshöfn og bjó eftir það að B-götu 9. Árið 1979 bregður Árni, bróðir Gríms, búi í Flögu og þá fara flest systkinin að nýta jörðina sem frístundajörð. Eftir það eyðir Grímur flestum sínum frístundum og öllum sumarfríum í Flögu við heyskap og annað sem til féll af miklum áhuga og eljusemi. Eftir að Grímur lætur af störfum 1994 flytur hann alfarið á æskuslóðirnar og byggir sér íbúðarhús í Króki, sem er hluti jarðarinnar Flögu, en þar hafði hann áður komið sér upp sumaraðstöðu. Eftir að heilsunni hrakaði og hann sá sér ekki lengur fært að búa einn flyst hann í byrjun þessa árs á dvalarheimilið Sólvelli á Eyrarbakka og naut þar góðrar aðhlynningar til hinstu stundar. Útför Gríms fer fram frá Selfosskirkju í dag, laugardaginn 19. desember 2009, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Genginn er sinn síðasta spöl vinur okkar, öðlingurinn Grímur Magnússon. Við Grímur kynntumst fyrir um það bil aldarfjórðungi, þá var hann enn í fullu fjöri, kominn með annan fótinn að Flögu, en fullur af orku og áhuga um alla hluti. Fengum við hjá þeim Flögu bændum slægjur sem við höfum haft meira og minna síðan. Strax við fyrstu kynni tókst með okkur Grími vinátta sem hefur staðið æ síðan og aldrei borið skugga á, þó í byrjun hafi ég verið hálfgerður stráklingur, en Grímur gerði allt sem í hans valdi stóð til að hjálpa mér og leggja lífsreglurnar. Því hætti hann reyndar aldrei, þó með árunum hafi samskiptin þróast yfir í að ég reyndi að rétta honum hendi við hina ýmsu hluti. Þá helst í kringum bíla og véladótið hjá Grími, og áttum við saman margar ógleymanlegar bæði stundir og ferðir, víða um sveitir í kringum það.

Grímur var með eindæmum gestrisinn maður, svo að helst skyldi drukkið kaffi bæði fyrir og eftir verk, jafnvel þó að verkið tæki bara fáeinar mínútur. Hann lét mann líka heyra það, ef maður hafði komið og ekki gert vart við sig, þannig að maður aflagði slíkar ferðir. Hugurinn var alltaf mikill hjá Grími og entist honum alla tíð, þó skrokkurinn væri búinn síðustu árin. Sem dæmi um það þá talaði hann við mig fyrir rúmu ári síðan og vildi endilega skipta um traktor og fá vél sem hann ætti betra með að ganga um, úr þessu varð, þó hann hafi því miður lítið getað notið þess vegna hratt hrakandi heilsu. Eftir að ég eignaðist börn, tók ég þau stundum með mér að Króki og þó að Grímur væri ekki alltaf lágvær né árennilegur þá löðuðust börnin að honum enda talaði hann við þau eins og fullorðna. Minnist ég þess þegar þau stóðu sinnhvoru megin við stólinn hans og töluðu hvort í kapp við annað, að segja Grími fréttir, þó sú litla skildist ekki, þá gerði það ekkert til. Ef ég fór barnlaus að Króki,spurði Grímur hvort ég væri einsamall, og Eiríkur skammaði mig þegar heim var komið fyrir að hafa verið skilinn eftir heima.Alltaf þegar keyrður var Lútandinn, þá brást ekki að Eiríkur spurði hvort ekki ætti að fara til Gríms, því þangað sótti hann mjög að koma. Það varð að fastri venju að heimsækja Grím á aðfangadag og færa honum jólakortið og kannski smá pakka. Þessar heimsóknir tilheyrðu orðið jólunum og enginn vildi missa af þeim, ekki einu sinni unglingarnir, því fyrir Grími voru allir gestir jafnir, vikið hlýju að þeim sem við átti og þeim strítt sem við átti, enda mjög stutt í glettnina. Hann kunni líka frá ýmsu að segja, bæði gömlu og nýju. Í lok heimsóknar voru börnin svo leyst út með gjöfum, sem þeim þótti alltaf jafn vænt um. Eftir á sér maður eftir því að hafa ekki gefið sér meiri tíma í að fræðast um hans lífshlaup, sem ekki var alltaf leikur, heldur frekar markað af vinnu, seiglu og ósérhlífni.

Gríms verður sárt saknað og minnst með hlýju af mér og minni fjölskyldu. Hafðu þökk fyrir allt gamalt og gott kæri vinur.

Ættingjum vottum við okkar innilegustu samúð og þó sérstaklega Sigurbergi Brynjólfssyni sem var Grími sem besti sonur síðustu árin.


Árni á Skúfslæk.